Hver ber ábyrgð á loftslagsvánni? Á ÉG að gera það?

eftir Jón Birgir Eiríksson

Um fátt er meira rætt þessi misserin en loftslagsvána. Flestir, í það minnsta hér á landi, virðast hallast að sömu hlið og þeir vísindamenn sem haldið hafa á lofti vísbendingum um hlýnun jarðar. Einkum þeir sem yngri eru. 

Þegar litið er til þeirra aðgerða sem fólk er tilbúið að grípa til, málstaðnum til góðs er staðan þó misjöfn frá manni til manns. Allur gangur er á því hvort fólk er tilbúið að grípa sjálft til aðgerða í umhverfisvernd, en margir virðast í það minnsta tilbúnir að krefjast aðgerða af hálfu annarra og reyna að höfða til ábyrgðar einstaklinga og fjölskyldna. Sumir hafa hætt að borða kjöt, aðrir keyra um á rafbílum, nýta sér almenningssamgöngur, sniðganga plast eða flokka heimilisúrganginn.

Sjónum er einnig beint að fyrirtækjum og stjórnvöldum, sem margir telja bera höfuðábyrgð á hnatthlýnuninni. En hversu mikil er ábyrgð fyrirtækja og stjórnvalda í raun? Er hægt að varpa öllum heimsins vandamálum yfir á þá sem standa í brú ráðuneyta og stórfyrirtækja?

Eru fyrirtæki kannski bara fólk?

Á Íslandi og á vesturlöndum almennt eru lýðræðislegir stjórnarhættir iðkaðir sem þýðir að kjósendur bera ábyrgð á því sem hið opinbera gerir, gott eða slæmt. Þegar uppi er staðið er ábyrgðin kjósenda, þótt stjórnmálamönnum sé vissulega „gefinn laus taumur“ í þau fjögur ár sem þeir sitja. Í mínum huga er endanleg ábyrgð þó skýr. Hún er kjósenda, en ekki ríkisins eða stjórnmálamanna nema að vissu leyti. Kjósendur þurfa í það minnsta að sýna vilja sinn í verki og „refsa“ þeim stjórnmálamönnum í kosningum sem ekki framkvæma það sem kjósendum þóknast, sé umrætt málefni kjósendunum svo ofalega í huga.

Þegar kemur að fyrirtækjum flækist málið kannski í hugum einhverra, en í mínum huga eru ríkið og fyrirtæki að sumu leyti ekki ósvipuð að því leyti hvar ábyrgðin liggur. Í grunninn veita fyrirtæki þjónustu eða búa til vörur sem eftirspurn er eftir og leitast þannig við að hámarka hagnað sinn þannig eigendur þeirra geti fengið eitthvað fyrir sinn snúð, þ.e. notið ávaxtar af því að hafa lagt fé inn í fyrirtækin. Hið síðarnefnda, arðsemismarkmiðið, er grundvallarmarkmið fyrirtækja og forsendan fyrir því að vara eða þjónusta sé seld.

Hið fyrrnefnda, hverjir versla við viðkomandi fyrirtæki, er þó einnig grundvallarforsenda í starfsemi fyrirtækisins, svo einhverjar verði tekjurnar af rekstrinum. Að þessu leyti er fyrirtækið háð kúnnum sínum. Mislíki þeim varan, verður hún ekki keypt. Þannig eru fyrirtæki ekki ósvipuð ríkinu og stjórnir fyrirtækja og forsvarsmenn ekki ósvipuð stjórnmálamönnum. 

Þetta er lykiltól í höndum þeirra neytenda sem vilja stöðva fyrirtæki sem þeir telja að séu á slæmri vegferð í umhverfislegu tilliti. Viðskiptavinir fyrirtækja eiga þannig að geta krafist þess af hálfu stjórnendanna að þeir grípi til aðgerða í umhverfismálum, t.d. með því að minnka kolefnisfótspor eða draga úr plastnotkun. Fyrirtæki munu miklu síður taka málin í eigin hendur, stígi neytendur ekki niður fæti og geri fyrirtækjum ljóst að vara þeirra eða þjónusta verði ekki keypt nema með ákveðnum skilyrðum.

Fyrir utan allt þetta, þá eru fyrirtæki og stofnanir heldur ekki annað en fólk í sjálfu sér. Fólk að taka ákvarðanir, góðar eða slæmar.

Girða þau sig sjálfviljug í brók?

Í hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar á dögunum fjallaði Halla Tómasdóttir, forstjóri B-team, með ítarlegum hætti um þessi mál, en B-team er samansafn þekktra leiðtoga úr atvinnulífinu á alþjóðavettvangi sem beita sér fyrir breyttum stjórnarháttum í atvinnulífinu, m.a. að horft sé til framtíðar hvað varðar loftslagsmál, jöfnuð og kynjajafnrétti. 

