Hugleiðingar um persónuvernd barna á samfélagsmiðlum

eftir Snorri Sigurðsson

Friðhelgi einkalífs og persónuvernd hafa almennt hlotið umfjöllun sem ein mikilvægustu mannréttindi einstaklingsins. Í nútímasamfélagi, á tímum samfélagsmiðla og auglýsinga sem byggja á persónusniði (e. profiling), hafa persónuupplýsingar þrátt fyrir það orðið að einum verðmætasta gjaldmiðli samfélagsins. Nýleg persónuverndarlöggjöf gerir með réttu ráð fyrir því að persónuupplýsingar barna njóti sérstakrar verndar. Þessi sérstaka vernd byggist á þeim rökum að börn og ungmenni kunna síður að vera meðvituð um réttindi sín, áhættu og afleiðingar í tengslum við meðferð þeirra, bæði innan heimilis og utan.

Persónuupplýsingar sem gjaldmiðill

Fólk verður sífellt meðvitaðara um þá gífurlegu vinnslu persónuupplýsinga sem við samþykkjum að fari fram með þátttöku á samfélagsmiðlum. Þessi vinnsla er í raun  greiðsla og forsenda fyrir því að samfélagsmiðlar innheimta flestir ekki annars konar gjald fyrir notkun. Segja má að á þessu sviði hafi orðið vitundarvakning en tækninni fleygir það hratt fram að líklega hefur aldrei verið mikilvægara fyrir einstaklinginn að standa vörð um þessi mikilvægu mannréttindi sín og sinna nánustu.

Samþykki barna fyrir þátttöku í upplýsingasamfélaginu

Nú er svo komið að stafræn fótspor barna myndast jafnvel áður en þau fæðast og netnotkun hefst sífellt fyrr á æviskeiðinu. Fótsporin myndast með myndbirtingum foreldra og forráðamanna, merkingum (e. tag) hinna og þessara fyrirtækja við fatnað barnanna o.s.frv. Persónusnið barnsins verður þannig oft til án þeirrar vitundar og án samþykkis. Samþykki er, og verður áfram, ein af lykilheimildum persónuverndarlaga til vinnslu persónuupplýsinga. Hér á landi taka forráðamenn barns ákvarðanir um samþykki þess undir 13 ára aldri um þátttöku í upplýsingasamfélaginu. Það vakna hins vegar spurningar um hversu langt forráðamönnum er heimilt að ganga. Eftir því sem barnið eldist er gert ráð fyrir að samráð sé haft við það í auknum mæli um ráðstöfun hagsmuna þess, þar á meðal vinnslu persónuupplýsinga þess. Þannig þurfa forráðamenn einnig að hafa í huga þau langtímaáhrif sem birting á samfélagsmiðlum kann að hafa.

Myndbirting foreldris af barni á Facebook dæmd ólögleg

Á þetta reyndi nýverið fyrir Lagmannsrétti í Hálogalandi í Noregi. Kona ein var þar sakfelld og gerð sekt að fjárhæð 12.000 NOK (rúmlega 170.000 kr.) fyrir brot gegn hegningarlögum, með því að hafa birt persónuupplýsingar sjö ára gamals barns hennar á Facebook. Málavextir voru þeir að konan stóð í deilum við þarlend barnaverndaryfirvöld vegna forsjársviptingar. Greip hún til þess ráðs að safna liði á Facebook gegn barnaverndaryfirvöldum. Hún stofnaði opinn Facebook hóp, sem var ætlað að koma barninu „heim“. Í umræddum hópi birti konan alls kyns myndir og myndskeið af barninu í viðkvæmum aðstæðum. Þá birti hún einnig bréf frá barnaverndaryfirvöldum sem innihéldu einkar viðkvæmar upplýsingar um einkahagi barnsins. Í málinu reyndi á hvort konunni hefði verið heimilt að birta þessar upplýsingar, í ljósi þess að henni hefði verið falið ákvörðunarvald um samþykki í lögum. Í dómnum var því slegið föstu að birting svo viðkvæmra upplýsinga félli utan ákvörðunarréttar foreldris, þar sem börn nytu ella ekki verndar gegn ólögmætri birtingu upplýsinga um einkahagi þeirra af hálfu foreldra.

Ljóst er að um ýkt dæmi er að ræða og er höfundur ekki að ýja að því að myndbirting foreldra af börnum sínum á samfélagsmiðlum skuli almennt flokkuð sem hegningarlagabrot. Fremur er þessum pistli ætlað að vekja foreldra og aðra til umhugsunar um langtímaafleiðingar myndbirtinga á samfélagsmiðlum og hvort eðlilegt sé að foreldrar selji persónuupplýsingar barna sinna í skiptum fyrir like.

Snorri Sigurðsson

Pistlahöfundur

Snorri er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var gjaldkeri Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í stjórn Vöku, sat í Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands auk þess að vera varamaður Vöku í Stúdentaráði. Skrif Snorra í Rómi snúa aðallega að lögfræði og öðru henni tengdu.