Hver borgar fyrir fötin mín?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Skyldu einhverjir Íslendingar ekki hafa tekið eftir aukinni neyslu síðustu ára eru viðkomandi einstaklingar eflaust ekki gjarnir á að stíga út fyrir dyrnar á heimili sínu. Flest okkar hafa staðið sig í að kaupa einhvern óþarfa eftir að hafa heyrt um nauðsyn þessarar sömu frábæru vöru á samfélagsmiðlum; vöru sem okkur var talin trú um að væri með öllu nauðsynleg og töluvert betri en nokkuð sem við eigum heima. Oft safnast þessar vörur saman inni í skápum, varla notaðar og jafnvel ennþá með verðmiðanum á. Á meðan við keppumst við að gagnrýna duldar auglýsingar virðumst við hafa með öllu misst sjónar af því hvaða vandamáli við stöndum raunverulega frammi fyrir: ofaukinnar neyslu.

Fatnaður þjónar tvenns konar tilgangi. Annars vegar nýtist hann til að verja líkama okkar og þægindi í okkar daglega lífi. Hins vegar nýta margir fatnað sem tæki til þess að tjá sig og persónuleika sinn út á við. Á sama tíma og ég fagna þeim fjölbreytileika og tjáningarfrelsi sem felst í klæðaburði fólks þá hefur á síðustu árum neysla á þessum varningi vaxið fiskur um hrygg. Nýlega fjallaði Kjarninn um þá fráleitu aukningu sem orðið hefur á því magni af fötum og skóm sem Íslendingar henda árlega. Það mætti því halda að við höfum talið okkur trú um að það sé í góðu lagi að kaupa endalaust nýjar flíkur, enda gefum við þær jú áfram til góðgerða þegar við höfum fengið nóg. Þessi hegðun sýnir þann takmarkaða skilning sem neytendur hafa á áhrifum neyslu sinnar og kostnað hennar fyrir samfélag heimsins í heild sinni.

Förum því nánar ofan í saumana á virðisaukakeðju fatnaðar. Til að byrja með eru hráefni sem og ull, bómull, silki og jafnvel olía, svo eitthvað sé nefnt, verkuð. Þetta fyrsta skref kostar bæði auðlindir, svo sem vökvun og landssvæði, en einnig mannafla, þ.e. vinnu fólks við vöxt og verkun efnanna. Því næst eru efnin sjálf framleidd úr þessum hráefnum. Hér er um að ræða flutning hráefnanna sem og vinnslu þeirra, sem kostar aftur mannafla, orku og aðrar auðlindir, til að mynda liti sem sumir eru umhverfisvænni en aðrir. Að þessu loknu er komið að framleiðendum að sníða úr þessum efnum vöru. Efnin eru þá flutt til framleiðanda, sem svo aftur nýtir auðlindir og mannafla til að framleiða loka-vöruna. Ferlinu er þó ekki lokið hér. Því næst eru vörurnar fluttar lengri vegalengdir í dreifingarstöðvar. Rekstur slíkra geymslna kostar að sjálfsögðu bæði landsvæði, orku og starfsmenn. Því næst eru vörur þessar fluttar í verslanir eða því til gerðar geymslur, sem reknar eru með svipuðu móti og dreifingarstöðvarnar, einungis orkufrekari. Að lokum keyrum við á einkabílunum okkar í þessar verslanir, kaupum þær vörur sem okkur lystir til, fáum þær í plastpokum og keyrum svo aftur heim. Allt í allt hefur þetta ferli því kostað heimsbyggðina aukin kolefnisútblástur, orkuneyslu, oftar en ekki frá óendurnýtanlegum orkugjöfum, og hráefni sem verða ekki svo auðveldlega endurnýtt. Ekki þarf svo lengra að líta í virðisaukakeðjunni en að vöruframleiðslunni til að finna ómennskar launagreiðslur, shvers kaupmáttur dugir ekki einu sinni fyrir tyggjói í stykkjatali hér á vesturlöndum svo ekki sé minnst á þær hryllilegu vinnuaðstæður sem margir hverjir þurfa að vinna við. Engu að síður flykkjumst við út í búð, kaupum langt fram úr hófi af þessum ódýrum flíkum og göngum svo út með bros á vör eftir þessi líka kjarakaup, svo er virðist – algerlega ómeðvituð um raunverulegan kostnað þessara flíkna. Væri ekki vissara að stoppa næst, áður en við festum kaup á nýjum fatnaði, og spyrja okkur annars vegar hvort við raunverulega þurfum hann, og hins vegar hvort kostnaður hans sé í raun og veru þess virði?

Það er vissulega óraunhæft að biðja fólk að hætta með öllu kaup á nýjum varningi og breyta þar með hegðun sinni með öllu. Ég velti því þó fyrir mér hvort neyslumynstur fólks breytist ef meiri virðing er borin fyrir því ferli sem á sér stað svo við getum keypt og klæðst þessum flíkum? Ætli sé nóg að fólk sé einfaldlega meðvitað raunverulegan uppruna og kostnað kaupvarnings? Eða þarf þessi varningur einfaldlega með öllu að verða dýr á ný, til þess að minnka neyslu okkar á honum?


Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.