Ég mælist til þess að lesendur hlusti á viðtalið, hafi þeir ekki þegar gert það, en Halla lýsti í því sjónarmiðum sínum og teymisins um að þau fyrirtæki sem ekki fari að huga að framtíðinni muni sitja eftir þegar uppi er staðið. Þetta er gott og gilt, en ég efast um að þau fyrirtæki sem ekki þurfa að girða sig í brók geri það sjálfviljug og í tíð og tíma, nema neytendur komi einnig að borðinu. Sé vilji til þess að sporna við hnatthlýnun fyrr en ella, er boltinn þannig fremur hjá neytendum en fyrirtækjum. Í það minnsta ef við ákveðum að halda okkur við markaðshagkerfið sem hefur vafalaust gert okkur gott hingað til.

Dæmið má leggja fyrir sig með þessum hætti: Myndi fyrirtæki sjálfviljugt leggja í þá vegferð að hvetja til umhverfisverndar, án þess að hagnast á því sjálft? Myndi matvöruverslun setja upp pökkunarborð í verslunum sínum þar sem taka má vörur úr plastumbúðum og skilja þær eftir til flokkunar, ef hún teldi að enginn myndi nýta sér slíkan möguleika? Myndi flugfélag bjóða upp á þann möguleika að farþegar geti kolefnisjafnað flugferðir sínar ef félagið teldi sig ekki skora stig hjá viðskiptavinum sínum? Myndi bílaumboð hafa til sölu rafbíla ef engin eftirspurn væri eftir þeim? Það er ólíklegt, nema annað og meira kæmi til. Ef við horfum til síðasta dæmisins um rafbíla má til dæmis benda á að stjórnvöld (kjósendur) hafa undanfarin ár slakað á krumlu sinni gagnvart eigendum rafbíla og búið til skattalega hvata þeim til handa.

Hvað skal gera í kjörklefanum og grænmetiskælinum?

Stóra vandamálið í tengslum við loftslagsvá, alla umræðu um hana og raunar margt annað, er þó upplýsingaflæði til þeirra sem tilheyra hópi neytenda og kjósenda. Upplýsingar um tiltekin málefni eru enda forsenda þess að fólk geti myndað sér skoðun á málefnum á traustum grunni, hvort sem það er statt í kjörklefa eða í matvöruverslun. Hvað veit ég um uppruna þeirra vöru sem ég kaupi? Er hún frá Kína? Er hún frá Svíþjóð? Hvað með sjónvarpið sem mig langar í? Það stendur Samsung á því, en það frá Suður-Kóreu? Var það kannski bara hannað þar, en er framleitt í mörgum verksmiðjum í mörgum löndum sem gefa öll eða ekkert skít í umhverfið? 

Á 21. öldinni, tækniöld, þegar aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið jafn mikið, virðist á sama tíma sem útbreiðsla rangra upplýsinga hafi aldrei verið meiri. Þetta birtist í vaxandi falsfréttaflutningi, tíðari notkun samfélagsmiðla og hnignun hefðbundinna fjölmiðla.

Eldarnir sem geisuðu. Samt ekki, en samt.

Sem dæmi um falsupplýsingar á samfélagsmiðlum má nefna að nýverið fengu myndir af skógareldum mikla dreifingu í tengslum við umræðu um loftslagsvána, n.t.t. skógarelda í Amazon-regnskógunum. Eftir að nafntogað fólk, t.d. þekktir leikarar í Hollywood og aðrir talsmenn umhverfisverndar, höfðu deilt myndunum kom í ljós að í mörgum tilvikum var um gamlar myndir að ræða sem tengdust ekki með nokkrum hætti þeim skógareldum sem geisuðu á þessu ári. Sumar myndanna voru ekki einu sinni úr Amazon-regnskógunum. 

Þá voru ýmsar upplýsingar á reiki um umfang skógareldanna. Sumir sögðu þá vera þá mestu í sögunni, en aðrir sögðu að engin merki væru um að þeir væru nokkur meiri en eðlilegt væri árlega. Þá gengu milli fólks upplýsingar um að plánetan hafi aldrei verið „grænni“ og því væri engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af skógareldunum. 

Þetta er langt því frá eina dæmið um falsfræðslu á internetinu, en misskilningur af þessum toga er ekki aðeins slæmur fyrir þá sem upplýsingarnar fá, heldur einnig fyrir þá sem upplýsingunum dreifðu
(líklega án þess að vita að þær væru ónákvæmar). Þetta getur orðið vatn á myllu efasemdamanna um málstað þeirra og í öfgafullum heimi, sérstaklega á samfélagsmiðlum, geta ein mismæli orðið banamein sem kunnugt er. Þar er enginn afsláttur gefinn, sem er skelfilegt í sjálfu sér.

Það er vandlifað og það er ein helsta áskorun fyrstu áratuga 21. aldar að finna tryggar leiðir fyrir réttar upplýsingar til almennings svo fólk geti mótað sér skoðun á eigin forsendum. Þá er um að ræða upplýsingar um allar hliðar mála, en ekki það sem í raun eru skoðanir einstaka samfélagshópa og þeir nefna sjálfir „réttar upplýsingar.“ Það þarf líka að tryggja að málsvarar í tilteknum málaflokkum dreifi ekki röngum upplýsingum, viljandi eða óviljandi. Þessi hluti vandans er efni í lengri umfjöllun og fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða farvegur upplýsingum verður fundinn á næstu árum og áratugum.

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.