Hvaða grænmeti mengar mest?

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Miklar líkur eru á því að þýðing kolefnissparnaður muni fara vaxandi á komandi árum. Þetta kom fram í niðurstöðum skýrslu um kolefnisspor grænmetis, blóma og garðplantna á Íslandi frá árinu 2015 sem unnin var af Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf. fyrir Samband garðyrkjubænda. Í skýrslunni var kolefnisspor tiltekinna grænmetisafurða borin saman við erlenda ræktun en niðurstöðurnar benda til þess að nánast í öllum tilvikum sé kolefnisspor grænmetis sem ræktað er hér á landi minna en þess sem ræktað er erlendis.

 

Íslensk ræktun með allt að því sextán sinnum minna kolefnisspor en erlend

Í niðurstöðum skýrslunnar kom einnig fram að munurinn er mismunandi, íslenskri ræktun í hag, en mestur í tilvikum garðyrkjuafurða sem fluttar eru inn með flugi, s.s. afskorinna blóma eða plantna. Þá er munurinn einnig mikill ef orkuþörf ræktunnar er mikil. Inniræktað grænmeti kemur því betur út en útiræktað grænmeti. Framangreint kemur glögglega fram á eftirfarandi lista yfir hlutfall kolefnisútblásturs íslenskrar afurða af innfluttri afurð:

Afurð Innlent/Innflutt
1. Afskorin blóm 6% til 18%*
2. Salat 26%
3. Gúrkur 44%
4. Tré og runnar 47%
5. Venjulegir tómatar 55%
6. Blandaðir tómatar 79%
7. Annað útiræktað grænmeti 88%
8. Kartöflur 92%
*Fer efir uppruna. Sé miðað við blóm frá Hollandi er hlutfallið t.d. 6% en 18% sé miðað við Kenýa.

Með því að velja afskorin blóm sem ræktuð eru á Íslandi má því minnka kolefnisspor sitt margfalt eða allt að því sextánfalt. Kolefnisspor annarra afurða er einnig minna í flestum tilvikum en samkvæmt skýrslunni er þó ein undantekning frá því, þ.e. í tilviki íslenskra sumarblóma sem voru 5% yfir erlendum sumarblómum, en ræktun þeirra hérlendis virðist skilja eftir sig stærra kolefnisspor en ræktun í Hollandi. Þó verður að gera fyrirvara við það þar sem forsendur við gerð skýrslunnar voru ákveðnar „innfluttri vöru í hag“. Sem dæmi er ekki gert ráð fyrir flutningi út á land á Íslandi heldur að allar afurðir séu seldar í Reykjavík. Í reynd stækkar kolefnisspor innfluttra afurða hlutfallslega eftir því sem lengra er farið frá Reykjavík.

 

Hlutfall íslenskrar framleiðslu lægra nú en árið 2007

Yfir síðastliðin fimmtán ár hefur heildarframleiðsla íslenskrar garðyrkju sveiflast nokkuð á milli ára en á heildina litið hefur magnið ekki aukist, og framleiðsla árið 2016 var t.a.m. aðeins lítillega yfir meðaltali tímabilsins. Þó hafa orðið augljósar framfarir við framleiðslu ákveðinna afurða, t.d. gúrkna, en til marks um það má nefna að skv. upplýsingum frá Sambandi garðyrkjubænda voru alls fluttar inn 211.321 gúrkur árið 2007 en aðeins 8.466 árið 2016. Innlend framleiðsla var hinsvegar 1.343.000 gúrkur árið 2011 en 1.868.000 árið 2016. Í heildina hefur hlutfall íslenskrar framleiðslu þó minnkað en innflutningur aukist. Árið 2007 var hlutfall íslenskrar framleiðslu af heildarmagni innlendra og innfluttra afurða garðyrkju þannig 74% en árið 2016 var hlutfallið 69%

 

Hvernig má auka hlutdeild íslensks grænmetis?

Raforkukostnaður er einn stærsti kostnaðarliður í framleiðslu á grænmeti með ylrækt. Komið gæti til skoðunar að koma betur til móts við framleiðendur varðandi þann kostnaðarlið. Grænmetisbændur virðast t.a.m. ekki hljóta afslátt af raforku líkt og ýmis stóriðjufyrirtæki (hér má skjóta því að landbúnaður notar aðeins 1,3% af framleiddri raforku á Íslandi en til samanburðar má nefna að hlutfall áliðnaðar er 74,1%). Bent hefur verið á að grænmetisbændur séu í góðri stöðu til þess að krefjast lægri dreifingarkostnaðar raforku. Samkvæmt búvörusamningum niðurgreiðir ríkið tiltekið hlutfall af kostnaði við dreifingu og flutning raforku til garðyrkjustöðva, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Aftur á móti greiða garðyrkjubændur sjálfir fyrir kaupin á raforkunni sjálfri. Hver og einn garðyrkjubóndi þarf því að skrifa undir samning við tiltekinn orkusala og er eru þeir vanalega bundnir trúnaði um orkuverðið. Því er fremur óljóst hvaða kjör standa grænmetisbændum almennt til boða og af því leiðir að vandasamt er fyrir grænmetisbændur að knýja fram betra verð. Þá geta skilgreiningar orkufyrirtækja á þéttbýli og dreifbýli og skiptingu milli fastagjalda og breytilegra liða haft mikla þýðingu fyrir orkuverðið.

 

Orkan ekki hrein, nema fyrir komi grein

Eins og komið var að í byrjun má búast við því að þýðing kolefnisspors muni aukast á komandi árum. Nú þegar kemur fram á umbúðum ýmissa neysluvara að framleiðsla þeirra hafi verið vottuð sem kolefnisjöfnuð (e. carbon neutral), sbr. t.d. The Carbon Neutral Protocol. Í þessu samhengi má benda á að svonefnd upprunavottorð innlendrar raforku þyngja róður í rekstri grænmetisbænda. Í stuttu máli ganga upprunavottorðin út á að raforkukaupendur, þ.á.m. grænmetisbændur, þurfa að greiða aukalega fyrir það að fá skráð hjá sér kaup á hreinni orku, þrátt fyrir að hér á landi sé raforka hvorki framleidd með kolum eða kjarnorku heldur að langmestu leyti með endurnýtanlegum orkugjöfum (árið 2010 var 71% raforku er framleiddur með vatnsorku, 22% með jarðhita og 7% með eldsneyti, sbr. skýrsla Orkustofnunar frá desember 2011). Þar sem erlendum aðilum stendur einnig til boða að kaupa vottorðin er framboðið á vottorðunum hins vegar af skornum skammti. Upprunavottorðin má rekja til tilskipunar Evrópusambansins nr. 2009/28/EB um upprunaábyrgð á raforku sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og er grundvöllur laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. nr. 30/2008. Við fyrstu sýn verður að telja ólíklegt að útfæra megi sérstaka undanþágu frá framangreindu fyrirkomulagi fyrir tiltekna hópa raforkukaupenda, s.s. framleiðenda í garðyrkju, en hugsanlega þyrfti að koma til móts við framleiðendurna með öðrum hætti hvað þetta varðar.