Úr hundraðogeinum í Hypeholt

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Allt frá falli múrsins árið 1989 hefur orðið mikil og hröð uppbygging í Berlín, sérstaklega eftir aldamótin. Borgin varð fljótt vinsæll búsetustaður listamanna og hipstera sem hafa glætt borgina lífi og einstökum sjarma. Í framhaldinu hafa fleiri fengið augastað á Berlín og flust þangað búferlum eða fjárfest í húsnæði, bæði erlendis frá og frá öðrum borgum í Þýskalandi. Nýlega hafa til dæmis fjölmargir flutt frá London til Berlínar á flótta frá síhækkandi húsnæðisverði í London og einhverjir nefnt að Berlín í dag minni á Austur-London fyrir 10 árum. Í dag hefur Berlín tvímælalaust skipað sér sess á meðal eftirsóknarverðari borga í Evrópu og er nú í 13. sæti á lista yfir bestu lífsskilyrðin í stærri borgum heimsins.[1]

Litla Berlín

Auknar vinsældir Berlínar hafa hins vegar gert það að verkum að húsnæðisverð í Berlín hefur hækkað ört og er leiguverð nú orðið nánast tvisvar sinnum hærra en landsmeðaltal húsaleigu í Þýskalandi og einnig eru dæmi um að íbúðir hafi þrefaldast í verði á nokkrum árum. Landslag annarra borga í Þýskalandi sem hingað til hafa verið vinsælir búsetustaðir listamanna og ungs fólks hefur einnig breyst, München er að verða of dýr og íbúar í Hamburg þykja vera í eldri kantinum.

Þrátt fyrir að fyrrnefndar borgir haldi aðdráttarafli sínu hefur borg í nágrenni við Berlín komið fram á sjónarsviðið sem nýja hipsteraborg Þýskalands: Leipzig. Svo mikið æði eða ‚hype‘ hefur gripið um sig í kringum borgina að hún hefur verið kölluð „Hypezig“ og fasteignaspekúlantar hafa útnefnt borgina sem „the boomtown of Germany“ og „Litlu Berlín“. Helstu ástæður fyrir nýtilkomnum vinsældum Leipzig eru nálægð borgarinnar við Berlín, lágt húsnæðisverð og því til viðbótar eru þar einnig lágir fyrirtækjaskattar.

Hypeholt, Reykjavík

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ný svæði taka við sem hipsterasvæði. Sennilega má vænta svipaðrar þróunar á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi, sérstaklega í ljósi aukins fjölda hótela og gistiþjónustu fyrir ferðamenn í miðborginni sem og hækkandi íbúðarverðs. Í nýrri samantekt frá Þjóðskrá um húsnæðisverð í Reykjavík kom til að mynda fram að á milli fjórða ársfjórðungs 2014 og fjórða ársfjórðungs 2015 hefur húsnæðisverð hækkað hlutfallslega mest í Breiðholti (pnr. 111) eða um tæp 16%. Hugsanlega líður ekki á löngu þar til hægt verður að tala um Hypeholt?

Ýmsir kostir geta falist í því að vera aðeins fjær miðbænum s.s. skemmtilegri íbúð fyrir lægra verð, nálægð við skíða- og útivistarsvæði, minni umgangur ferðamanna o.fl. Samanborið við evrópskar borgir eru 20-30 mínútur í samgöngutíma til og frá vinnu eða skóla þar að auki ekki langur ferðatími. Í Bandaríkjunum geta ferðalögin verið jafnvel enn lengri. Hingað til hefur miðbærinn, þ.e. pnr. 101, 105 og 107 hins vegar haldið velli sem eftirsóknarverðasta búsetusvæði í Reykjavík meðal ungs fólks. En hvers vegna ekki önnur hverfi? Skýringar eins og nálægð við skóla eða atvinnu- og skemmtanalíf hafa verið taldar liggja þar að baki.

Sóknarfæri skipulagsyfirvalda

Eftirsóknarverðum búsetumöguleikum fjölgar þegar skipulagsyfirvöld tryggja flæði til og frá miðbæ. Þannig er aðgengi allra íbúa að miðbænum aukið en ekki einungis þeirra sem hafa ráð á síhækkandi eignum miðsvæðis. Góð dreifing stærri vinnustaði og þjónustumiðstöðva s.s. spítala og samgöngumiðstöðvar á milli hverfa skapar einnig nýja atvinnukjarna og möguleika fyrir fleiri að búa nálægt vinnustað sínum. Þannig er með breyttum áherslum í skipulagi hægt að vinna samtímis að hagsmunum miðbæjarins annars vegar þar sem plássið er af skornum skammti og hagsmunum úthverfanna hins vegar þar sem nýjir atvinnukjarnar myndu gera hverfin að eftirsóknaverðari búsetustað.

Þegar allt kemur til alls myndast nýjir hype-búsetukjarnar af náttúrulegum ástæðum, þ.e. fólk flytur á ný svæði til að komast hjá hærra verði annars staðar. Hins vegar spila skipulagsyfirvöld einnig lykilhlutverk, ekki síst hvað varðar samgöngur og uppbyggingu atvinnukjarna innan hverfa. Í því samhengi má velta upp hvort að Breiðholtsverkefnið sem farið var af stað með árið 2012, eða afhjúpun listaverka á ýmsum stöðum í efra Breiðholti tengist fyrrnefndri hækkun á fasteignaverði í Breið/hype-holti.

 

[1] Mercer 2016: Quality of living city survey

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.