Húsaleigubætur til bóta?

eftir Tryggvi Másson

Ég er heppinn ungur drengur. Ég leigi kjallaraíbúð af foreldrum mínum í húsinu, sem ég ólst upp í. Þegar ég flutti í kjallarann var það í fyrsta sinn sem ég þurfti að borga leigu. Þegar ég fór til samningaviðræðna við mömmu og pabba ætlaði ég heldur betur að taka þau í nefið, notfæra mér þá þekkingu sem ég hafði öðlast í námi mínu í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Ég ætlaði sannarlega að hafa betur í baráttunni um leiguverðið og kynnti mér öll úrræði sem buðust fátæka námsmanninum. Rakst ég þá á fyrirbærið húsaleigubætur. Var ég dottinn í lukkupottinn?

Ég sá í hillingum 22.000 krónur koma inn um bréfalúguna mánaðarlega og  fljótu bragði virtist þetta vera „win-win“ staða, bæði fyrir mig og gamla fólkið. Þau myndu rukka mig um leigu og ég fengi hluta hennar greiddan til baka í formi húsaleigubóta.

Falskar vonir

Til að geta gert mér vonir um húsaleigubætur er skilyrði að leigusamningi sé þinglýst.  

Eftir að hafa lesið mér til um þetta allt saman komst ég þó fljótlega að því að jafnvel þótt ég léti þinglýsa leigusamningnum gæti ég hvort eð er ekki sótt um húsaleigubætur. Það er nefnilega svo að ef leigjandi er skyldmenni leigusala á hann ekki rétt á húsaleigubótum. En það er önnur umræða að taka.

Þrátt fyrir það fékk þetta mig til þess að hugsa. Ef helsta ástæðan fyrir því að leigjendur vilji þinglýstan leigusamning er að þeir geti fengið húsaleigubætur, býður það ekki hættunni heim?

Lögmál markaðarins

Samtök leigjenda á Íslandi eru hagsmunasamtök sem beita sér fyrir því að draga fram í dagsljósið öll þau vandamál sem tengjast húsaleigumarkaðnum í dag og berjast fyrir bættum hag leigjenda. Samtökin lýsa yfir miklum áhyggjum þess efnis að „hin ósýnilega hönd markaðins stýri samfélaginu til hámarkshagnaðar“.

Ef við gefum okkur það að sú sé raunin og leigusalar leitist eingöngu við að hámarka hagnað sinn, gerir það húsnæðisbætur í raun og veru tilgangslausar. Óski tilvonandi leigjandi eftir því við leigusala að leigusamningi verði þinglýst fær leigusalinn þar með upplýsingar um að viðkomandi einstaklingur eigi rétt á húsaleigubótum. Þá er leigusalanum ekkert að vanbúnaði að hækka leiguna um því sem nemur húsaleigubótunum til þess að hámarka hagnað sinn.

Gefum okkur dæmi um námsmann sem er með 930.000 krónur í laun ár ári því hann er á námslánum og vill ekki skerða námslánin sín. Hann stundar nám við háskóla í Reykjavík og leigir meðalstórt húsnæði á meðalverði vestan Kringlumýrabrautar og Seltjarnarness til þess að vera sem næst skólanum. Hann á rétt á fullum húsaleigubótum vegna þess að hann er með lágar tekjur, á engar eignir og leigir ekki af foreldrum sínum. Húsaleigubætur barnlausra á hverja íbúð geta mest verið 22.000 krónur á mánuði. Með öðrum orðum er húsaleiguverð íbúða fyrir barnlausa verðlagt 22.000 krónum of hátt.

leiguverd

Mynd 1. Leiguverð í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarnes frá árinu 2015 skv. Þjóðskrá

Ef leigjandinn á hins vegar börn geta húsaleigubætur hans orðið, 36.000 krónur á mánuði með eitt barn, 44.500 kr. með tvö börn og 50.000 krónur með þrjú börn eða fleiri. Að því gefnu eru húsaleiguverð þinglýstra leigusamninga verðlögð allt frá 36.000 – 50.000 kr. of hátt.

Leiguverd_med_b

Mynd 2. Leiguverð í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og Seltjarnarnes frá árinu 2015 skv. Þjóðskrá

Með þessu móti renna húsaleigubæturnar allar í vasa leigusala fremur en leigjenda sem er þvert gegn tilgangi bótanna, að bæta hag þeirra tekjulægri sem eru á leigumarkaði. Svo lengi sem ástæðan fyrir því að þinglýsa leigusamningum er að eiga rétt á húsaleigubótum munu leigusalar hafa færi á því að hækka sína leigu sem bótunum nemur og stinga þeim í eigin vasa. Í nýju frumvarpi sínu um húsnæðisbætur sem eiga að koma í stað húsaleigubóta, hyggur húsnæðismálaráðherra ekki á að breyta þessu heldur að hækka enn frekar upphæðina sem rennur í vasa leigusalans.

Í tilfelli námsmanna í Reykjavík er aðeins einn vettvangur þar sem húsaleigubætur skila tilætluðum árangri. Það eru leigufélög fyrir námsmenn, líkt og Félagsstofnun stúdenta og Byggingarfélag námsmanna, sem verðleggja leigu á annan hátt en á almennum markaði. Því er mikil synd að það standi til að gera þessum félögum erfiðara fyrir í nýju frumvarpi húsnæðismálaráðherra um almennar íbúðir. Þeim mun frekar ætti að sníða slíkt húsaleigukerfi að fyrirtækjum sem þessum svo þau geti vaxið, dafnað og boðið námsmönnum enn hagkvæmari húsnæðiskosti en nú.

Sá kostnaður hins opinbera sem fór í húsaleigubætur, sem bæta ekki stöðu lágtekjufólks á leigumarkaði, voru sex milljarðar íslenskra króna árið 2014. Slíkum fjármunum er mikið betur varið í að treysta rekstrargrundvöll „non-profit” húsaleigufélaga og lækka á sama tíma leiguverð á almennum markaði og slá þar með tvær flugur í einu höggi.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.