Hugsjónir í stað tækifærismennsku

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Í umræðum um áfengisfrumvarpið svonefnda réttlæta andstæðingar frumvarpsins iðulega ríkiseinkasölu á áfengi á þeim forsendum að meirihlutavilji þjóðarinnar sé fyrir henni. Þeir fussa og sveia og hneykslast á stuðningsmönnum frumvarpsins fyrir að virða þennan vilja að vettugi og gengur einn þeirra, fyrrum þingmaðurinn Ögmundur Jónasson, svo langt að saka þá um að stjórnast fremur af æskudraumum Heimdallar og hagsmunum Haga en sjálfu lýðræðinu.

Í pistli á vef Stundarinnar fer Ögmundur mikinn og álasar meðal annars undirrituðum fyrir að hunsa þennan skýra meirihlutavilja. „Vesælt“ sé þegar svona sé talað til almennings í landinu.

Það er hárrétt ályktað hjá Ögmundi að sennilega er meirihluti þjóðarinnar andsnúinn frumvarpinu margumrædda en það skiptir bara engu máli. Frjáls lýðræðisríki tryggja borgurum sínum ákveðin grundvallarréttindi sem ekki er hægt að troða á í krafti „meirihlutavilja“ hverju sinni. Atvinnu- og athafnafrelsi teljast til að mynda til grundvallarmannréttinda þess frjálsa og lýðræðislega samfélags sem stjórnarskrá okkar og eins þeir mannréttindasáttmálar sem við höfum undirgengist byggjast á. Í því felst að hver og einn á að njóta frelsis til athafna – án afskipta misviturra stjórnmálamanna – svo lengi sem hann gengur ekki á þetta sama frelsi annarra manna. Þessi frelsisréttindi eru algild og um þau ætti aldrei að kjósa, sama hver „meirihlutaviljinn“ er á hverjum tíma.

Áfengisfrumvarpið snýst í grundvallaratriðum um þessi réttindi. Bæði frelsið til þess að selja áfengi og eins frelsið til þess að versla það. Áfengissalan sem slík er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið – sjálft prinsippið – er hvort ríkisvaldið treystir tveimur fullveðja mönnum til þess að ákveða sjálfir hvað þeim er fyrir bestu. Hvort það treystir þeim til þess að eiga viðskipti sín á milli með löglega neysluvöru án milligöngu ríkisstarfsmanna.

Í mótsögn við sjálfan sig

Ögmundur og skoðanabræður hans virðast í það minnsta ekki treysta fólki fyrir þessu frelsi. Þeir vilja þess í stað að stjórnmálamennirnir hafi vit fyrir því. Fyrir því færa þeir ýmis rök sem Ögmundur tínir til í greininni.

Hann virðist þó ekki átta sig á því að röksemdirnar stangast í veigamiklum atriðum á. Annars vegar vísar hann til andstöðu heilbrigðisyfirvalda, lækna, hjúkrunarfólks og fleiri fagstétta sem óttast fyrst og fremst að frjáls sala áfengis muni auka aðgengi að vörunni og þar með neyslu en hins vegar fullyrðir hann á sama tíma að úrval muni minnka, þjónusta versna og verð hækka verði frumvarpið að lögum. Það ætti – undir öllum eðlilegum kringumstæðum – að leiða til minnkandi neyslu, ekki aukinnar.

Með öðrum orðum vill Ögmundur í aðra röndina takmarka aðgengi að áfengi en í hina grípur hann til þeirrar röksemdar gegn frumvarpinu að verð muni hækka, sem er einmitt skýr takmörkun á aðgengi.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

„Einkavín“ eða „ríkisvín“?

Þeir andstæðingar frumvarpsins sem bera fyrir sig lýðheilsusjónarmið, þar á meðal landlæknir, telja mikilvægast af öllu að draga úr aðgengi að áfengi. Annað muni leiða til verri lýðheilsu landsmanna. Það er öllum ljóst að áfengi er ekki skaðlaus vara. Ofneysla þess getur haft margvíslegar slæmar afleiðingar í för með sér eins og við þekkjum vel. Það er hins vegar enginn munur á því hvort menn neyta áfengis sem keypt er af einkaaðilum eða ríkinu. Raunar selja einkaaðilar nú þegar áfengi í hundruðum vínveitingastaða um allt land. Það áfengi getur ekki talist skaðlegra en „ríkisáfengið“.

Auk þess á misnotkun nokkurra ekki að bitna á öllum öðrum, sem neyta áfengis í hófi.

En síðan getur hitt verið, að landlæknir hafi rétt fyrir sér um að aukið aðgengi að áfengi muni auka neyslu sem leiða muni til verri lýðheilsu þjóðarinnar. Réttlætir það samt að stjórnmálamenn hafi vit fyrir fullorðnu fólki? Auðvitað ekki. Álit landlæknis er læknisfræðilegt – álitaefnið sem við stöndum frammi fyrir er pólitískt og varðar grundvallarfrelsisréttindi fólks. Það eru ekki boðleg rök fyrir að takmarka frelsi að einhverjir kunni að misnota það og skaða heilsu sína. Fræðsla og forvarnir eru auk þess mun betri og áhrifaríkari leið til þess að vinna gegn skaðlegri ofneyslu á áfengi heldur en boð, bönn og ríkisrekstur.

Landlæknir lagðist á sínum tíma gegn því að bjórinn yrði leyfður. Undir það tóku fjölmargir læknar. Ekki er ósennilegt að meirihluti landsmanna hafi verið sömu skoðunar. Áhyggjur þeirra reyndust hins vegar ekki á rökum reistar. Þrátt fyrir stóraukið aðgengi batnaði áfengismenningin til muna. Það sama má segja um öll helstu frelsismál undanfarinna áratuga, svo sem lokun mjólkurbúðanna, frjálsan vöruinnflutning, litasjónvarp, frjálst útvarp, afnám ríkiseinokunar á símaþjónustu og svo framvegis. Ávallt mættu þau mikilli andstöðu.

Auðvitað ber að hlusta á slíkar gagnrýnisraddir. En stjórnmálamönnum ber engin skylda til þess að taka sérstakt tillit til þeirra. Þeirra hlutverk er að taka pólitíska afstöðu – afstöðu sem byggist á eigin sannfæringu – en ekki snúast eins og vindhani eftir því hver meirihlutaviljinn er hverju sinni.

Matvöruverslun ríkisins?

Ögmundur hefur auk þess áhyggjur af því að frjáls áfengissala muni leiða til verra úrvals fyrir neytendur, lakari þjónustu og hærra verðs. Af málflutningi hans má þannig ráða að einungis ríkiseinokun tryggi gott úrval og hagstætt vöruverð. Væri þá ekki nær að ríkið láti til sín taka á fleiri sviðum og taki til að mynda yfir sölu á öðrum vinsælum neysluvörum, svo sem fatnaði, skóm og matvörum? Hvernig væri að opna matvöruverslun ríkisins?

Það sér hver maður að þessi rök standast enga skoðun.

Áfengisfrumvarpið er ekki mikilvægasta málið sem liggur fyrir Alþingi þessa stundina. Alls ekki. Það er aðeins eitt af fjölmörgum þingmannamálum sem lögð hafa verið fram á undanförnum vikum. En það er engu að síður ákveðið prinsippmál því það varðar í grunninn frelsi einstaklingsins til þess að ráða málum sínum sjálfur án óþarfa afskipta stjórnmálamanna. Ég er fullviss um að eftir nokkur ár, þegar við rifjum málið upp, verði litið á það sem stórmerka og minnisstæða breytingu á áfengislöggjöf Íslendinga.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.