Hvað er það sem sameinar?

eftir Ritstjórn

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna fékk í vikunni stjórnarmyndunarumboð frá forsetanum og gerir nú tilraun til að mynda stjórn með fimm stjórnmálaflokkum. Með í viðræðunum eru tveir flokkar sem þegar hafa tekið þátt í öðrum viðræðum á talsvert öðrum grundvelli. Björt framtíð og Viðreisn ræddu við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um myndun ríkisstjórnar. Ástæða þess að sú stjórn varð ekki mynduð er að öllum líkindum ólík áhersla flokkanna á fiskveiðistjórnunarkerfið og Evrópusambandsmál. Ljóst er að á hægri væng stjórmálanna eru þetta einmitt málin sem sundra. Er það mikil synd að þessi mál skyldu sundra enda hefði frjálslynd stjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks getað náð í gegn mörgum minni málum sem íhaldssamari öfl hafa barist lengi gegn. Áfengi í verslanir, stefnubreyting í viðhorfum til eiturlyfjafíkla og hægt væri að notast við hugmyndir samráðshóps um aukna hagsæld til að betrumbæta skattkerfið og aðlaga það betur að nútíma hagkerfi.

Á vinstri væng stjórnmálanna eru það þó talsvert fleiri mál sem sundra heldur en á hægri vængnum. Óeining er í stóru málunum: Evrópusambandsmálum, hvernig breyta skuli stjórnarskránni og fiskveiðistjórnunarkerfinu. – þótt flokkarnir séu sammála um að þessir málaflokkar þurfi á breytingum að halda. Óeiningin nær þó mun dýpra en oft er hægt að sjá á yfirborðinu. Píratar hafa í popúlískum málflutningi oft rætt um einhvers konar útfærslu á borgaralaunum. Slíkt kallar samfylkingarfólk og jafnvel Vinstri grænir „krónutölujöfnuð” og þykir þeim lítið til þess koma. Á landsfundi Samfylkingarinnar á þessu ári var til að mynda lögð fram tillaga um að stofnaður yrði einhvers konar auðlindasjóður sem allir Íslendingar fengju greitt úr (fyrir meint eignarhald þeirra á auðlindum landsins). Var tillagan felld eftir reyndar afar athyglisverða hugmyndafræðilega umræðu um jöfnuð vs. krónutölujöfnuð.

Aukinn óstöðugleiki í aðsigi?

Síðustu ár hafa íslensk stjórnmál, líkt og víða annars staðar, einkennst af miklum pólitískum óstöðugleika. Í því sambandi má nefna framgang þjóðernissinnaðra flokka á Norðurlöndum og um alla Evrópu. Nýjasta dæmið er svo sigur Donald Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, þar sem ákall var um breytingar, fólk vildi eitthvað allt annað en þá sem fyrir voru á fleti í stjórnmálunum.

Ný framboð hafa einnig sprottið fram á Íslandi og hefur þeim gengið misvel. Íslendingar virðast þó ögn skynsamari en margar aðrar þjóðir enda Píratar og Besti flokkur Jóns Gnarr þeir and-pólitískustu sem náð hafa árangri hér á landi. Utan Viðreisnar og Íslensku þjóðfylkingarinnar hafa hin nýju og  „umbótasinnuðu” framboð flest kennt sig við félagshyggju og talist til vinstri flokka.

Það er gömul saga og ný að á vinstri vængnum verði til nýjir flokkar sem deyi eða falli inn í aðra flokka. Ástæða þess að vinstri mönnum farnist illa í samstarfi við aðra flokka hefur lengi verið hulin ráðgáta. Eins og það er óljóst með samvinnufærni vinstri manna er það jafn augljóst að kokteill fjögurra vinstri flokka og eins hægri flokks er mjög líklegur til að sullast harkalega niður.

Sérstaklega verður að skoða þetta í ljósi þess að tveimur flokkanna sem nú eiga sæti við stjórnarmyndunarborðið, Viðreisn og Bjartri framtíð, tókst ekki að mynda stjórn með einum öðrum flokki (sem þó er nær þeim í stefnu sinni en margir aðrir flokkar). Jafnvel þótt flokkarnir tveir tækju höndum saman og mynduðu bandalag, tókst þeim ekki að miðla málum þannig hægt væri að mynda stjórn.

Það verður því vægast sagt fróðlegt að sjá hvernig Katrínu Jakobsdóttur vegnar á næstu dögum í baráttu sinni við Viðreisn og Bjarta framtíð, svo ekki sé minnst á Pírata og hina löskuðu Samfylkingu, „breiðfylkingu jafnaðarmanna.”

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.