Hver reisir upp æru íslenskra stjórmálamanna?

eftir Ritstjórn

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Á þetta var minnt í lok vikunnar þegar ráðherra dómsmála tókst að sprengja ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, flokksfélaga síns. Staðan er því sú, að umræddri stjórn tókst ekki á kjörtímabilinu að koma fjárlögum gegnum þingið og raunar hefur fátt gerst síðan hún tók við stjórnartaumunum í byrjun árs. Á það skal minnt að um tvo og hálfan mánuð tók að hamra hópinn saman, en meirihlutinn hékk á einum þingmanni sem kunnugt er.

Á blaðamannafundi í Valhöll á föstudag, lýsti Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, yfir mikilli ergju yfir því hversu illa það gengi að skapa pólitíska festu í stjórnmálum hér á landinu. Á síðustu tíu árum hefur aðeins einni ríkisstjórn tekist að halda út heilt kjörtímabil,  ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Á síðustu árum hefur fylgi hins svokalla fjórflokks dregist saman um tugi prósenta og vísar að nýjum stjórnmálaflokkum sprottið upp eins og gorkúlur.

Umræddur stöðugleikinn kom skýrlega í ljós þegar Björt framtíð ákvað að hætta ríkisstjórnarsamstarfinu aðfararnótt föstudags með rafrænni atkvæðagreiðslu seint um kvöld. Daginn eftir tók það forystumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi ekki nema nokkrar klukkustundir að komast að þeirri niðurstöðu að líklega væri best að boða til kosninga sem fyrst.

Það eru orð að sönnu hjá Bjarna að illa gangi að skapa jafn stöðuga stjórn í landinu og efnahagurinn er nú. Sú þróun, að fylgi kjósenda dreifist milli smáfylkinga sem enga pólitíska reynslu hafa, er afleit.

Óstöðugleikinn einn stöðugur í íslenskum stjórnmálum

Að miklu leyti er óstöðugleiki í stjórnmálum þó ekki bundinn við Ísland, heldur hefur sömu þróunar gætt í mörgum öðrum vestrænum löndum á borð við Bandaríkin, Frakkland, Bretland o.s.frv. Þar hefur einnig sprottið upp fjöldi smárra fylkinga í líkingu við Pírata, Dögun, Flokk fólksins og Íslensku þjóðfylkinguna.

Líkt og að framan segir má taka undir með formanni Sjálfstæðisflokksins um margt tengt stjórnmálaástandinu í augnablikinu. Eftir atburðarás síðustu viku vakna þó óneitanlega spurningar um það hvort í stjórnmálasenunni finnist einhver til að leiða uppbyggingu stöðugs stjórnarfars á Íslandi. Staðreyndin er nefnilega sú að enginn hinna flokkanna hefur áhuga á að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Ekki í óbreyttri mynd í það minnsta.

Aðrir rótgrónir flokkar eru ekki nema svipur hjá sjón, þ.e.a.s. Framsóknarflokkur og Samfylking. Þar eru frátalin Vinstri græn, sem eru nú í sögulegu fylgishámarki. Flokkurinn stendur hins vegar svo langt úti á vinstri vængnum að varla má ætla að kjörfylgi flokksins hafi aukist. Líklega er aðeins um tímabundið ástand að ræða.

Nú standa aðeins tveir flokkar eftir sem eru tilbúnir að vinna með Sjálfstæðisflokknum í núverandi mynd, Framsóknarflokkurinn og Viðreisn. Þegar vel er að gáð, má sjá að engar líkur á að þeir tveir flokkar séu að fara starfa saman enda eru flokkarnir á algjörlega öndverðum meiði þegar kemur að landbúnaðarmálum og hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýst því yfir að samstarf við Viðreisn sé ekki möguleiki.

Það verður því fróðlegt að sjá hvernig úr spilast þegar kosið verður í haust. Þá gæti komið í ljós hverjum tekst að mynda sátt um stjórnmál á Íslandi.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.