Hver læknar lækninn?

eftir Ágúst Ingi Guðnason

Hinir árlegu Læknadagar er nú í fullu fjöri í Hörpunni. Í ár eru þó ákveðin tímamót þar sem Læknafélag Íslands fagnar aldarafmæli sínu. Í tilefni þess ætlaði undirritaður að skrifa hátíðalega grein um batnandi lífslíkur, nýjar uppgötvanir eða annan árangur læknavísinda. Eftir þó nokkra umhugsun var þó annað sem lá honum á hjarta.

Reglulega kemst í umræðuna vestan hafs óvenju há tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna meðal lækna. Talið er að hátt í ein milljón Bandaríkjamanna missi lækninn sinn vegna sjálfsvíga ár hvert. En læknar eru líklegri til sjálfsvígstilrauna en hinn almenni borgari ásamt því að vera líklegri en aðrar svipaðar fræðastéttir. Til að bæta gráu ofan á svart eru þeir einnig sérstaklega líklegir til að takast slík tilraun.

Nokkur þögn hefur ríkt um þessi mál í gegnum tíðina en þau eru alls ekki ný af nálinni. Umræðan hefur þó fengið uppreist æru sinnar en víðfrægar stofnanir, svo sem Mayo Clinic, hafa skorið upp herör gegn þróuninni. Einnig hefur einstaklings framtakið skilað sínu og má þar nefna skrif og fræðslu heimilislæknisins Pamela Wible, en hér má sjá síðustu grein hennar.

Hvað veldur þessari háu tíðni meðal lækna og hvers vegna eru þeir sem vinna við slík vandamál með svona takmarkaða innsýn í eigin vanda?

Starfið, umhverfið, breytingar

Það telst vart til tíðinda lengur þegar fréttir berast af yfirfullum spítala eða biðlistum sem virðast engan enda hafa. Á sama tíma er krafist sparnaðar og aukinna afkasta þar sem sífellt skemmri tími fer í hvern sjúkling. Þróun kerfisins í þessa átt hefur verið kölluð færibands læknisfræði (e. assembly line medicine) og bitnar á bæði læknum og sjúklingum. Það ætti að vera nokkuð augljóst að þessari þróun fylgir bæði streita og aukið álag. Það er ekki aðeins starfsumhverfið sem er streituvaldur heldur starfið sjálft, en mistök geta verið upp á líf og dauða. Jafnvel þegar engin mistök eru gerð getur andlát sjúklings skilið eftir sig viðvarandi spor á samvisku læknisins. Slík vanlíðan er þó aðeins skuggi af þeirri sem kemur ef það voru mistök sem leiddu til andlátsins. Þrálátar hugsanir um “hvað ef” og “ef ég hefði bara” sækja á og þegar snjóboltinn byrjar að rúlla getur verið erfitt að stöðva hann. Í hyldýpi slíkra hugsana getur eina lausnin út verið að binda enda á líf sitt, sjálfsvíg verður hin réttláta refsing fyrir mistökin.

Heilsufarslegar afleiðingar streitu

Afleiðingar streitu á líkamann hafa verið marg rannsakaðar en þær eru víðtækar á bæði andlega og líkamlega heilsu. Áhrif streitu ættu allir að hafa á bak við eyrað en hér eru dæmi um nokkrar:

 • Andlegar:
  • minnisleysi, dómgreindarleysi, kvíði, þunglyndi, skapvonska, óróleiki, einangrun
 • Líkamlegar:
  • offita, niðurgangur, breytingar í kynhvöt, verkir, breytingar á svefn, áhrif á ónæmiskerfið

Þegar kemur að álagi og streitu er tíminn í lykilhlutverki. Líkja má streitu við að halda á vatnsglasi í útréttri hendi, fyrst um sinn er það ekkert mál en þegar mínútur verða að klukkustundum mun glasið beygja hina sterkustu hendi.

Eigin fordómar

Kannski eru það eigin fordómar læknisins sem verða honum að endanum að falli en eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru þeir oft á tíðum rægir við að leita sér aðstoðar. Afneitun á vandanum, fordómar gagnvart því að þurfa hjálp ásamt ótta við að viðkvæmar upplýsingar haldist ekki leyndar. Hver á nú eftir að vilja leita til læknisins sem gat ekki einu sinni hjálpað sér sjálfur?

Að lokum eiga orð Nietzche vel við en hann er sagður hafa “misst vitið” á sínum síðari árum: “There is a false saying: “How can someone who can’t save himself save others?” Supposing I have the key to your chains, why should your lock and my lock be the same?”

 

 

Heimildarskrá:

 • Center C, Davis M, Detre T, Ford DE, Hansbrough W, Hendin H, Laszlo J, Litts DA, Mann J, Mansky PA, Michels R, Miles SH, Proujansky R, Reynolds III CF, Silverman MM. Confronting Depression and Suicide in PhysiciansA Consensus Statement. JAMA. 2003;289(23):3161–3166. doi:10.1001/jama.289.23.3161
 • Hampton T. Experts Address Risk of Physician Suicide.JAMA. 2005;294(10):1189–1191. doi:10.1001/jama.294.10.1189
 • Tyssen, R., Vaglum, P., Grønvold, N. and Ekeberg, Ø. (2001). Suicidal ideation among medical students and young physicians: a nationwide and prospective study of prevalence and predictors. Journal of Affective Disorders, 64(1), pp.69-79.
 • Schernhammer, E. and Colditz, G. (2004). Suicide Rates Among Physicians: A Quantitative and Gender Assessment (Meta-Analysis). American Journal of Psychiatry, 161(12), pp.2295-2302.
 • Lindeman, S., Läärä, E., Hakko, H. and Lönnqvist, J. (1996). A Systematic Review on Gender-Specific Suicide Mortality in Medical Doctors. British Journal of Psychiatry, 168(03), pp.274-279.
 • Arnetz, B., Hörte, L., Hedberg, A., Theorell, T., Allander, E. and Malker, H. (1987). Suicide patterns among physicians related to other academics as well as to the general population. Acta Psychiatrica Scandinavica, 75(2), pp.139-143.
 • McEwen, B. (2008). Central effects of stress hormones in health and disease: Understanding the protective and damaging effects of stress and stress mediators. European Journal of Pharmacology, 583(2-3), pp.174-185.
 • Larzelere, M. and Jones, G. (2008). Stress and Health. Primary Care: Clinics in Office Practice, 35(4), pp.839-856.

Ágúst Ingi Guðnason

Pistlahöfundur

Ágúst Ingi er 5. árs læknanemi í Háskóla Íslands og starfar á geðsviði Landspítalans. Hann er varaformaður Hugúnar geðfræðslufélags og fyrrverandi gjaldkeri sama félags. Einnig hefur hann setið sem varamaður í stúdentaráði og fulltrúi nemenda í kennslunefnd heilbrigðisvísindasviðs. Áhugamál Ágústs Inga eru læknisfræði, taugavísindi og sagnfræði.