Hriktir í stoðum verkalýðshreyfingarinnar

eftir Ritstjórn

Í vikulok birtist í kvöldfréttum Stöðvar tvö frétt af Bjargi, byggingarfélagi verkalýðshreyfingarinnar og Gylfa Arnbjörnsyni, forseta ASÍ. Tilefnið var fyrsta skóflustunga að „nýjum verkamannabústöðum” var við Móaveg 2 í Grafarvogi, en þar voru saman komnir leiðtogar verkalýðsfélaga BSRB auk Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Stefnt er að byggingu um 1.500 íbúða, en þær munu standa efnalitlu fólki til boða sem langtímaleiguhúsnæði. Forsetinn lýsti því yfir hátíðlega að baráttan hefði verið löng og ströng og að með framtakinu yrðu verkamannabústaðirnir endurreistir.

Það er ekki að undra að Gylfi og ráðandi öfl verkalýðshreyfingarinnar beri nú á borð unnin verk undanfarin ár og vini í stjórnmálum verkalýðshreyfingarinnar enda er að honum sótt um þessar mundir. Sólveig Anna Jónsdóttir tilkynnti um framboð sitt og B-listans svonefnda til formennsku í Eflingu, stærsta undirfélagi ASÍ, fyrir nokkru og hefur hún stillt sér upp við hlið Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR í gagnrýni á sitjandi stjórn verkalýðshreyfingarinnar. Að baki framboði hennar er einnig Gunnar Smári Egilsson, formaður hins nýstofnaða Sósíalistaflokks. Vert er að nefna að félagafjöldi Eflingar og VR auk nokkurra smærri félaga (t.d. Verkalýðsfélags Akraness með Vilhjálm Birgisson í fararbroddi), getur hæglega náð meirihluta í ASÍ.

Sigurður Bessason lætur af störfum sem formaður Eflingar eftir 18 ára setu. Því verður kosið um nýjan formann nú í byrjun mars en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst í síðustu viku. Á fyrstu stigum framboðsgöngu Sólveigar Önnu var ljóst að hún yrði allt annað en auðveldur andstæðingur fyrir ráðandi öfl verkalýðshreyfingarinnar. Líkt og Ragnar Þór, sem sigraði í formannskjöri VR á síðasta ári, er Sólveig Anna af rótækum rótum runnin, aktívisti í húð og hár og hefur m.a. vermt sæti á framboðslista Alþýðufylkingarinnar. Að líkindum er hún með vinstri sinnaðri frambjóðendum í verkalýðshreyfingu á 21. öldinni og gæti breytt um takt í málflutningi hennar svo um munar.

Framboð Sólveigar Önnu og félaga kemur ekki sérstaklega á óvart í víðara pólitísku samhengi, en svo virðist sem að henni hafi tekist að stíga öldu óánægju meðal láglaunaðra félaga ASÍ, en stór hluti félagsmanna í Eflingu fellur í þann flokk. Fleiri stjórnmálaöfl hafa fengið framgang undanfarin ár með því að ala á óánægju og vantrausti á hefðbundnum stjórnmálum. Má þar nefna Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fylgismenn Brexit í Bretlandi og aragrúa nýrra stjórnmálaflokka sem hefur skotið upp kollinum hér á Íslandi undanfarin ár, Miðflokkinn, Viðreisn, Dögun, Alþýðufylkinguna, Bjarta framtíð o.s.frv.

Að afstöðnum síðustu alþingiskosningum kvað þó við nýjan tón þegar mynduð var ríkisstjórn rótgróinna flokka, þvert á hið pólitíska róf, stjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Margir binda vonir við að þessi þverpólitíska stjórn kynni að róa málin í landspólitíkinni og koma á stöðugleika í landsstjórnmálunum, í takt við stöðugleika í efnahagsmálum.

Mótframbjóðandi Sólveigar Önnu, Ingvar Vigur Halldórsson, sem segja má að sé fulltrúi  sitjandi afla í Eflingu, steig fram í gær og lýsti áhyggjum af pólitískum tengslum Sólveigar Önnu og kvaðst vilja halda hlutunum innan ASÍ í horfinu.

Fari svo að Sólveig Anna sigri í formannskosningunum gæti kjarabarátta á næstu árum orðið hatrammari en skynsamlegt getur talist. Ekki þarf að leita langt til að finna dæmi um launahækkanir úr hófi og langt umfram innistæðu. Hending ein réði því að verðbólga æti þær ekki upp og má þakka flaumi ferðamanna hingað til lands fyrir það.

Nú er loksins svo komið að ákveðið jafnvægi er í fjármálum hins opinbera og stjórnun peningamála. Í slíku árferði er mikilvægt að þriðji armur hagstjórnarnarinnar, vinnumarkaðurinn, hleypi málum ekki í uppnám. Fari svo að ný öfl nái meirihluta innan ASÍ, á sama tíma og margir og stórir kjarasamningar losna, kann hagkerfinu að stafa hætta af og velferð landsmanna þar með. Í takt við málflutning B-listans, má draga stórlega í efa að heilbrigðu samtali verði haldið uppi við ríkisvaldið í kjaraviðræðum og atvinnurekendur einnig. Því er mikilvægt að félagsmenn í Eflingu hugsi málin til enda og greiði tækifærissinnum og popúlistum ekki að komast upp með áhlaupið.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.