Hvað sprengir nýju bóluna?

eftir Sigurður Tómasson

Fjármálakreppan er búin og nýtt góðæri er tekið við. Árið er 2007 – volume 2. Kaupmáttur er á fljúgandi siglingu, hagvöxtur er mikill og atvinnuleysi ekkert. Allir elska Ísland og Íslendinga, landsliðin, Crossfittara og Fjallið. What a time to be alive, again.

En við erum öll brennd. Þrátt fyrir að það sé varla hægt að ímynda sér betri efnahagsaðstæður virðist enn vera stjórnarkreppa. Samfylkingin er að draga sinn síðasta andardrátt (sorrí Björn Már) og allt stefnir í að nýtt stjórnmálaafl, sem virðist enn vera samansafn af fólki sem er á algjörum öndverðum meiði hvað skoðanir varðar, muni vinna stærsta kosningasigur í manna minnum.

Svo treystir fólk ekki lengur sérfræðingum í einu eða neinu – og hvað þá hagfræðingum. Þessi skítastétt (sem ég tilheyri) var sú sem steypti Íslandi í glötun. Hún sagði allt vera í lagi, fimm mínútum áður en fótunum var kippt undan landinu. Ekki nóg með það, heldur skópu hagfræðingar vitleysuna – er það ekki?

Það er vond þróun að fólk sé hætt að treysta sérfræðingum. Michael Gove, gaurinn sem stakk Boris Johnson í bakið í kjölfar Brexit, sagði í aðdraganda kosninganna að „fólkið í landinu væri komið með nóg af sérfræðingum“ og áliti þeirra. Og svo fóru allir að gúgla hvað Evrópusambandið var beint eftir kosningarnar því fáir virtust hafa kynnt sér nokkurn skapaðan hlut. Kannski hefðu þau átt að hlusta á sérfræðingana fyrst?

Í raun er það furðulegt að sérfræðingar séu ekki að vinna meira að því að byggja upp trúverðugleika sinn. Fólk á að geta treyst því að sérfræðingar – þeir sem gera starfið að lífsverkefni sínu – hafi rétt fyrir sér.

Svo er ég ekki alveg sammála þessu sem ég sagði áðan um hagfræðingana og kreppuna – sem virðist vera almenningsálitið. Hagfræðingar eru jafnmargir og þeir eru ólíkir, og sinna mjög mismunandi störfum. Auk þess er meginhlutverk hagfræðinga ekki að spá fyrir um framtíðina heldur að útskýra hvernig hagkerfin virka. Hlutverki þeirra má líkja við hlutverki lækna: þeir eiga erfitt með að spá fyrir um það hvenær þú verður veikur en þeir geta sagt þér hvernig þú getur forðast það, og reynt að finna lækningu.

Þetta var sko alvöru útidúr. Ég ætlaði að skoða aðeins nýja góðærið okkar.

Er allt svona gott?

Skoðum þessar hagtölur sem enginn treystir, og við skulum ekki spá neinu heldur bara lesa í hver staðan er í dag, það eru ekki einhverjar spekuleisjonir heldur staðreyndir. (Þetta kann að vera torlesið en þetta eru tölur sem skipta máli, og þær eru svo sannarlega ekki tæmandi.)

Hefðbundnu hagtölurnar segja að hér sé nefnilega allt á blússandi siglingu. Í fyrra var 4% hagvöxtur (sem mælir aukningu í landsframleiðslu, verðmætasköpun, á milli ára) í samanburði við 1,8% á norðurlöndunum og 2,1% í öllum OECD ríkjunum. Þá var atvinnuleysi 2,9% árið 2015 miðað við 8% árið 2009 og í júní mældist það 2% sem er hálfgalið í alþjóðlegu samhengi. Til að mynda var hægt að troða öllum atvinnulausum verk- og tæknifræðingum í eina stóra rútu (67).

