Hugleiðingar um barnagirnd

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Í upphafi er rétt að slá nokkra varnagla. Með orðunum sem á eftir fylgja er ekki með nokkru móti stefnt að því að verja barnaníðinga eða gefa í skyn að slík hegðun sé æskileg eða líðandi. Í raun er ekki stefnt að því að svara neinum spurningum. Markmiðið er að fá fólk til að taka örstutta stund í að íhuga málið áður en það heldur dagsins amstri áfram.

 

Talsvert hefur borið á umræðu um barnaníðinga og barnaníð að undanförnu eftir að sagt var frá því að tveir slíkir hefðu fengið uppreist æru. Sem fæstum orðum verður hér eytt í að rekja það mál. Á það bæði við um brotið og stjórnsýsluathöfnina. Fleiri orðum verður eytt í umræðuna sem á eftir fylgir.

 

Kommentakerfi og bloggsíður landsmanna loguðu eftir að sagt var frá málunum. Um mennina tvo, og aðra sem ástunda sambærilega hluti, voru notuð orð á borð við landfyllingarefni, þeir sagðir réttdræpir og enn aðrir lögðu til að skóggangur yrði tekinn upp að nýju sem refsing hér á landi. Að mörgu leyti skiljanleg viðbrögð. Hins vegar fannst mér tilefni til að velta þeirri spurningu upp hvort viðbrögðin auki á vandann eða dragi úr honum.

 

Barnaníðinga köllum við einstaklinga sem brjóta á kynferðislegan hátt gegn börnum. Flestir eru þeir haldnir barnagirnd, það er það veitir þeim fró að hugsa um, eða stunda kynferðislegar athafnir, með börnum sem ekki hafa náð kynþroska. Það er hins vegar ekki svo að barnaníðingar séu hinir einu sem æsast við það að hugsa um börn. Sennilega er til fólk sem finnur girndinni annan farveg. Einhverjir leita á náðir barnakláms, eflaust eru einhverjir sem láta ímyndunaraflið nægja og enn aðrir byrgja þetta inni.

 

Rannsóknir um efnið eru fáar. Svo sem eðlilega. Ég ímynda mér í það minnsta að fæstir fáist sjálfviljugir til að vera tilraunadýr. Þær eru þó til. Í þýskri rannsókn frá 2015 var niðurstaðan sú að um fjögur prósent þátttakenda, sem allir voru karlmenn, ættu sér kynferðislegar fantasíur sem innihéldu barn undir kynþroskaaldri. Hins vegar játti aðeins 0,1 prósent því að vera haldið barnagirnd. Það er því líklegt að þeir sem nást séu aðeins brot vandans. Önnur rannsókn, frá þessu ári, bendir til þess að heilagráefni (e. cerebral gray matter) þeirra sem eru haldnir barnagirnd sé frábrugðinn heilagráefni þeirra sem ekki eru lausir við hana.

 

Niðurstöður flestra rannsókna benda einnig til þess að einstaklingar með barnagirnd séu með lágt sjálfstraust, oft þunglyndir, haldnir kvíða eða með einhverjar aðrar persónuleikaraskanir. Sá galli er hins vegar á flestum rannsóknum að viðfangsefni þeirra eru oftar en ekki þeir sem hafa verið gripnir glóðvolgir og hlotið dóm. Skekkir það niðurstöðurnar? Hvort kom á undan, pedófílían eða þunglyndið? Ég veit það ekki og ætla ekki að þykjast vita það.

 

Þetta er aðeins ein af fjölmörgum spurningum sem ég spyr mig að. Hvernig byrjar þetta? Er þetta kynhneigð sem erfitt er að losa fólk við eða er þetta sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla? Hvað fær fólk til að taka skrefið og brjóta af sér? Er þetta genetískt? Eru einhverjir samfélagshópar líklegri til að vera haldnir þessu? Er eitthvað sem samfélagið sem heild getur gert til að draga úr líkunum á því að þetta eigi sér stað? Er rétta leiðin að frussa úr sér fúkyrðum á internetinu í garð þeirra sem slíkt gera? Líkt og áður hef ég engin svör en mig langar að vita þau.

 

Hafir þú lesið hingað og sért þú haldinn barnagirnd þá ætla ég að mælast til þess að þú leitir á náðir heilbrigðiskerfisins. Í þessu samhengi er mikilvægt að muna að það er ekki ólöglegt að hugsa hluti, ef sú væri raunin væri helmingur þjóðarinnar líklega dæmdir þjófar eða morðingjar. Ég hef grun um að fagfólk sjúkrahúsanna hafi fleiri svör en ég á reiðum höndum og sé tilbúið til að taka á móti þér. Heilsugæslustöð eða sálfræðingur gæti verið gott fyrsta skref. Þau vísa þér rétta leið. Ef þú ert algjörlega aðframkomin/n þá er bráðamóttaka geðdeildar skipuð algjöru fagfólki.

 

Það að skilja einhvern hlut betur er sjaldnast af hinu slæma. Þá sem hafa lesið hafa ætla ég að biðja um að íhuga hvort að orðin landfylling eða ostaskeri, í þessu samhengi, auki eða dragi úr líkunum á því að pedófílar leiti sér aðstoðar. Að því loknu geri þeir það sem þeir vilja.

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.