Hvatakjaftæðið

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Það má segja að ég hafi upplifað fjögur af fimm stigum sorgar þegar ég kynnti mér almennilega hver staða öryrkja er á Íslandi. Ég fékk vægt áfall, fór í afneitun, fylltist síðan af reiði og því næst fékk vægt þunglyndiskast. Síðasta stigið er sátt, ég held ég nái aldrei þangað. Þessi grein er sú fyrsta af fjórum sem skoða málefni öryrkja út frá því hvað er að virka og hvað er klikka, og hvað það er að kosta samfélagið.

Hverjir verða öryrkjar?

Það er ekki hægt að skoða hóp örorkuþega án þess að horfa til atvinnulausra eða þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð, þar sem það er samleitni í fjölda atvinnulausra og örorkulífeyrisþega. Þegar atvinnuleysi jókst á Íslandi varð einnig aukning í nýskráninu öryrkja, og þegar atvinnuleysi minnkaði dró úr nýskráningu öryrkja, en þó í minna mæli. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að þeir heilsulitlu séu líklegri til að missa vinnunna fyrr en aðrir, en það er líka þekkt að langtíma atvinnuleysi getur valdið heilsuskaða og leitt til örorku. Fjárhagsaðstoð sveitafélaga er skv. lögum síðasta úrræðið, lægsta öryggisnetið. Þeir sem ekki geta séð fyrir sér eða fjölskyldum sínum af eigin launatekjum, lífeyri eða bótum eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Margir neyðast til að sækja um fjárhagsaðstoð sem eru óvinnufærir vegna slysa, áfalls eða vegna erfiðra aðstæðna ef aðrir armar kerfisins klikka. Þessi samleitni er jafnframt merki um að kerfið er ekki að virka sem skyldi í að aðstoða fólk. Annars væri lítill sem enginn fólksflutningur hér á milli.

Nýjasta greining á orsökum örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins er frá árinu 2013. Þá voru 17.121 einstaklingur með 75% örorkumat í gildi hjá Tryggingastofnun.

Flestir öryrkjar eru komnir yfir miðjan aldur og eru slitnir eða óvinnufærir af álagi, sjúkdómum, slysum eða öðrum lífsviðburðum. Þó er munur á sjúkdómaflokkum eftir aldursbilum. Í aldurshópnum 30 ára og yngri voru 1.566 einstaklingar. Geðraskanir voru stærsti flokkurinn, 70% hjá körlum og 57% hjá konum. Aðrir sjúkdómar voru í minna mæli hjá þessum aldurshópi. Á aldrinum 30 – 49 ára voru 5.837 einstaklingar, 51% karla var skráð með örorku vegna geðraskana, en 43% kvenna. Í aldurshópnum 50 ára og eldri voru stoðkerfissjúkdómar helsta orsök örorku hjá konum en geðraskanir hjá körlum. Samtals voru 9.718 einstaklingar í þessum aldurshópi, 3.804 karlar eða 39,2% og 5.914 konur eða 60,8%.

Út frá þessu má álykta tvennt. Annars vegar það að slæm andleg heilsa getur orðið mjög kostnaðarsöm ef hún nær að ágerast í örorku. Því borgar það sig greinilega að bæta aðgengi að sálfræðihjálp og endurhæfingu til að sporna við örorku hjá áhættuhópum. Hins vegar er hjá 50+ aldurshópnum um að ræða fólk sem kemur af kynslóðinni sem hafði ekki sama aðgang að menntun og hinar. Þetta er fólk sem vann sig upp, baki brotnu, áratugum saman í allskonar erfiðisvinnum. Þetta eru ofurmömmurnar og ömmurnar sem unnu allan daginn, komu heim og þrifu allt húsið, elduðu kvöldmat og pössuðu að baka fyrir allar veislur frekar en að hvíla lúin bein, og eru núna komnar með alvarlega beinþynningu eða gigt vegna slitálags.

Og þetta kjaftæði um hvata…

Í umræðu um öryrkja er oft nefnt að það þurfi að vera meiri hvati fyrir öryrkja til þess að vinna frekar en að þiggja bætur. Rannsóknir hafa sýnt að öryrkjar upplifa aðstæður sínar mjög niðurlægjandi, og finna fyrir höfnun af hálfu samfélagsins. Ein rannsókn gerði einnig greiningu á birtingarmyndum öryrkja í prentmiðlum og netheimum. Þar af báru síendurtekin stef um öryrkja sem samfélagsbyrði, svindlara eða letingja . Þetta eru fordómar. Enginn vill vera öryrki. Fólk vill vera vinnufært og geta tekið þátt í samfélaginu eins og vinir þeirra og vandamenn. Íslendingar sérstaklega, byggja sjálfsmynd sína mikið á sinni atvinnu.
Í rannsókn sem skoðaði tíðni og gildi þátttöku í hlutverkum á Íslandi var algengast að einstaklingarnir vörðu mestum tíma í starfshlutverkinu, fjölskylduhlutverkið kom næst og síðan hlutverk heimilishaldara. Þátttakendur röðuðu þessum hlutverkum eftir mikilvægi en mestu máli skipti fjölskylduhlutverkið, því næst starfshlutverkið og síðast hlutverk umönnunaraðila.

