Hvað er með þessa Röð?

eftir Ritstjórn

Það má eflaust flokka það til vandræðalegustu ummæla fjölmiðlasögunnar þegar aðstoðarforstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins gaf sínar skýringar á þeirri ákvörðun að verja þrettán milljónum króna í auglýsingaherferð. Í herferðinni sem kallast „Röðin” má finna myndbönd þar sem dómnefnd reynir að meta aldur þátttakenda í sýndarsjónvarpsþætti. Í lok myndbandanna birtist svo vörumerki ÁTVR og skilaboð til áhorfenda um að starfsmenn stofnunarinnar giski ekki á aldur viðskiptavina og áminning til viðskiptavina um að koma með skilríki í verslunina.

Á vefsíðu ÁTVR segir í tilkynningu að markmið herferðarinnar sé að vekja athygli á því að áfengiskaupaaldur sé 20 ár og að hún sé til þess fallin að skapa umræðu um aldurinn og framvísun skilríkja í verslunum ÁTVR. Það kom á daginn að umræðan þróaðist í allt aðra, en eðlilegri átt. Ótal spurningar vöknuðu vegna þessarar stórundarlegu herferðar. Hvers vegna er ÁTVR að auglýsa og hvað er raunverulega verið að auglýsa?

Fáránlegar skýringar

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, sagði tilgang herferðarinnar að hvetja starfsfólk ÁTVR og minna það á mikilvægi þess að spyrja um skilríki. Einnig að hún hvetti ungt fólk til að sýna skilríki að fyrra bragði.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve ótrúlegur fyrri hluti skýringarinnar er. Ekkert einkafyrirtæki í sambærilegri stöðu, sem hefur einhvern vott af metnaði, myndi verja þrettán milljónum króna í auglýsingaherferð til áminningar fyrir starfsmenn sína. Þessi skýring Sigrúnar Óskar hlýtur að vera fyrirsláttur af einhverju tagi.

Hvað síðari hluta skýringarinnar varðar, þá er það í besta falli varhugavert að ætlast til þess af tilteknum borgurum að þeir sýni skilríki að fyrra bragði. Það er á ábyrgð ÁTVR að ganga úr skugga um að áfengi sé selt í samræmi við lög og eðlileg nálgun gagnvart viðskiptavinum er að seilast ekki of langt og beiðast skilríkja aðeins þegar þörf er á því.

Er eðlilegt að ÁTVR auglýsi?

Það er eðlilegt að fyrirtæki verji fjármunum í auglýsingar til að kynna vörur sínar eða þjónustu fyrir viðskiptavinum. Staða ÁTVR er þó ólík hefðbundnum fyrirtækjum vegna þess að um er að ræða ríkisrekið einokunarfyrirtæki sem starfar þar af leiðandi ekki á samkeppnismarkaði. Hvers vegna kýs slíkt fyrirtæki að verja skattfé með þessum hætti? Hvaða tilgangi þjónar það fyrir kjósendur í lýðræðisríki?

Getur verið að þau (annarlegu) sjónarmið liggi að baki, að þeir embættismenn sem eru í forsvari fyrir ÁTVR hafi þá skoðun að ríkið skuli eitt annast áfengissölu. Getur verið að embættismennirnir notfæri sér stöðu sína til að normalisera núgildandi fyrirkomulag, sem er að sjálfsögðu ekki hafið yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað fyrirkomulag?

Hvort sem þessi kenning á sér nokkra stoð eða ekki, er ekki undir neinum kringsumstæðum hægt að slaka á eftirliti með stofnuninni. Þvert á móti er ástæða til að fylgjast sérstaklega vel með ríkisfyrirtækjum á borð við ÁTVR og kjósendur verða ætíð að geta metið án utanaðkomandi truflana hvort tilvist tiltekinna þátta ríkisins sé réttlætanleg. Það gera þeir í kosningum og leikir á borð við áðurnefnda auglýsingaherferð eru til þess fallnar að spilla hreinni gagnrýni kjósenda hvað þessi mál varðar.

Auglýsa áfengi með óbeinum hætti

Það að ÁTVR reki auglýsingaherferð, sem virðist aðeins ætluð starfsmönnum stofnunarinnar, segir aðeins þó aðeins hálfa sögu. Með sömu herferð stuðlar hún að aukinni sölu áfengis og færa má rök fyrir því að stofnunin auglýsi í raun áfengi með óbeinum hætti. Slíkar auglýsingar eru bannaðar með lögum en það er efni í annan pistil. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ÁTVR auglýsir starfsemi sína en um árabil hefur ríkisstofnunin auglýst opnunartíma sína í fjölmiðlum til þess að hámarka sölu sína á áfengi. Að frátaldri stefnu ÁTVR að fjölga útsölustöðum um allt land sem og lengja opnunartíma, til þess að selja meira áfengi.

Á sama tíma heldur ÁTVR út umfangsmikilli umfjöllun á vefsíðu sinni um mikilvægi þess að takmarka sölu áfengis og slæm áhrif þess að auka frelsi í sölu áfengis. Þar að auki mælti ÁTVR fyrir því að áfengisgjald hefði ekki hækkað í takt við verðlag á síðustu árum og með því studdi ríkisstofnunin hækkun á gjaldinu sem boðuð var í síðasta fjárlagafrumvarpi.

Tvískinnungur ÁTVR, að annars vegar þurfi stofnunin að selja meira áfengi en einnig þurfi að draga úr og halda aftur að sölu áfengis, er óforsvaranlegur.

Vandræði vínsalans

Líkt og áður sagði er mikilvægt að tilvist ÁTVR og starfshættir séu undir stöðugu eftirliti borgaranna. Það er ekki eðlilegt að ríkisfyrirtæki auglýsi sig með þeim hætti sem ÁTVR hefur gert árlega undanfarin ár. Í einokunarstöðu sinni getur stofnunin hagað sér eins og henni sýnist, án nokkura afleiðinga, þ.e. með auglýsingum á áfengissölu og auknu aðgengi að áfengi á sama tíma svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma stofnunin berst gegn sömu hlutum á öðrum vettvangi.

Það er engin furða að ríkið vandræðist með að reka smásöluverslun enda samræmist það ekki hlutverki hins opinbera. Það að ÁTVR sé komið í það öngstræti að sjá engra kosta völ en að útbúa auglýsingu til að tryggja að starfsmenn sínir fari að lögum rennir stoðum undir það hversu erfitt er fyrir íslenska ríkið að hafa eftirlit með sjálfu sér. Ef ÁTVR gerist sekt um að selja áfengi til einstaklinga undir 20 ára aldurs er lítið um úrræði, því ekki er ríkið að fara að afnema áfengissölurétt sinn. Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum þess að löngu er tímabært að ríkið endurskoði hvernig staðið er að sölu áfengis á þessu landi.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.