Hvað ef ég vil ekki fjárfesta í Plain Vanilla?

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Á síðustu mánuðum hef ég lesið í gegnum mörg af hrunmálunum. Þar eru fyrrum stjórnendur bankanna iðullega spurðir spjörunum úr, um starfsemi sem átti sér stað fyrir ótal mörgum árum síðan. Oftast segjast þeir hafa gleymt því sem um var rætt. Þegar ég les það, er ég aldrei viss hvort um sé að ræða slappa varnartaktík eða enn eitt dæmið um mannlegan breyskleika. Ég man varla sjálfur hvort ég fór í ræktina í síðustu viku eða ekki.

Ástæðan fyrir minnisleysinu getur líka verið að starfsmenn og stjórnendur banka eru að taka mikilvægar ákvarðanir hvern einasta dag í starfi sínu. Á hverjum degi er ákveðið hverjum skal lána og hverjum ekki. Oft eignast bankar tímabundin hlut í hinum ýmsu fyrirtækjum. Allar þær ákvarðanir eru teknar með það í huga að auka tekjur bankans og takmarka áhættu. Það á ekki að leggja í bankann tóman blús né fjárfesta í slíkum.

Á síðustu árum hafa íslensk fjármálafyrirtæki starfað við ansi sérstakar aðstæður. Þar hafa mestu ráðið gjaldeyrishöftin. Þau hafa sett öllum fjármagnseigendum miklar skorður og leitt til þess að bankarnir og lífeyrissjóðirnir þurfa að fjárfesta nær öllu sínu fjármagni á Íslandi.  Á sama tíma höfum við ríkisrekna banka en þessir ríkisreknu bankar starfa mikið til á sama hátt hinir einkareknu.

Ríkisbankar á þenslutímum.

Í dag eru þenslutímar. Það er mikill vöxtur í atvinnulífinu. Á slíkum tímum eykst framboð af lánsfjármagni. Bankarnir keppast þá við að finna góða fjárfestingarkosti sem eru jafn misgóðir og þeir eru margir. Það er ekki alltaf veðjað á réttan hest. Lífsferill fyrirtækja er oft jafn sveiflukenndur og stjórnmálaferill Sigmundar Davíðs.

Hættan er sú, við þessar aðstæður sem hér hefur verið lýst, að bankarnir fari að fjárfesta í meiri mæli í „lélegum verkefnum.“ Verkefni þar sem óvissan er meiri. Helsta dæmið um slík fyrirtæki eru sprotafyrirtæki. Ung fyrirtæki sem beita sér að nýsköpun í atvinnulífinu. Þar búa oft stórir draumar að baki, en þörf er á miklu fjármagni til þess að þeir geti orðið að veruleika. Svo er stóra spurningin hvort fyrirtækið muni nokkurn tíma skila af sér arði. Mun Sigmundur Davíð vera formaður Framsóknarflokksins þegar vikan er liðin?

„Ævintýri í boði ríkisbanka“

Ef eigendur banka eru ósáttir við þá stefnu sem banki myndar sér í lánveitingum geta þeir annaðhvort beitt sér fyrir stefnubreytingu eða selt sinn hlut í bankanum. Þannig er ekki með ríkisbankanna. Hvorugt stendur til boða. Þeir sem eiga bankann, þ.e. við Íslendingar, höfum lítil ítök þegar kemur að vali bankastjóra og við fáum mjög takmarkaðar upplýsingar um almennan rekstur bankans. Þegar að sá dagur rennur upp að áhættusamar lánveitingar eða fjárfestingar hafi ekki borið árangur eru það samt skattgreiðendur sem bera ábyrgðina.

Hægt er að færa rök fyrir því að aðstæður hér á landi séu margt svipaðar þeim sem hér ríktu áður en „.com bólan“ svokallaða sprakk, rétt eftir aldamót. Þá hafði verið fjárfest gríðarlega mikið í sprotafyrirtækjum tengdum hugbúnaði. Þá vorum við samt ekki í gjaldeyrishöftum, né var jafn stór hluti bankakerfisins í höndum ríkisins.  Í náinni framtíð gætum við því verið í þeirri stöðu að hugbúnaðarbóla sé sprungin, ævintýrið búið og allt í boði skattgreiðenda.