Hvað er verra en að vera drepinn?

eftir Esther Hallsdóttir

Er eitthvað sem ætti að vekja borgurum ríkja, þar sem mannréttindi eru ekki í hávegum höfð, meiri ótta í brjósti en að vera tekin af lífi án dóms og laga? Hvað ef þú yrðir tekin af lífi, án þess að fjölskyldu þinni yrði einhvern tímann greint frá því hvað varð um þig og öllum ummerkjum um tilvist þína eytt af yfirborði jarðar og því haldið fram að þú hafir aldrei verið til?

Við getum líklega verið sammála um að hið síðara sé verra. Það hljómar kannski eins og einhvers konar skáldskapur, en er það ekki.

Þetta var til að mynda gert með skipulögðum hætti í „La guerra sucia“ (Óhreina stríðið / Dirty War) í Argentínu á síðustu öld. Herinn pyntaði fólk, tók það af lífi og eyddi svo öllum ummerkjum um tilveru þess. Börn þessa fólks voru jafnvel tekin og eignuð öðrum. 

Einn sá frægasti til að stunda þessa iðju var Stalín. Hann losaði sig með þessum hætti við pólitíska óvini, sem og bandamenn sem féllu í ónáð. Þeir hurfu margir af heimilum sínum einn daginn, voru teknir af lífi og tilvist þeirra síðan eytt. Stalín dó ekki ráðalaus í fjarveru Photoshop og var með fjölda fólks í vinnu við að breyta myndum og hreinsa út af þeim óæskilegt fólk. Stundum þurfti að breyta myndum ítrekað, þar sem fleiri og fleiri á myndunum féllu úr náðinni.

Eitt fórnarlambið var Nikola Yezhov, háttsettur leynilögreglumaður sem hafði unnið við hlið Stalíns og framkvæmt fyrir hans ýmis ódæði, meðal annars að láta fólk hverfa. Hann hlaut að endingu sömu örlög, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.

Nikolai Yezhov, hægra megin við Stalín, var þurrkaður út af öllum ljósmyndum eftir að hafa fallið í ónáð.

Fyrrnefnd tilvik eru ýkt dæmi um tegund mannréttindabrota sem heitir á íslensku þvinguð mannshvörf (Enforced Disappearance) og er mun algengara en margir myndu halda.

Þvingað mannshvarf nær yfir það þegar einstakling er rænt af yfirvöldum, eða af þriðja aðila með aðkomu yfirvalda, sem neita síðan að viðurkenna að þau beri ábyrgð á hvarfinu og/eða greina ekki frá því hvar viðkomandi er niðurkominn. Í kjölfarið er fórnarlambið í raun staðsett utan verndar laganna og miklar líkur eru á að það sé beitt pyndingum og tekið af lífi. Í ýktustu tilvikunum er gengið svo langt að eyða út ummerkjum um tilvist fólks.

Það þarf líklega ekki að nota mörg orð um angist fjölskyldumeðlima þeirra sem hverfa með þessum hætti. Oft kemur aldrei í ljós hvað varð um einstaklinginn og fjölskyldur lifa í óvissu alla tíð. Til að bæta gráu ofan á svart er það í mörgum tilfellum fyrirvinna fjölskyldunnar sem hverfur og erfitt getur reynst að fá stuðning eða bætur þar sem ekki er hægt að sanna að viðkomandi sé látinn. 

Þvinguð mannshvörf eru skilgreind sem glæpur í alþjóðalögum, en alþjóðasamningur gegn þvinguðum mannshvörfum (International Convention for the Protect of All Persons from Enforced Disappearance) var samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2006. 98 ríki hafa skrifað undir samninginn og 60 þeirra fullgilt hann. 

Þá falla þvinguð mannshvörf undir glæpi gegn mannkyni (Crimes Against Humanity) ef þeim er beitt á kerfisbundinn og víðtækan hátt.

Við þurfum að stíga fast til jarðar

Ólíkt því sem margir halda eru þvinguð mannshvörf ennþá algeng og þeim hefur raunar fjölgað síðustu ár. Þau eru heldur ekki framin mestmegnis af herveldum og einræðisríkjum lengur heldur eiga sér nú stað í öllum heimshlutum og eru meðal annars orðin algengt vopn í átökum.

Þekkt dæmi undanfarin ár eru hvarf 34 kennaranema í Mexíkó sem talið er að lögreglan hafi selt til glæpagengis og tímabundið hvarf stórstjörnunnar Fan Bingbing í Kína. Flest tilfelli fá þó mun minni athygli og umfjöllun.

Vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um þvinguð mannshvörf (WGEID) var til að mynda með 44.159 tilfelli til skoðunar árið 2016 í 91 ríki. Á einum fundi í maí á þessu ári tók hann til skoðunar 425 mál í 36 löndum, meðal annars í Bangladesh, Egyptalandi, Indlandi, Pakistan, Rússlandi, Súdan, Sýrlandi, Tyrklandi og Venesúela. Amnesty International áætla að um 82 þúsund manns hafi orðið fórnarlömb þvingaðs mannshvarfs í Sýrlandi frá árinu 2011, en talið er að miklum meirihluta þeirra hafi verið haldið í leyndum fangabúðum yfirvalda. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda og baráttu tugþúsunda sýrlenskra fjölskyldna fyrir að fá að vita örlög ástvina sinna hefur lítið sem ekkert verið fjallað um málið í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Á Filippseyjum hafa einnig þúsundir horfið og verið tekið af lífi án dóms og laga í hinu svokallaða „stríði gegn fíkniefnum“ (War on Drugs). Vestræn ríki eru ekki undanskilin og Bandaríkin hafa til að mynda stundað grófar pyntingar og þvinguð mannshvörf í Guantanamo-fangabúðunum og víðar í nafni þjóðaröryggis.

Þróunin ætti að vekja þungar áhyggjur, enda er til mikils að vinna að þessi skelfilega tegund mannréttindabrota verði ekki samþykkt sem óhjákvæmilegur hluti af stríði og pólitískum átökum.

Þau ríki sem halda uppi gildum mannréttinda ættu að beita sér harðar fyrir því að ríki séu dregin til ábyrgðar fyrir þvinguð mannshvörf og þrýsta á að fleiri skrifi undir og fullgildi alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna. Ísland á að vera þar fremst í flokki og tók raunar skref í þá átt með því að leggja fram ályktun í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda á Filippseyjum og gagnrýna mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu. Við höfum þó ekki ennþá fullgilt samninginn, 11 árum eftir að við undirrituðum hann árið 2008. Það er löngu kominn tími til að við stígum það skref.

Esther Hallsdóttir

Pistlahöfundur

Esther er með B.A. gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og starfar hjá UNICEF á Íslandi. Hún er jafnframt ungmennafulltrúi Íslands til Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Áður hefur hún setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands og í stjórn Vöku fls. ásamt því að gegna formennsku í fjármála- og atvinnulífsnefnd SHÍ.