Hvað viltu fá í staðinn?

eftir Ritstjórn

Ríkisstjórnarsamstarf Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar er nú þriggja mánaða gamalt. Þetta samstarf varð til eftir að kosningarnar síðastliðið haust skiluðu engu mögulegu tveggja flokka samstarfi heldur var ljóst að fleiri flokkar yrðu nú að fá sæti við borðið. Slíkar fjölflokka stjórnir tíðkast í mörgu öðrum löndum og þykja ekkert tiltökumál en hér á landi hafa slík samstörf ekki verið ýkja mörg.

Samstarf flokkanna þriggja er líka með tæpasta móti og ljóst að ekki má út af bregða ef ríkisstjórnin ætlar sér að koma málum sínum í gegnum þingið. Margir líta á þetta sem veikleika ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þeir sömu og hafa í mörg ár talað fyrir því að „meiri- og minnihlutar” á þingi eigi ekki að skipta máli. Nútíma stjórnmál séu þannig að frekar eigi að líta á málefnin heldur en flokkadrætti. Þessir þingmenn ættu því nú að hafa fullkomið tækifæri til að hafa áhrif á frumvörp. Ekki þarf að sannfæra meira en einn þingmann úr stjórnarliðinu, og þá er minnihlutinn strax kominn í samningsstöðu og hægt er að gera málamiðlanir.

En slíkt hefur ekki verið raunin. Meira er talað um þennan „vonda” meirihluta. „Nýfrjálshyggjan” er nú orðin allsráðandi í ríkisstjórnarsamstarfinu, að sögn minnihlutans. Meira að segja þingmennirnir sem núverandi stjórnarandstaða vildi mynda kosningabandalag með eru nú komnir í „vonda” liðið og hafa þurft að þola ómálefnalegan skítstorm á meðan Alþingi ræðir fundarstjórn forseta.

Nú hefur Páll Valur Björnsson fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar sagt sig úr flokknum. Í pistli sínum þar sem hann útskýrir þessa ákvörðun sína segist hann ekki geta stutt það sem flokkurinn ætlar að gera í samstarfi við tvo flokka sem honum finnst vera allt of tengdir sérhagsmunaöflum sem eru að hans mati of valdamikil í íslensku samfélagi. Þá talar hann einnig um að hann sé gramur yfir „undanslættinum” í Evrópusambandsmálinu.

Þetta eru allt góðar og gildar vangaveltur. En það vekur þó upp spurningar um það hvort hann hafi skoðað niðurstöður kosninganna.

Í fyrsta lagi, ef hann útilokar samstarf við Viðreisn og Sjálfstæðisflokk þar sem um sé að ræða flokka sem eru of tengdir sérhagsmunaöflum. Ef svo er, þá er ljóst að hann þyrfti að reiða sig á stuðning frá Framsóknarflokknum. Það væri áhugavert að sjá Pál Val reyna að hvítþvo slíkt samstarf.

Í öðru lagi þá er erfitt að sjá að núverandi stjórnarandstaða myndi gefa honum meirihluta fyrir Evrópusambandsumsókn eða nokkurri annarri niðurstöðu en þeirri sem nú er uppi. Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir myndu ekki samþykkja það og Píratar eru algjörlega óskrifað blað í þeim efnum.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.