Hugrekki óskast

eftir Ritstjórn

Nú keppast spekingarnir um að finna nafn á nýju ríkisstjórnina. Freyðivínsstjórnin, þjóðstjórnin, þjóðrembingsstjórnin, jólasveinastjórnin, fullveldisstjórnin og nýsköpunarstjórnin 2,0 eru dæmi um nöfn sem hefur borið á góma. Fengi ríkisstjórnin sjálf úr því skorið hvað ætti að kalla hana má öllum vera ljóst að hún myndi vilja vera nýsköpunarstjórnin síðari.

Þó Framsóknarflokkurinn hafi hvorki fengið forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið né utanríkisráðuneytið er hann tvímælalaust sigurvegari þessarar stjórnarmyndunar. Eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir komst svo ágætlega að orði þá eru jú þrír Framsóknarflokkar við stjórnvölinn.

Sigurðu Ingi, formaður Framsóknarflokksins, gæti allt eins opnað stjórnmálaskóla og kennt þingmönnum og öðrum stjórnmálamönnum Pólitík 101. Hann mun sjálfur fá að sitja í samgönguráðuneytinu, klippa á borða og setja af stað ný og vinsæl verkefni næstu fjögur árin. Hann þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af því hvað aðrir ráðherrar taka sér fyrir hendur því andstæðurnar á litrófinu munu veita hvor annarri aðild og hin þjóðlega miðja fær því að blómstra. Allavega ef marka má stjórnarsáttmálann sem ætla mætti að hefði verið skrifað af Jóni Gnarr, því þar er svo sannarlega alls konar fyrir aumingja.

Skortir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hugrekkið?

Það virðist hafa verið einhugur í þingflokki Sjálfstæðismanna um að taka þátt í stjórninni. Það heyrðist ekki ein gagnrýnisrödd þaðan og raunar afar lítil gagnrýni frá hægrimönnum um að formaðurinn ætlaði að leiða róttæka vinstri flokkinn til valda. Það var jú svo mikilvægt að fá breiða stjórn.

Samanburðurinn við nýsköpunarstjórnina 1944 er í þessu samhengi afar athyglisverð. Sér í lagi orð Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors við stjórnmálafræðideild, sem hann lét falla í samtali við mbl.is að fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki stutt nýsköpunarstjórnina. „Þeir voru óánægðir með að sjálf­stæðis­menn væru í stjórn með komm­ún­ist­um,“ seg­ir Ólaf­ur.

Vinstri grænir gangast nú sennilega ekki við því að vera kommúnistar en þeir eru eins nálægt og hægt er að komast því á þingi. Það virðist því ansi mikið hafa breyst í huga þingmanna Sjálfstæðisflokksins á milli nýsköpunarstjórna.

Maður hlýtur að spyrja, hvar eru hugsjónirnar og hvar er hugrekkið til að gagnrýna. Er kannski einfaldlega of þægilegt að vera í meirihluta. Eða þora þeir ekki að gagnrýna formanninn og trúa því að hann þurfi að vera áfram í ríkisstjórn til þess einfaldlega að geta setið tiltölulega rólegur í formannsstólnum í Valhöll?

Það er allavega öllum ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þingkosningunum og hefði átt undir eðlilegum kringumstæðum að fara í harða stjórnarandstöðu og uppbyggingu, innan flokks sem utan.

Hægristefnan verður ekki leiðarljós þessarar ríkisstjórnar heldur í besta falli miðjumoð. Önnur stjórnarmynstur hefðu sennilega ekki setið út kjörtímabilið. Er þá eingöngu verið að sækja eftir völdum, valdanna vegna, nú eða til þess að verja formanninn?

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.