Hvað er þetta loðna!?

eftir Hallveig Ólafsdóttir

Þau kunna að koma fólki spánskt fyrir sjónir, öll þau skip sem nú eru bundin við bryggju. Á því er þó einföld skýring, en efst á baugi í sjávarútvegi er verkfall sjómanna sem hefur staðið yfir í fimm vikur. Það er þó annar stór póstur í íslenskum sjávarútvegi sem minna fer fyrir í opinberri umræðu. Hann er sá að enginn loðnukvóti hefur verið gefinn út fyrir árið 2017, því loðnumælingar hafa ekki gefið tilefni til bjartsýnis. Fyrstu tvo mánuði hvers árs er nefnilega loðnuvertíð. Þá eru í venjulegu árferði um 10 – 15 uppsjávarskip á sjó og um 200 sjómenn við veiðar á loðnu. Þúsundir landverkamanna eru svo tilbúnir til að vinna og verka loðnuna ýmist til hrognatöku, frystingar eða í fiskimjöl og lýsi.

Loðnan finnst ekki á hefðbundnum matseðli Íslendinga en hins vegar gegnir hún veigamiklu hlutverki í buddum landsmanna, beint og óbeint. Ef við lítum okkur nær má sjá loðnuna á 10 króna mynt Íslendinga og ber hún það vel. Þó svo að 10 króna myntin ein og sér sé ekki verðmæt þá er loðnan mikilvægur hlekkur í gjaldeyris- og verðmætasköpun á Íslandi. Útflutningsverðmæti loðnu er á bilinu 15 – 30 milljarðar á ári, eftir því hve aflinn er mikill. Sú staðreynd ein og sér gerir það að verkum að greiningardeildir bankanna og Seðlabankinn velta fyrir sér hvernig loðnumælingar koma út. Því eflaust er ekki til einn ákveðinn þáttur sem jafn auðvelt er að mæla til hagvaxtar en rausnarlegur loðnukvóti.  Til að setja útflutningsverðmæti loðnu í samhengi þá nam velta ÁTVR árið 2015 ríflega 24 milljörðum íslenskra króna og heildarkostnaður við tónlistarhúsið Hörpu var rúmlega 20 milljarðar.

Minna magn, meiri verðmæti

Með miklum fjárfestingum í þekkingu og tækni hefur tekist að auka verðmæti loðnuafurða verulega síðustu ár með því að nýta hana til manneldis. Áður fyrr fór nánast allur loðnuaflinn í mjöl og lýsi en  nú fara um 50% – 70% af loðnunni til manneldis. Loðnuhrogn þykja lostæti og djúpsteikt heil loðna er vinsælt partýsnakk í Austur-Evrópu.

Meiri verðmæti eru að skapast þrátt fyrir minna magn. Árið 2015 voru veidd um 350 þúsund tonn af loðnu sem skilaði 29 milljörðum króna í útflutningstekjur. Fyrir 15 árum var aflinn nær helmingi meiri en þrátt fyrir það voru útflutningsverðmætin mun minni en árið 2015. Fjárbinding í framleiðslu loðnuafurða er mikil, nýtt uppsjávarskip kostar allt að 5 milljarða, nútímaleg loðnuvinnsla í landi kostar um 4 milljarða og fiskimjölverkssmiðja um 2 milljarðar. Það er sú fjárfesting sem þarf til að ná hámarksverðmætasköpun út úr takmarkaðri auðlind.

Vítamínsprauta í sjávarútvegi

Loðna er loðin á hliðinni og því ber hún nafn með rentu. Kynorka loðnunnar er mikil en hængurinn leggur allt í hrygninguna, sem ríður honum að fullu og sér hængurinn ekki sólina meir. Loðnan er stórmerkileg skepna en að sama skapi ólíkindatól. Sveiflur í loðnustofninum eru miklar milli ára og ekki síður milli lengri tímabila. Það er því ekki nýtt af nálinni að loðnan láti ekki sjá sig svo neinu nemi og er loðnan því einn af mörgum þáttum sem sveiflast í sjávarútvegi. Þær loðnumælingar sem gerðar hafa verið fyrir komandi vertíð gefa ekki tilefni til bjartsýni um loðnuveiðar á þessari vertíð. Þó er ekki útséð með það, en þessa daganna stendur yfir loðnuleit. Loðnan er mikilvæg fyrir þjóðarbúið því mikil verðmæti verða til við veiðar og vinnslu á loðnu. Loðnukvóti er vítamínsprauta fyrir sjávarútveginn og þá sem starfa við veiðar og vinnslu á loðnu. Það verða því að teljast eðlilegar áhyggjur ef ekki verður veidd loðna í vetur þar sem hagvöxtur verður þá minni en ella.

Hallveig Ólafsdóttir

Pistlahöfundur

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur og stafar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða námi starfaði hún sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og á greiningardeild Vinnumálastofnunar ásamt því að sitja í ritstjórn Studentablaðsins.