Fötur um allar götur

eftir Erla María Tölgyes

Nú liggur fyrir frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem snýr að því að koma á fót svokölluðu húsnæðisbótakerfi sem koma mun í stað húsaleigubóta og vaxtabóta. Frumvarpið ætti með réttu að vera kallað ‘frumvarp um aukna aumingjavæðingu Íslendinga’ eins og Samtök leigjenda sögðu í umsögn sinni um frumvarpið, en það hefur í för með sér hærri greiðslu bóta til leigjenda. Markmiðið, að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu vegna leigu á íbúðarhúsnæði, er gott í sjálfu sér en framkvæmdin slæm einkum og sér í lagi á þrennan hátt.

Í fyrsta lagi hafa Samtök leigjenda, Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn öll bent á að hækkun bótagreiðslna sé líklegri til þess að skila sér í vasa leigusala heldur en leigjenda þar eð að leiguverð einfaldlega hækki í samræmi við hækkandi leigugreiðslur. Í því ljósi er það ekki staða hinna efnaminni sem batnar heldur mun staða fasteignaeigenda öllu heldur vænkast.

Í öðru lagi má benda á að frumvarpið er allsherjar áhlaup á vindmyllur. Sé miðað við könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands um þarfir ungs fólks gagnvart húsnæðismarkaðnum má sjá að yfirgnæfandi meirihluti vill helst festa kaup á sinni eigin fasteign. Stóra vandamálið á húsnæðismarkaði virðist því snúa að því að fólk á ekki fyrir útborgun í fasteign og neyðist því til þess að leigja. Frumvarpið er hins vegar ætlað sem bót á meinum leigumarkaðarins en þau eru ekki önnur en afleidd vandamál eignamarkaðarins og í því felst vindmylluáhlaup ráðherrans. Húsnæðiskerfinu mætti því í núverandi ástandi líkja við lekandi hús þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að gefa íbúum fötur til þess að setja undir lekana í stað þess gera við þá. Réttara væri að leggja fram frumvarp sem legði allt kapp á einfalda fólki að festa kaup á eigin húsnæði og beindi fjármunum í slík úrræði.

Í þriðja lagi má benda á að hugmyndafræði bótavæðingarinnar er í besta falli varhugaverð. Upp í hugann kemur orðtakið gefðu manni að borða og hann verður saddur í dag, kenndu honum að veiða og hann þarf aldrei að líða hungur aftur. Ég spyr því lesendur hvort hljómi betur; mánaðarlegur tékki frá ríkissjóði eða hvatar sem verðlauna sparnað fólksins sjálfs. Í mínum huga er spurningin einföld og svarið augljóst en seinni leiðin er líklegri til þess að auka öryggis- og ábyrgðartilfinningu einstaklinga gagnvart sjálfum sér. Á sama tíma er fólki gefinn kostur á að eiga sjálft og spara í formi húsnæðiseignar til elliáranna. Maðurinn sem veiðir sjálfur er mun líklegri til þess að verða saddur heldur en hinn sem reiðir sig á fisk ríkisins.

Af þessum ástæðum tel ég ástæðu fyrir hæstvirtan ráðherra til þess að draga frumvarpið til baka og endurskoða áherslur sínar í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að finna langtímalausn á húsnæðisvanda Íslendinga í stað þess að stökkva fram með föturnar undir lekann. Að mínu mati snýr sú lausn að því að auka hvata fólks til sparnaðar og aðstoða það við að kaupa fasteign. Mætti þá sérstaklega leggja áherslu á að gera skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðarins til kaupa á fyrstu íbúð varanlega en einnig mætti taka til skoðunar þær lausnir sem George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, hefur kynnt fyrir bretum. Í alla staði er frumvarp um aukna aumingjavæðingu Íslendinga óboðlegt.

Ljósmyndir teknar af Håkon Broder Lund

Erla María Tölgyes

Pistlahöfundur

Erla María er afbrotafræðingur með meistaragráðu frá Griffith háskóla og BSc gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfar við rannsóknir á högum og líðan ungs fólks og innleiðingu rannsóknabyggðrar forvarnavinnu tengdri vímuefnaneyslu ungmenna víða um heim. Áður hefur hún starfað sem fangavörður, verkefnastjóri og aðstoðarmaður forstjóra og tekið virkan þátt í ýmsum félagsstörfum. Helstu áhugamál Erlu eru jóga, vísindastörf og gott kaffi.