Þar sem spillingin þrífst

eftir Ritstjórn

Allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar, sem finna má á athugasemdakerfum fjölmiðlanna og víðar, súpa nú hveljur og bölva fyrirhuguðum arðgreiðslum ýmissa fyrirtækja í Kauphöllinni, til dæmis greiðslum VÍS upp á 5 milljarða króna, HB Granda upp á 3 milljarða og Sjóvá upp á 3 milljarða. Þá hefur hagnaður bankanna þriggja upp á samtals 106,8 milljarða króna vakið reiði ýmissa spekinga. 

Allt bendir til þess að nýtt góðæri sé hafið hér á landi og að bregðast verði við með herskáum hætti. Þegar betur er að gáð má þó sjá að reiði yfir hagnaði og arðgreiðslum á hinu litla íslenska efnahagssvæði er í besta falli fáránleg.

Arðgreiðslur til almennings

Röksemd hinna reiðu er oftar en ekki sú, að fyrirtæki sem skili slíkum hagnaði svíni á fólkinu í landinu og að fáir græði á kostnað margra. Sæju hinir reiðu ástæðu til þess að skoða eignarhald íslenskra fyrirtækja nánar, kæmi þó í ljós að lífeyrissjóðirnir eiga a.m.k. 38% af heildarvirði skráðra fyrirtækja Kauphallarinnar. Í þeirri tölu eru ekki meðtaldar óbeinar eignir lífeyrissjóða í fyrirtækjum Kauphallarinnar s.s. í gegnum aðra fjárfestingasjóði, en slík eign nemur allt að 15%. Lífeyrissjóðirnir eru aftur á móti í eigu vinnandi fólks í landinu. Við, fólkið í landinu, getum því gert ráð fyrir að fá að minnsta kosti 8,4 milljarða greidda út í arð frá félögum Kauphallarinnar í ár og sennilega enn meira.

Hvað bankana varðar, fá skattgreiðendur allan þeirra hagnað í sinn hlut og arðgreiðslurnar renna beint inn í ríkissjóð. Setji ugg að þjóðinni vegna hagnaðar bankanna, hljóta hugmyndir um að selja þá úr ríkiseigu að vekja ofsahræðslu í brjósti landsmanna. Sú hræðsla er að einhverju leyti skiljanleg enda mörgu ábótavant í eignasölu ríkisins í sögulegu samhengi.

Fjármálaráðherra sendi skýr skilaboð

Það er ekki síst þess vegna sem það skiptir höfuðmáli að tekist sé á við Borgunarmálið af festu. Málið lyktar afar illa og sala hlutar Landsbankans í Borgun hefði átt að fara fram í opnu ferli. Annað tveggja kemur til greina sem ástæða óþefjarins sem umlykur málið: Landsbankinn vissi af sölu Visa Europe til Visa Inc. eða hann hefði átt að vita af henni. Allt virðist því benda til þess að annað hvort hafi Landsbankinn ekki staðið nógu vel að sölunni eða að um spillingu hafi verið að ræða.

Til þess að almenningur geti treyst því að einkavæðing sé í raun ekki einkavinavæðing er nauðsynlegt að fjármálaráðherra, sem hefur verið bendlaður við málið, taki af allan vafa um að spilling líðist ekki þegar kemur að sölu á fyrirtækjum eða eignarhlutum fyrirtækja sem eru í ríkiseigu. Þrátt fyrir að ráðherra hafi ekki bein ítök í bönkum í eigu ríkisins, eru ákvæði í lögum um bankasýsluna sem heimila honum að beina í tilmælum til bankasýslunnar í undantekningartilfellum. 

Hafa ber í huga að ekki eru aðeins undir fjárhagslegir hagsmunir Landsbankans og Borgunar, heldur verður málið jafnframt, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, ákveðin prófraun um það hvort hægt sé að treysta að fagmannlega verði staðið að sölu á ríkiseigum. Fjármálaráðherra ætti því að nýta sér áðurnefnda heimild og beina þeim tilmælum til bankasýslunnar að skipt verði um stjórnendur í Landsbankanum. Jafnframt er með öllu ótækt að ráðherrann hafi ekki verið nægjanlega afgerandi í opinberri umræðu um málið og tjáð sig í meiri mæli með fullvissandi hætti um að ekki sé gengið erinda útvaldra.

Vilja Íslendingar pólitísk afskipti af bankastarfsemi?

Líkt og Kristinn Ingi Jónsson rökstuddi í pistli sínum í Rómi síðastliðinn mánudag fer ekki á milli mála að óskynsamlegt er að fela ríkinu að reka banka. Ríkisrekið bankakerfi er einfaldlega óskilvirkt og skilar ekki sama ábata fyrir fyrirtæki og einstaklinga í landinu, eins og einkarekið kerfi. Einkarekið bankakerfi leiðir ennfremur af sér aukinn hagvöxt til lengri tíma. Borgunarmálið er, út af fyrir sig,  sönnun þess að jafnvel þótt ráðherra sé í lögum takmarkaður aðgangur að ríkisrekinni bankastarfsemi, sé ómögulegt að koma í veg fyrir spillingu eða að bankar starfi ófaglega.

Niðurstaðan er því sú, að sala á ríkiseignum felur ekki í sér spillingu. Þvert á móti eykur hún gagnsæi og forðar bankastarfsemi frá spillingu.  Sala á ríkiseignum felur í sér hagkvæmni fyrir alla og því er við að bæta að líklegast er að almenningur hagnist á sölu bankanna þar sem lífeyrissjóðir verða líklega stórir eigendur bankanna. Almenningur þarf bara að geta treyst að slík sala fari fram á faglegum forsendum.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.