Hvað er í matinn?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Þegar heimbyggðin var sett í stofufangelsi til að vernda eigin heilsu sem og annarra komu upp áskoranir í nútímasamfélagi, sem ekki hafa þekkst frá upphafi hnattvæðingar. Með stórkostlegum samdrætti samgangna upphófst mikil óvissa varðandi matvælaflutning, þá sérstaklega á einangruðum svæðum – þar með talið á tiltekinni eyju í Norður-Atlantshafi. Mörg fremur afskekkt samfélög upplifðu þó ekki sömu áskoranir, en þau eiga það öll sameiginlegt að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu. Spurningin er því, hvað verður í matinn á komandi árum?

Ímyndum okkur að á Íslandi sé sjálfbær matvælaframleiðsla. Í grennd við stærri byggðarkjarna er lóðréttur landbúnaður stundaður, þar sem auðvelt er að sækja sér ferska afurðir. Í frekari dreifbýlum er áhersla lögð á fjölbreytileika í nýtingu landsvæða hvers og eins bóndabýlis, til að auðga framleiðni sem og framboð fæðutegunda. Bændasamfélög eru styrkt gegnum nána samvinnu og samnýtingu tækjabúnaðar, sem annars stendur ónýttur á hliðarlínunni megnið af ævi sinni. Landbúnaðarframleiðsla er sjálfbær og kolefnisjákvæð, ekki í gegnum innatóm loforð, heldur markvissar fjárfestingar. Alger útópía. 

Gríðarlegt tækifæri er í uppbyggingu og þróun slíkrar sjálfbærar matvælaframleiðslu. Styðja þarf við þessi umskipti á mismunandi sviðum. Hluti vandans liggur í því að hvergi eru viðurlög til staðar ef fjárfestingar valda neikvæðum áhrifum á umhverfið. Þar að auki er mikilvægt að sjá til þess að fjárfestingarflæði, hvort sem um ræði ríkisstyrki eða fjárfestingar, færist frá úreltum framleiðsluháttum og landnotkun, yfir í uppbyggingu sjálfbærar, endurnýtanlegrar, og kolefnisjákvæðrar framleiðslu. Fjöldi slíkra lausna og tækninýjunga eru þegar til, en þær þarf að fjármagna og innleiða sem ríkjandi aðferðir í landbúnaði. Sem dæmi má nefna lóðrétta matvælaframleiðslu, sem þarf allt að 95% minna vatn en gróðurhús (ef tekið er mið af kálframleiðslu), og framleiðir allt að 2-3 sinnum meiri matvæli á fermeter. Þar að auki stuðlar fjölbreytileg fæðuframleiðsla að bestun landsvæðanýtingar, en auðgar einnig framleiðsluna sjálfa og minnkar þá miklu sóun sem á sér stað í fæðukeðjunni. Deilikerfi eru svo ekki einungis viðeigandi fyrir bílaiðnað eða húsnæðismarkað, heldur felst tækifæri í aukinni samvinnu milli allra þátttakenda fæðukeðjunnar, og samnýtingu á lítið nýttum tækjabúnaði. Til þess að koma á fót algeru hringrásarkerfi má auðga framleiðsluna enn fremur með nýtingu á endurunnum lífrænum úrgangi í viðeigandi jarðveg. Að lokum fæst mikill kolefnissparnaður af staðbundinni framleiðslu í stað innflutnings. 

Neytandinn spilar að sjálfsögðu mikilvægt hlutverk í þessari umbyltingu en áhugi fólks á grænum lausnum, eigin kolefnisspori, og heilsusamlegri fæðu fer ört vaxandi. Samhliða uppbyggingu sjálfbærar matvælaframleiðslu er því mikilvægt að draga neytendur með í þessa vegferð og útvega þeim upplýsingar um uppruna og kolefnisspor bæði innlendrar framleiðslu sem og innfluttra matvæla með viðeigandi tæknilausnum og merkimiðum. Slíkar lausnir eru að sama skapi til, og þarf því einungis að innleiða, og prófa, og geta þá virkað sem aukinn hvati fyrir neytendur til að taka meðvitaðar ákvarðanir.

Í stuttu máli er mikilvægt að ríki sem og iðnaður vandi valið í fjárfestingu og dreifingu fjármagns til landbúnaðarlausna, og leggi auknaáherslu á uppbyggingu framleiðsluhátta sem hafa þegar sýnt fram á jákvæð félagsleg-, efnahagsleg-, og umhverfisleg áhrif. Þar að auki er undir okkur, neytandanum, komið að hafa áhrif á markaðinn með ábyrgum ákvörðunum og neyslu. Þá getum við jú búist við sjálfbærri, gómsætri og íslenskri máltíð. 

Tekið skal fram að þessi grein var skrifuð áður en fyrsta Matvælastefna Íslands var kynnt af Atvinnuvegaráðuneytinu. Undirrituð fagnar þeim málum sem tekið er á í stefnu og aðgerðaráætlun, en leggur áherslu á mikilvægi þess að skilgreina áþreifanlegar aðgerðir sem styðja við stefnuna og að ráðist verði í þær frekar en að ræða þær þar til orðið er um seinan.

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.