„Hún reykti ekki einu sinni gras“

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Neysla ávana- og vímuefna er of mikil á Íslandi.

Nú er ég ekki ýkja gömul en hljóma eflaust gamaldags þegar ég segist hafa miklar áhyggjur af vímuefnaneyslu ungmenna. Kannski er þetta ákveðið þroskastig að ganga í gegnum: Þegar manni finnst hegðun ungs fólks vera orðin of áhættusöm eða neysla þeirra á vímuefnum of mikil, þá er maður orðinn fullorðinn. Því þessar áhyggjur eru ekki nýjar af nálinni, heldur margtuggin tugga. En hvers vegna finn ég mig þá svona knúna til að skrifa um þetta mál á þessari stundu?

Heimskt er heimaalið barn

Það er alveg merkilegt hversu grunlaus er hægt að vera gagnvart því sem maður þekkir ekki. Ef ég sé einstakling í annarlegu ástandi niðri í bæ, dettur mér ekki í hug að viðkomandi sé undir áhrifum einhverra vímuefna, annarra en áfengis. Fyrir stuttu þótti mér ekkert eðlilegra en að strákar færu saman á klósettið inni á skemmtistöðum til að pissa í kross og að Nonni væri alltaf svona hress á djamminu, þrátt fyrir að vera aldrei að drekka. Þessi einfeldni mín var hins vegar tekin og rifin í tætlur þegar mér var í hreinskilni tjáð að strákar pissuðu ekki í kross inni á klósettum bæjarins, þeir væru að fá sér í nösina. Og að Nonni drykki ekki vegna þess að hann fengi sér frekar línu eða pillu og þá væri hann góður allt kvöldið.

Þessi uppgötvun var ákveðinn skellur fyrir unga, bláeyga stúlku sem hafði ekki áður fundið svona sterkt fyrir fíkniefnanotkun á Íslandi.

Hversdagsleg tilvera

Vímuefni eru orðin svo aðgengileg að sumir segja það fljótlegra að redda sér skammti á netinu en að kaupa sér pott af mjólk úti í búð. Magnið er heldur ekki af skornum skammti en gras, eða kannabis, er t.a.m. útflutningsvara á Íslandi. Rafrettur finnast á hverju horni og í þær er hægt að fá kannabisvökva, sem vill svo til að er nánast lyktarlaus eða a.m.k. ekki með dæmigerðri graslykt. Því er orðið auðveldara að útvega sér og fela kannabisnotkun en nokkru sinni fyrr.

Aðgengi og magn er þó ekki eina vandamálið. Of lítið er gert úr þeirri normalíseringu sem hefur orðið á notkun ýmissa vímuefna, eins og t.d. grasi. Sú þvæla að það sé skaðlaust er að ná yfirhöndinni og forvarnafræðsla hefur ekki sama gildi og áður vegna þess að ungmenni telja sig vera vel upplýst af umræðunni frá jafningjum sínum, á netinu og á samfélagsmiðlum. Á netinu er auðvelt að grafa upp alls konar rök fyrir skaðleysi fíkniefna og unglingar í dag telja gamla fólkið hafa helst úr lestinni. Telja það vera illa að sér um gras vegna þess að mantran á netinu um að það sé skaðlaust er byrjuð að síast smám saman inn. En það er helvíti auðvelt að hagræða sannleikanum á netinu. Það veit t.a.m. núverandi forseti Bandaríkjanna. Og það hefur komið honum helvíti langt.

Hverjir hagnast á aukinni neyslu?

Norm er öflugt vopn. Sér í lagi fyrir þá sem hagnast mest á aukinni neyslu fíkniefna. Afar sjaldgæft er að ungt fólk leiðist út í afbrot og neyslu ein síns liðs og af eigin frumkvæði. Viðhorfin sem þrífast í kringum börn og unglinga hafa mikil áhrif á ákvarðanir þeirra til að taka þátt í áhættuhegðun. Með tilkomu samfélagsmiðla er nú talsvert auðveldara að finna fólk með svipaðar kenndir og hugmyndir um notkun vímuefna en áður. Undirheimarnir stækka og færast upp á yfirborðið, verða hversdagslegir, verða norm.

Margtuggin tugga er ekki margtuggin að ástæðulausu. Það þarf stöðugt að vinna í því að uppfæra rannsóknir og þekkingu á hættulegum efnum svo þær upplýsingar úreldist ekki. Stöðugt þarf að sporna við aukinni neyslu vímuefna og reyna að koma í veg fyrir að þau þyki eðlileg og hversdagsleg. Ein forvarnarheimsókn í skóla eða kafli í bók um skaðsemi fíkniefna gerir ekki mikið gagn á móti stöðugri umræðu um hið gagnstæða.

Fíkniefni eru ekki eins skaðlaus og þeir sem hagnast á því að réttlæta notkun þeirra vilja telja okkur trú um. Þau geta haft ófyrirsjáanlegar neikvæðar afleiðingar á velferð einstaklinga og samfélagsins. Óhófleg neysla getur grafið undan einstaklingi og gert hann óvinnufæran til langs tíma. Við þurfum að sporna við aukinni vímuefnanotkun, annars mun vinnandi fólki á hvern óvinnufæran einstakling fækka enn frekar. Ef íslenskt samfélag á að geta staðið undir sér eftir nokkra áratugi er nauðsynlegt að samfélagið í heild sinni finni til ábyrgðar og taki miklu fastar á þessum vanda. Barátta gegn þessari ógnvænlegu normalíseringu fíkniefna væri góð byrjun. Síðan mætti fjölga meðferðarúrræðum og bæta stuðning við þá sem þurfa, en það er efni í aðra grein.

 

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.