Gögn OECD sem byggja á lífskjarakönnunum Evrópusambandsins endurspegla þetta. Þar var metin tíðni, einkenni og atvinnuþáttaka fólks með örorku og langvarandi sjúkdóma óháð því hvort það væri örorkulífeyrisþegar eða ekki. Niðurstaðan var sú að atvinnuþáttaka fólks með örorku eða langvarandi heilsubresti er sú mesta á Íslandi af OECD-ríkjunum. Sem bendir til að þeir sem falla út af vinnumarkaðnum vegna veikinda eða slysa skili sér almennt aftur, ef tækifærin og heilsan leyfa. Atvinnuþátttaka örorkulífeyrisþega er hins vegar mun lægri auk þess sem tíðni örorkulífeyrisþega virðist vera í hærra lagi á Íslandi. Hugsanlega ættu margir örorkulífeyrisþegar frekar að vera á atvinnuleysisbótum, í endurhæfingu, eða jafnvel í fullum störfum eða hlutastörfum.

Í niðurstöðum rannsóknar meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á Íslandi, var tæpur helmingur þeirra sem höfðu verið atvinnulausir einhvern tímann síðastliðin 5 ár, með fyrri reynslu af atvinnuleysi. Þó höfðu einungis 20% þeirra fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Meirihluti (64%) þeirra sem ekki voru í vinnu höfðu áhuga á launaðri vinnu nú eða í náinni framtíð en tæpur helmingur (45%) þeirra treysti sér í hálft starf eða minna. Margir (26%) voru óvissir um vinnugetu sína. Í opinni spurningu um hvað þeir þátttakendur töldu helst standa í vegi fyrir atvinnuþátttöku öryrkja voru nefndir hinir ýmsu þættir vinnumarkaðar og bótakerfis, heilsuleysi og svo fötlun.

Þessi hvatarök byggja á hagfræðilegri hvatakenningu sem á í raun við um markaðinn, þ.e. fólk upp til hópa í viðskiptum. Kenningin felur í sér að hægt sé að spá fyrir um hegðun einstaklinga, þ.e. að hegðun stjórnist af því hvað sé fjárhagslega hagstæðast. Þó er eðlismunur á hegðun fullfærra einstaklinga upp til hópa á markaði og hegðun fólks með heilsubrest. Þessi hagfræðilegu hvatarök eiga því ekkert erindi við örorkulífeyrisþega. Fjöldi samsvarandi þarfa- og hvatakenninga eru til í sálfræðinni sem snúa að hegðun einstaklinga.
Þarfapýramída kenning Maslows þykir vera ein af þeim sem fremst stendur meðal þarfakenninga. Þar er talað um fimm
 stig 
þarfa hjá einstaklingi en þau eru
 líkamlegar
 þarfir,
 öryggis þarfir,
 félagslegar 
þarfir,
 þörf
 fyrir
 virðingu 
og
 þörf 
fyrir
 sjálfsfyllingu. Í hvatakenningum sammælast flestir fræðimenn um að skipta hvatningu í tvo meginhópa, innri og ytri hvatning. Innri hvatning kemur innan frá og tengist einstaklingsbundinni skynjun um ávinning eða einhvers konar árangur á tilteknu sviði. Því er oftast eingöngu um huglæga umbun að ræða. Hvetjandi þættir í þessum flokki eru einstaklingsbundnir, byggjast á uppeldisgildum, eiga rætur að rekja til- og litast af umhverfi einstaklinga og hugmyndum þeirra um siðfræðileg gildi og framtíðardrauma. Ytri hvatar eru t.d. laun, en talið er að ytri hvatar séu ekki eins áhrifaríkir í að spá fyrir um hegðun og þeir innri.

Þegar litið er til upplifunar öryrkja af samfélagsumræðunni er ekki skrítið að mikill atvinnuvilji sé meðal þeirra. Íslendingar eru mjög vinnustolt þjóð og þar á meðal öryrkjar enda er stór hluti örorkulífeyrisþega með örorku vegna vinnuslits. Við langvarandi atvinnuleysi er þekkt að fólk virðist missa sjálfsvirðingu, upplifir sig ekki sem fullgilda þjóðfélagsþegna og þjáist af vonleysi og kvíða.

Miðað við hversu mikil samleitni er á milli atvinnuleysisbótaþega og örorkubótaþega má því álykta að hluti þeirra sem er með örorku af geðheilbrigðisástæðum séu það vegna þess að kerfið er ekki að virka sem skyldi og einnig vegna vanlíðunar sem orsakast af samfélagsfordómum. Þessi hagfræðilegu hvatarök eru því ekki aðeins röng, heldur einnig niðrandi og beinlínis skaðleg fólki með heilsubrest.

En hvers vegna eru öryrkjar ekki að vinna og hvað kostar það samfélagið? Þessari spurningu verður svarað í næstu grein so stay tuned.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson. 

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Pistlahöfundur

Alda María er MS nemi í Þjónustustjórnun og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hún er einnig með BS gráðu í sálfræði. Hennar helstu áhugamál eru heilbrigðismál, hagfræði, fólk, samfélagið í heild og eftirréttir.