Hvað ef mig langar að keyra?

eftir Sigurður Tómasson

Fimmhundruð áttatíu og níu aðilar mega keyra leigubíla á Íslandi. Aðrir mega það ekki þótt þeir hafi áhuga og vilja til þess. Leigubifreiðarakstur er nefnilega leyfisskyldur og fjöldi leyfa takmarkaður. Með öðrum orðum eru leigubílstjórar á Íslandi í einokunarstöðu, varða af ríkinu. Akstur er heldur ekki eina atvinnugreinin sem krefst leyfisveitingar íslenska ríkisins, heldur eru þær yfir 170. Raunar eigum við Norðurlandamet í þeim efnum.

Flestir þekkja afleiðingar slíkrar takmörkunar. Að færri veiti þjónustu þýðir minni samkeppni sem leiðir að öllu öðru óbreyttu af sér verri þjónustu eða hærra verð. Eða bæði. Oft á tíðum leiða slík ríkisafskipti til svartrar atvinnustarfsemi. Skutlaragrúppurnar á Facebook eru góð dæmi um tilraunir fólks til að vinna fyrir auknum tekjum sem ríkið meinar þeim tækifæri til að fá.

Það ætti ekki að vera erfitt að fá að keyra fólk á milli staða og fá greitt fyrir. Flestir eru með bílpróf og þjónustan felst í að keyra á milli staða með farþega. Verjendur einokunarkerfisins mikla ekki þann hluta starfsins heldur bera þeir fyrir sig öryggissjónarmið sem meginástæðu þess að nauðsynlegt sé að takmarka leyfin. Það eru gild rök, enda vilja neytendur vera vissir um að komast heilir á leiðarenda.

Hins vegar finnst mér þetta ekki rök fyrir að takmarka fjölda leyfanna, heldur eiga þau meira við þegar kemur að hvort leyfin séu þörf eða ekki. Sá punktur virðist þó vera talsvert ýktur sem sjá má í notkun fólks á áðurnefndu skutlaragrúppunum. Ekkert eftirlit er með þeim, þúsundir notast við þjónustuna sem boðið er upp á, og ég hef ekki heyrt eitt dæmi um einhvers konar öryggisbrest. Leigubílstjórar hafa hins vegar verið óhræddir við að dreifa hræðsluáróðri tengda leyfislausum akstri og meðal annars tengt hann við ólöglega sölu vímuefna og sagt bílstjórana vera „dæmda afbrotamenn, próflausa einstaklinga og fólk undir áhrifum“. Bílstjórarnir eru þó að sjálfsögðu ekki með eigin hagsmuni í huga heldur segja þeir: „Við viljum í fyrsta lagi að þetta sé stöðvað því við eigum flest börn og jafnvel barnabörn og við viljum ekki vita af þeim í svona aðstæðum“.

Auðvitað.

Óþarfi er að orðlengja um möguleikana sem standa íbúum annarra þjóða til boða. Uber, Lyft og fleiri fyrirtæki bjóða ökumönnum og neytendum upp á margfalt þægilegri lausn fyrir báða aðila, og eru á víð og dreif um heiminn. Í stað þess að bíða í símanum mínútum saman eftir svarinu „hann kemur fljótt“, sem hefur reynst mjög teygjanlegt hugtak, nægir að smella örfáum sinnum á símann. Óvissan um hvenær nákvæmlega bíllinn komi er engin því hægt er að fylgjast með staðsetningu bílsins í símanum, og verðið er miklu lægra. Því til viðbótar er einkunnarkerfi bílstjóranna í Uber og Lyft til þess fallið að hvetja þá til að veita betri þjónustu.

Þetta eru tími, peningar og lífsgæði sem ríkið, meðvitað, hefur af neytendum.

Auðvitað verja bílstjórar einokunarstöðu sína

Ástgeir Þorsteinsson, formaður Frama, félags leigubílstjóra, sagði í viðtali á Bylgjunni að engin þörf væri á fjölgun leyfa um 100. Segir hann að enginn skortur sé á leigubílstjórum, það sjáist í allt að 45 mínútna bið þeirra eftir viðskiptum. Jafnframt segir hann að verðið sé skiljanlegt því það sé svo dýrt að reka bíl, og loks að leigubílstjórar séu ekki í neinum feiknarlegum gróða. Það sé „ekki þannig að geta lifað alveg sæmilegu lífi.“

Í fyrsta lagi er Frami að sjálfsögðu mjög ánægt með takmörkunina sem færir þeim einokunarstöðuna og vill ekkert með samkeppni hafa. Skýr andúð stéttarinnar á markaðinum má til að mynda sjá í eftirfarandi texta á forsíðu félagsins: „Tilgangur Bifreiðastjórafélagsins Frama hefur ávallt verið sá að gæta hagsmuna félagsmanna og þá sérstaklega gagnvart stjórnvöldum. Nú í seinni tíð, á tímum hinnar svokölluðu frjálshyggju hefur meira verið sótt að leigubifreiðastjórum og reynt að brjóta upp það aðhaldsfyrirkomulag sem er fyrir hendi þ.e. takmörkunina.“ [Feitletrun höfundar.]

Jafnframt eru rök formannsins um að ekki sé skortur eins og sjá megi með 45 mínútna bið leigubílstjóra dæmi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ef það væri auðveldara og ódýrara að taka leigubíla væri sú þjónusta miklu meira notuð í daglegu lífi fólks. Jafnframt nefnir hann ekkert hvenær þessi mikla bið leigubílstjóra er og get ég leyft mér að fullyrða að um helgar er bið neytenda engu skárri vegna takmörkunarinnar sem félagið Frami er svo hrifið af.

Loks er auðveldlega hægt að lækka verðið og myndi það gerast um leið og samkeppni yrði gefin frjáls. Í fyrsta lagi er startgjaldið á Íslandi margfalt hærra en það sem er að finna hjá Uber og Lyft. Þá þurfa bílarnir ekki nauðsynlega að vera nýir svartir þýskir eðalvagnar, heldur væri gott að hafa möguleikann á að velja ódýrari kost (Uber býður upp á val á milli, dýrari bíll er með hærra startgjald).

Formaður Frama er í hagsmunagæslu og auðvitað er svar slíks aðila á þessa leið. Neytendurnir verða samt að láta meira í sér heyra til að fá að njóta þeirra lífsgæða sem þeir eiga skilið og íbúar annarra landa hafa. Hagsmunir neytenda eru miklu ríkari í þessum efnum.

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.