Hugvekja til Íslendinga

eftir Oddur Þórðarson

Það er Íslendingum nokkuð tamt að blása sönnum þjóðaranda hverjir öðrum í brjóst þegar landi og þjóð vegnar vel og þegar við vinnum að sameiginlegum hagsmunum hér heima eða á erlendri grundu. Hvort sem er á sviði íþrótta eða menningar er eins og öll þjóðin standi saman þegar vel gengur, sem hlýtur að teljast gott. Ríkt þjóðarstolt getur fleytt okkur langt sé það í hófi haft. Okkur Íslendingum finnst líka gaman að minnast afreka fyrri tíma og tala í kjölfarið um íslenska baráttuandann og víkingaarfleiðina. Afrekum fyrri tíma Íslendinga eru oft gerð skil með hálfglataðri en á sama tíma hálfkrúttlegri þáttaseríu í Ríkisútvarpinu þar sem fjallað er um viðkomandi þrekvirki og saga þeirra rakin. Sú hefur verið raunin með atburð nokkurn sem mörgum er samt alveg sama um, að því er virðist.

Fagnaðarefni

Í desemeber verða liðin 100 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Þann 1. desember 1918 hópaðist fólk saman fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu til þess að fagna því að nú réðu Íslendingar öllum (tja, flestöllum) sínum málum sjálfir. Þó skyggði skuggi spænsku veikinnar mjög á öll hátíðahöld sem voru fyrir vikið fámenn. Blásið var í lúðra, skotið var úr fallbyssum og húrra hrópað fyrir konungi, í hálfum hljóðum þó. Í tæpa öld höfðu dugmiklir Íslendingar skorið upp herör gegn dönskum yfirráðum og nú var frelsið í höfn. Þá var ástæða til þess að fagna.

Sé rakin öll saga þess sem leiddi til þess að Ísland varð fullvalda árið 1918, er það öllum Íslendingum auðséð að það sé mun stærri sigur en öll fótboltamót, handboltasilfur, Ungfrú heimur titlar, bankaútrásir og stangastökksbrons til samans. Það virðist innprenntað í Íslendinga að vera stolt af afrekum þeirra sem við ölum af okkur en við virðumst á sama tíma gleyma þeirri atburðarás sem varð til þess að við gátum talið okkur til stoltra, sjálfstæðra Íslendinga.

Hégómakennd Íslendinga

Ef til vill finnst fólki bara ómerkilegt hvað gerðist hér 1. desember 1918 og á áratugum þar á undan. Kannski er fólki alveg sama og þá verður það bara að vera þannig. Ætlun mín var bara að benda á það hversu mikil fjarstæða það er að fagna ekki 100 ára afmæli þessa stærsta augnabliks Íslandssögunnar þegar við virðumst geta fangað svo mörgu öðru hégómlegra.

Bruðlhátíðin

Í sumar var haldin svokölluð fullveldishátíð á Þingvöllum. Þingfundur með venjulegum þingræðum og þingsköpum, til þess að fagna því að 100 ár voru frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandslögin,  þar sem samþykkt var að Ísland yrði fullvalda ríki. Af þessu tilefni kom Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, og hélt ræðu við heldur dræmar undirtektir margra. Það bætti svo gráu ofan á svart að hátíðarhöldin sem einungis örfáar hræður sóttu enda haldin á vinnutíma á miðvikudegi, kostuðu um 80 milljónir. Verði ekki úr bætt má ætla að þannig munu Íslendingar minnast 100 ára afmæli fullveldisins. Bruðlhátíð sem snerist eiginlega öll um einhvern danskan rasista.

Skundum á Þingvöll!

Það er svo sorglegt hvað sérstaklega ungu fólki getur verið sama um þá þrautagöngu forfeðra þeirra sem varð til þess að landið sem við byggjum öll varð fullvalda ríki. Þó ég vilji ekki hljóma eins og einhver leiðinleg karlugla þá finnst mér ég tilneyddur til þess að minnast á hvað við höfum það mikið betur í dag í samanburði við hvernig vaskir forforeldrar okkar höfðu það á meðan Ísland barðist fyrir sjálfstæði sínu. Það er beinlínis argasta virðingarleysi að hirða ekkert um þau afrek sem frelsishetjur lands okkar unnu svo við gætum haft það gott. Án þess að vita nokkuð um hvernig hátíðarhöldum verður háttað þann 1. desember næstkomandi, ef þau verða þá yfir höfuð haldin, þá er ég viss um að ég taki þátt og ég hvet alla til þess að gera það sama.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.