Hugleiðingar um kosningar

eftir Þórhallur Valur Benónýsson

Í aðdraganda alþingiskosninganna sem fara fram á morgun hefur vægast sagt margt gengið á, frambjóðendur keppst við að rægja hvern annan og lítil áhersla verið lögð á málefnin nema kannski rétt svo í restina. Í öllum hamaganginum hafa nokkur atriði vakið sérstaklega vakið athygli mína.

Kosningarnar hófust 20. september, þ.e. áður en Miðflokkurinn var stofnaður og nokkrir flokkar náðu ekki að safna eða fölsuðu undirskriftir. Enginn flokkur hafði á þeim tíma skilað inn framboðslistum eða kynnt málefni fyrir þessar kosningar, önnur en þau sem er að finna í stefnum flokkanna. Auðvitað var kannski ekki mikilla að breytinga að vænta í málefnunum þar sem stutt er frá síðustu kosningum, en það verður að hafa í huga að varasamt að kjósa í blindni. Í raun er þessi framkvæmd mjög stór galli á lýðræðinu.

Gjörðir þingmanna trompa flokkstefnurnar

Reynslan hefur sýnt okkur að stefna stjórnmálaflokka verður aldrei önnur en sú sem kjörnir einstaklingar framkvæma í verki. Þetta kom skýrt fram í aðdraganda kosninganna þegar grein Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, fór sem hæst og varaformaður flokksins auk annarra flokksmanna sögðu greinina í ósamræmi  við stefnu flokksins. Ásmundur sem kjörinn þingmaður getur aðhafst inni á þingi, hann hefur þar atkvæðisrétt, getur lagt fram og haft áhrif á frumvörp en það getur stefna Sjálfstæðisflokksins, í sjálfri sér, ekki. Hversu langt Ásmundur færi með hugmyndir sínar er svo annað mál. Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi eru að kjósa Ásmund, ekki stefnu Sjálfstæðisflokksins. Nema auðvitað að allir myndu strika hann út, en það er ólíklegt.

Þetta sáum við líka í síðustu kosningum þegar kjósendur Viðreisnar og Bjartar Framtíðar voru sviknir til þess að mynda ríkisstjórn. Þá var mörgum góðum stefnumálum flokkanna vikið til hliðar að hluta, til þess eins að flokkarnir gætu verið við stjórnvölinn. Kjósandi sem kaus áður en flokkarnir birtu listana sína, í góðri trú um að hér yrði skoðað að ganga í Evrópusambandið, var illa svikinn þegar aðilarnir sem sátu á listanum ákváðu að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Það er ljóst að fyrir kosningarnar á morgun var mörgum atkvæðum skilað áður en kjósendur vissu hvern þeir voru að kjósa. Líkt og áður segir er um að ræða gríðarlegan galla á lýðræðinu og óábyrga framkvæmd gagnvart kjósendum. Einhver af þessum atkvæðum voru án alls vafa tengd flokkshollustu aðila, sem færir mig að næsta punkti.

Ég hef alltaf kosið…

Flokkshollusta er annar galli á lýðræðinu. Ég hef heyrt nokkra segja: „Ég hef alltaf kosið X svo ég fer ekkert að breyta því úr þessu.” Samfélagið breytist mjög ört, eiginlega svo ört að það er erfitt að vera alltaf með á nótunum. Stjórnmálaflokkar breytast þó ekki svona hratt. Fyrir mitt leyti þá var ég í fyrsta sinn núna að kjósa sama flokkinn tvisvar í röð, vegna þess að ég hef trú á því að fólkið sem er þar í forgrunni muni standa sig og ná árangri í sínum málum. Við þurfum að kjósa þann flokk sem boðar aðgerðir sem henta hverjum og einum best, hvaða aðgerðir það eru verður hver og einn þannig að meta í hvert sinn.

Mér finnst æskilegt verklag hvers og eins fyrir hverjar kosningar að gera heildarskoðun á flokkum, fólki og málefnum og kjósa svo það sem hentar viðkomandi og heildinni vel. Fólk sem trúir í blindni á ágæti eins flokks og kýs hann óháð gjörðum eða staðreyndum standa sig ekki í stykkinu sem þátttakendur í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Er hægt að treysta fullkomlega á fjölmiðlana?

Þriðji og síðasti punkturinn er vandmeðfarinn og tengist fjölmiðlum. Mitt mat er að ekki sé hægt að treysta fjölmiðlum fullkomlega, sérstaklega ekki í aðdraganda kosninga. Ljóst er að enginn fjölmiðill á landinu er óhlutdrægur. Sem dæmi þá er frambjóðandi Samfylkingarinnar hluthafi í Kjarnanum. Morgunblaðið er og hefur alla tíð átt það til að hallast til hægri og kemur það mjög skýrt fram í Víkverja blaðsins s.l. miðvikudag sem varð víða vart á samfélagsmiðlum í vikunni. Að mínu mati er blaðið sérstaklega varasamt þegar það kemur frítt heim til fólks. Stundin tekur oftar en ekki vinstrisinnaða afstöðu með sömu rökum. Fréttablaðið og Vísir virðast birta hvern einasta pistil sem berst þeim án þess að pæla í því hvaða boðskap hann ber, sem er öðruvísi vandamál þar sem fjölmiðlar verða að bera ábyrgð á gæðum þess efnis sem þeir birta. RÚV gerist of oft sekt um æsifréttamennsku sem kom hvað best fram í Sjanghæ-málinu fyrir nokkrum misserum.

Sumir miðlanna eiga til að byggja fréttir sínar og umfjallanir á sannleikskornum, ófullnægjandi staðreyndum eða samanburði sem er stillt upp til að ná fram ákveðinni mynd. Hver og einn kjósandi verður því að vinna smá rannsóknarvinnu og finna hvar eða hvernig myndin er skökk því hún er það nánast alltaf að einhverju leyti. Að minnsta kosti eigum við að setja fyrirvara við það sem við lesum og horfa á allt með gagnrýnum hætti.

Ég vona að kjósendur hafi kynnt sér þá frambjóðendur sem þeir ætla að kjósa og séu búnir að kynna sér flokkana í eins hlutlausu ljósi og hægt er. Svo er ég ekki að segja að fjölmiðlar á Íslandi séu slæmir, í raun eru þeir mjög góðir, en það þýðir ekki að allir sem búa til gröf, skrifa fréttir eða pistla hafi rétt fyrir sér eða séu almennt marktækir. Ekki einu sinni ég.

Þórhallur Valur Benónýsson

Pistlahöfundur

Þórhallur Valur er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi ýmissa félaga t.d. Orator og NFVÍ auk þess að hafa verið varaformaður og oddviti Vöku fls. Þórhallur starfar hjá Verði tryggingum. Helstu áhugamál hans eru knattspyrna, tónlist og öll þau málefni líðandi stundar sem honum finnst sig varða. Skrif hans á Rómi munu snúast að hverju því sem honum finnst sig varða þá stundina.