Hvað verður um Snapchat?

eftir Gestahöfundur

Flestir lesendur þessa vefmiðils nota eða kannast að minnsta kosti vel við samfélagsmiðilinn Snapchat. Miðilinn gefur fólki færi á því að senda vinum sínum stutt myndskeið eða myndir án þess að þær vistist hjá þeim sem tekur við þeim en auk þess gerir forritið notendum kleyft að deila svoköllum „stories“ eða sögum sem lifa í allt að 24 klukkustundir. Án þess að eyða meiri tíma í að útskýra fyrirbærið skulum við líta til baka.

Upphafið

Upphaf Snapchat má rekja til Stanford háskóla í Kaliforníu, oft betur þekktan sem stökkpall frumkvöðla inn í Kísildal. Árið 2008 hóf Evan Spiegel nokkur, fæddur árið 1990, nám við skólann þar sem hann kynnist félögum sínum Reggie Brown og Bobby Murphy. Saman reyndu þeir kumpánar aðeins fyrir sér í frumkvöðlaheiminum en lítið gekk. Það var síðan árið 2011 að Brown velti fyrir sér hvort það væri ekki möguleiki á að senda myndir af sér sem síðan hyrfu og þá sérstaklega til stúlkna. Maður getur aðeins látið hugann reika um hvaða hugmyndir hann hafði um notkunarmöguleika forritsins.

Spiegel gleypti við hugmyndinni og saman stofnuðu þeir Spielgel, Brown og Murphy Snapchat undir forystu Spiegels en á þessum tíma var forritið reyndar kallað Pictaboo. Smáorritinu var hleypt af stokkunum í júlí árið 2011 og í lok sumars þess árs voru notendur alls 127. Ekki þúsund, ekki milljónir heldur 127. Vinsældir forritsins tóku þó heldur betur við sér og í apríl árið 2012 voru notendur komnir yfir hundrað þúsund og þeir félagar fengu öfluga fjárfesta til liðs við sig. Fljótlega eftir að Spiegel fór að sjá peningana streyma inn sagði hann skilið við Stanford og hætti, aðeins nokkrum vikum fyrir útskrift.

Auknar vinsældir

Fljótlega eftir að Snapchat kom fram á sjónarsviðið voru stærri krókódílar þegar farnir að reyna kroppa í vinsældir þess. Þegar Snapchat var rúmlega eins árs átti Facebook afar misheppnaða tilraun til þess að sölsa undir sig notendur þess með „appi“ sem kallaðist Poke. Þetta útspil reyndist vatn á myllu Snapchat drengja og fengu þeir stóraukna umfjöllun fjölmiðla á meðan að Mark Zuckerberg og félagar sátu eftir með sárt ennið. Næsta árið jukust vinsældir forritsins jafnt og þétt og fjárfestingarnar héldu áfram að streyma inn. Zuckerberg var þá búinn að gefast upp á herma eftir hvíta draugnum og ákvað að taka fram seðlabúntin. Niðurstaðan var kauptilboð upp á þrjá milljarða dala síðla árs 2013, sem Spiegel neitaði eins og flestir vita.

Snap Inc. fer á markað

Það var svo um haustið 2016 að Snapchat kynnir fyrstu eiginlegu vöru sína, Spectacles, sem komu á markað á fyrri hluta ársins 2017 eða rétt áður en Snap Inc, er skráð á markað í NYSE kauphöllinni í New York. Fjárfestar virtust spenntir fyrir komu fyrirtækisins á markað og bréfin sem upphaflega voru boðin á 17 dollara á hlut hækkuðu í verði á fyrsta degi um 44%, upp í rúma 24 dollara sem skilaði fyrirtækinu virði upp á rúma 30 milljarða dollara.

Bréfin í Snap Inc. héldu dampi fyrst um sinn en ekki leið á löngu þangað til fjárfestar fóru að ókyrrast og hefur hlutabréfaverð verið á stöðugri niðurleið síðan. Ekki batnaði útlitið þegar Snap Inc. tilkynnti um rekstarniðurstöður annars ársfjórðungs nú í byrjun ágúst. Þrátt fyrir að daglegum notendum hafi fjölgað ár frá ári um 21% í rúmar 173 milljónir voru fjárfestar ekki hrifnir en væntingar höfðu verið um enn hraðari vöxt.

Önnur hermikráka?

Flestir eru sammála um ástæðuna en það ku vera nýtt útspil Zuckerberg og félaga í Menlo Park. Facebook keypti Instagram árið 2012 á einn milljarð bandaríkjadala og nú fimm árum seinna eru flestir sammála um að þar hafi verið gerður einn besti samningur í Silicon Valley á síðari árum. Það voru ekki allir sammála um ágæti kaupanna þegar þau voru tilkynnt enda Instagram ekki að skila neinum tekjum. Facebook veldið hefur þó náð að kreista fram einhverja aura úr samfélagsmiðlinum síðan en Instagram er á hraðri leið með að velta milljarði dala í auglýsingatekjum. Í dag telja notendur Instagram rúmlega 600 milljónir og hefur smáforritið svo sannarlega slitið barnskónum frá því að hafa verið einfaldur miðill þar sem notendur deildu myndum með ýktum „filterum”.

Það sem fælir helst fjárfesta í dag frá sleikjandi draugnum geðþekka eru þó ekki þessar 600 milljónir sem nota Instagram heldur hraðvaxandi fjöldi þeirra notenda sem nota Instagram Stories, en það eru tæpum 70 milljónum fleiri en nota Snapchat og það á einu ári. Notendum á Instagram Stories fjölgar þá mun hraðar og virðist ekkert lát verða þar á. Það sem gerir þessa sögu svo merkilega er það að Instagram Stories virðist ekki vera neitt annað en önnur tilraun Facebook til að herma eftir Snapchat, nema hvað að í þetta skiptið hafi það tekist.

Hvað mun verða?

Ef maður lítur sjálfum sér nærri tekur maður vel eftir því að þeim fjölgar og fjölgar sem deila „sögum“ á miðil Zuckerbergs en það sem mér persónulega þykir þó athyglisverðast er að fylgjast með er hvað áhrifavaldarnir gera. Munu þeir taka skrefið eða munu þeir halda tryggð við sinn hóp á Snapchat? Fyrst Snapchat-stjarnan Gæi er farinn að gera hosur sínar grænar fyrir Instagram eru eflaust fleiri ekki langt undan.

Bréf Snap Inc. eru nú komin vel undir útboðsverð og erfitt er að setja fingur á það hvað muni koma þeim aftur í forystusætið. Það virðist ekki skipta máli hvað Spiegel og hans menn gera, Zuckerberg virðist alltaf komast upp með að herma eftir því og hefur engin önnur en Miranda Kerr, eiginkona Spiegel, verið dugleg við að láta Facebook menn heyra það upp á síðkastið og ásakað þá um að stela öllu því sem sinn maður gerir. Framtíðin virðist að minnsta kosti óræð fyrir drauginn og spurningin vaknar hvort hann muni hverfa af sjónarsviðinu í tímans rás, rétt eins bæði  draugar og mörg tæknifyrirtæki eiga sameiginlegt?