Svo eru allir að fá launahækkanir, og þær eru miklar. Launavísitalan hefur hækkað um 12,5% síðastliðið ár og kaupmáttur (hvað hægt er að kaupa mikið fyrir þessi laun) um 10,7%. Þetta eru tölur sem eiga sér enga samlíkingu í hinum vestræna heimi. Allir okkar helstu sérfræðingar hafa alltaf sagt að þessar launahækkanir munu leiða af sér mikla verðbólgu en viti menn, verðbólgudraugurinn hefur ekkert látið á sé bera, svo kaupmáttur er bara að aukast og aukast.

Hvar er samt verðbólgan? Þrátt fyrir launahækkanirnar er verðbólgan bara 1,1% og ef fasteignir eru teknar út úr vísitölunni hefur verið átt sér stað verðhjöðnun. Bíddu – sérfræðingarnir sögðu að verðbólgan ætti að vera orðin 5000% út af öllum kjarasamningunum? Hérna spila nokkrir hlutir inn í. Í fyrsta lagi er innflutt verðbólga búin að vera neikvæð, þ.e. draga úr verðbólgu. Hvað er innflutt verðbólga? Við flytjum inn alls konar vörur, til dæmis olíu, sem hafa verið að lækka mikið í verði og þegar það gerist er dregið úr þessari innfluttu verðbólgu. Ef hins vegar verð þessara vara hættir að lækka þá munu þessir þættir ekki lengur lækka verðbólguna og búmm, verðbólga. Í öðru lagi er gengið að styrkjast hratt og mikið, sem aftur lækkar verð á innfluttum vörum. Það má síðan færa rök fyrir því að vaxtahækkanir Seðlabankans séu að hafa tilætluð áhrif. Loks virðist hafa verið innistæða fyrir þessum launahækkunum.

Síðan skuldar enginn neitt. Árið 2008 námu heildarskuldir fyrirtækja og heimila 357% af landsframleiðslu en núna eru skuldir þessara aðila aðeins 177%, helmingi lægri. Þá voru heildarskuldir hins opinbera 69% af landsframleiðslu í fyrra, samanborið við 95% árið 2011. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa líka lækkað stórkostlega, vegna ýmissa þátta sem ég nenni ekki að fara út í, og var erlenda staðan (eignir mínus skuldir) -6% af landsframleiðslu miðað við -131% árið 2008. Allt eru þetta afar miklar framfarir og í sögulegu samhengi hefur íslenska hagkerfið varla staðið mikið betur, ef nokkurn tímann.

Þannig ekkert atvinnuleysi, bullandi hagvöxtur og launahækkanir, engin verðbólga og enginn skuldar neitt. Svo á að afnema höftin líka! Hver eru eiginlega hættumerkin, og af hverju eru svona margir óánægðir?

Brennt barn forðast eldinn

Ég er mjög upptekinn af því hvernig allt geti farið til fjandans. Einhverra hluta vegna hef ég óbilandi trú á því að uppsveiflan okkar sé of góð til að vera sönn og fljótlega taki við önnur kreppa.

Þá er gott að geta leitað til erlendra sérfræðinga sem greina landið utan frá: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og lánshæfismatsfyrirtækin þrjú (Moody‘s, S&P og Fitch). Þetta eru aðilar sem flestir bentu á að íslenska hagkerfið væri komið á hálan ís fyrir hrun talsvert fyrr en við sættum okkur við það.

Allir hafa áhyggjur af launahækkunum og að þeim muni að lokum fylgja verðbólga, eins og innlendu sérfræðingarnir. AGS segir þetta vera aðaláhætta Íslands og að með auknum launahækkunum og sterkari krónu muni samkeppnishæfni hagkerfisins versna smátt og smátt. Gengisstyrking er nefnilega ekki endilega bara af hinu góða. Það sem hefur hjálpað okkur mikið undanfarin ár er veikt gengi sem hefur eflt útflutningsgreinarnar okkar (eins og túrismann). Þannig hefur verið hægt að safna gjaldeyri og borga niður þessar erlendu skuldir sem voru orðnar óheyrilega miklar.

