Hvað á að gera við fæðingarorlofið?

eftir Kristófer Már Maronsson

Fæðingarorlof er komið á dagskrá Alþingis á ný eftir að Svandís Svavarsdóttir lagði fram frumvarp um lengingu orlofsins. Á næstunni ætlar Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra, að leggja fram frumvarp um hámarksfjárhæð fæðingarorlofs. Ef ég væri í hans stöðu þá væru réttindi námsmanna sem verða foreldrar eitthvað sem væri á minni þingmálaskrá, en það er annað mál. Til þess að ákveða hvaða skref ætti að taka fyrst þarf að skoða þessi mál í samhengi.

Áhrif laganna eru ótvíræð

Lög um fæðingarorlof sem sett voru um aldamót hafa svínvirkað og stjórnvöld færðust nær markmiði laganna sem eru að tryggja börnum umönnun beggja foreldra og gera báðum foreldrum kleift að sinna vinnu og fjölskyldu. Fyrst um sinn voru engar hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði, en árið 2005 var sett á þak. Þakið var 480.000 krónur sem á verðlagi dagsins í dag eru 875.968 krónur. Það er töluvert hærri fjárhæð en hálfa milljónin sem hámarkið er í dag. Skoðum þróunina í töflu frá 2001-2014.

 

Heimild: Velferðarráðuneytið, Hagstofan, Fæðingarorlofssjóður.

Mikill uppgangur var í töku fæðingarorlofs hjá feðrum líkt og í íslensku samfélagi, allt til ársins 2009 en fram að þeim tíma hélst hámarksgreiðslan vel yfir 800.000 krónum og umsóknir feðra árið 2008 voru 90% af umsóknum mæðra og meðaldagafjöldi þeirra 101, samanborið við 178 hjá mæðrum. Gefum okkur þá forsendu að jafnrétti í þessum málum sé náð ef að meðaldagafjöldi mæðra og feðra sé sá sami. Árið 2008 erum við í okkar bestu stöðu, með einungis 77 daga á milli meðaldagafjölda mæðra og feðra og 90% feðra eru að taka fæðingarorlof.

Hvert er markmiðið?

Hér varð hið svokallaða hrun, eins og einhver orðaði það. Í kjölfarið voru hámarksgreiðslur fæðingarorlofs lækkaðar, fyrst árið 2009 niður í 521.457 krónur á verðlagi dagsins í dag, þaðan enn frekar, niður í 366.965 krónur árið eftir. Árið 2012 náðist botninn, 338.264 krónur. Í kjölfarið snarlækkar hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof, en það helst voðalega jafnt hjá mæðrunum – þær eru alltaf í kringum sex mánuðina. Feðurnir eru ekki lengur að nýta allt sitt orlof og eingöngu 80% þeirra eru að taka fæðingarorlof. Það er áhyggjuefni.

Með öðrum orðum, þá virðast vera tengsl milli hámarksupphæðar greiðslna úr fæðingarorlofssjóði og töku fæðingarorlofs hjá feðrum. Miðað við þau gögn sem við höfum, þá getum við náð aftur á sama stað ef við hækkum hámarksgreiðsluna. Það hefur ekki verið sýnt fram á að við færumst nær markmiðinu með því að lengja orlofið. Munu þessi 10% feðra sem hafa tapast frá árinu 2008 frekar taka 5 mánaða fæðingarorlof heldur en 3 mánaða fæðingarorlof? Ég er ekki svo viss um það. Munu þeir frekar taka fæðingarorlof ef tekjur þeirra skerðast ekki jafnmikið? Sagan bendir að minnsta kosti til þess.  

Öll börn eiga rétt á báðum foreldrum – óháð efnahag

Ég er þeirrar skoðunar að af tvennu góðu, þá eigi fyrst að hækka hámarksgreiðslurnar, til þess að fleiri feður taki fæðingarorlof og vonandi að meðaldagafjöldinn verði enn jafnari, svo jafnrétti náist sem fyrst. Það þarf sennilega fleiri aðgerðir, en ekki er ég viss um að lenging fæðingarorlofs ein og sér skili því – þó hún hafi eflaust einhver áhrif í jákvæða átt.

Það er að mínu mati ekki hlutverk fæðingarorlofs að vera greiðslujöfnunartæki, hvorki fyrir foreldra né börn. Það á ekki að bitna á ungabarni að foreldrar þess séu tekjuháir og geti því ekki tekið fæðingarorlof, því háum tekjum fylgja oft háar skuldbindingar. Fæðingarorlof á að tryggja börnum umönnun beggja foreldra og gera báðum foreldrum kleift að sinna vinnu og fjölskyldu. Sorglegt, að það sé ekkert talað um að gera foreldrum kleift að sinna námi og fjölskyldu á sama tíma. 

Það sem birtist hér að ofan eru persónulegar skoðanir höfundar en endurspegla ekki skoðanir vinnuveitanda hans né annarra.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.