Sterkara og sterkara gengi, þó það styrki kaupmátt íslenskra neytenda tímabundið (því það verður bókstaflega ókeypis að versla í útlöndum, muna ekki allir eftir 60 króna dollaranum?) mun gera það að verkum að fljótlega munu vörur útflutningsfyrirtækjanna okkar verða of dýrar til að geta keppt við erlend fyrirtæki. Túristunum munu finnast of dýrt að koma hingað og gjaldeyrir hættir að streyma inn heldur fer að streyma út. Þá þurfum við að byrja að taka lán fyrir þessari neyslu okkar og vola. 2008. Þetta var kannski fullsvartsýn mynd en engu að síður hættumerki sem við verðum að fylgjast gaumgæfilega með.

Síðan er óvissa sem fylgir því að afnema gjaldeyrishöftin, sem hafa verið hér við lýði í næstum átta ár. Mun taka við innflæði erlends fjármagns í líkingu við fyrir-hruns-árin og gengið styrkjast of mikið? (Seðlabankinn fékk sér nýtt dót til að reyna að passa upp á það, og Kristinn Ingi hatar það) Mun fjármagn streyma út úr landi og gengið veikjast? Ef marka má nýjustu skýrslur lánshæfismatsfyrirtækjanna (Moody‘s, S&P og Fitch) þá er losun hafta hinn stóri áhættuþátturinn. Hvernig mun þetta ganga?

Til að halda aðeins áfram í svartsýninni þá er ferðaþjónustan líka orðin of stór miðað heildarútflutninginn okkar, og við græðum mjög lítið á hverjum ferðamanni. Einsleitur útflutningur er eitthvað sem við höfum brennt okkur oft á í gegnum tíðina og verðum að vera meðvituð um.

Sértækar aðgerðir fyrir Jón og Gunnu reita Guðmund og Önnu til reiði

Ríkisstjórnin hefur sem betur fer gert það að forgangsmáli sínu að greiða niður skuldir sem hefur haft mjög góð áhrif á lánakjör okkar erlendis (sjá skýrslur lánshæfismatsfyrirtækjanna). Hins vegar, eru nú að hefjast kosningar og þar sem efnahagurinn hefur sjaldan staðið betur er flugeldasýningin að hefjast.

Kosningaloforð. Búast má við aragrúa af loforðum sem munu öll blása út báknið enn frekar í stað þess að minnka umsvif þess. Draugur Samfylkingarinnar hreinlega verður að lofa einhverju fáránlegu til að fá eitthvað fylgi og Framsókn stendur ekki mikið betur. Þessir flokkar munu að öllum líkindum „targeta“ þá hópa sem hafa orðið eftir, eins og ungt fólk, og lofa þeim gulli og grænum skógum rétt eins og Leiðréttingunni í síðustu kosningum.

En þá má unga fólkið ekki gleyma því að þökk sé loforðum líkt og Leiðréttingunni stöndum við unga kynslóðin ekki betur. Leiðréttingin var til að mynda bara millifærsla frá minni kynslóð yfir á þá eldri, sem hefur auk þess hækkað húsnæðisverð svo enn erfiðara er fyrir unga fólkið að kaupa.

Svona eru alltaf sértækar aðgerðir, sértæk loforð og við kjósendur verðum að sjá í gegnum þau. Langtímastöðugleiki er lykillinn að bættum lífskjörum og skítaredding fyrir einn hóp mun skemma fyrir öðrum. Það þarf nefnilega alltaf einhver að borga reikninginn.

Og þó að við stöndum mjög vel núna, þá eigum við ekki bara að „nýta tækifærið“ og skemma allt það góða sem hefur verið gert. Við eigum ekki að fara að skuldsetja ríkissjóð í tætlur til að byggja eitthvað álver í Skagafirði eða ríkisblokkir í Breiðholti fyrir ungt fólk. Þá erum við bara að selja atkvæði fyrir eigin skammtímahag á kostnað framtíðarhag þjóðfélagsins, sem mun gera landið okkar minna spennandi og samkeppnishæft til lengri tíma. Og þá mun það vera næsta kynslóð á eftir okkar sem flytur af landi brott til að leita uppi draumana sína – því við munum ekki geta boðið upp á þá.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.