Hræsni Kára Stefánssonar

eftir Alexander Freyr Einarsson

Ég trúi því heilshugar að Kári Stefánsson sé einn af gáfaðri mönnum Íslands og jafnvel þó víðar væri leitað. Ég tel nokkuð víst að hann geri sér sjálfur grein fyrir því að hann sé í klárari kantinum og viti þar af leiðandi að margir taki mark á orðum hans. Þess vegna lít ég það alvarlegum augum þegar mér þykir hann gera sig sekan um algjöra hræsni og að segja jafnvel hluti sem hann ætti að vita að eru ekki alls kostar sannir, vitandi að margir muni hoppa á vagninn. Til dæmis fannst mér hin fræga undirskriftarsöfnun hans um að verja 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið að einhverju leiti barnaleg einföldun en það er annað mál. Í dag vil ég einblína á pistil sem hann skrifaði í Fréttablaðið á mánudag og ber heitið „Fyrst það má skjóta ísbirni.

Þarna lýsir Kári yfir áhyggjum sínum af fyrirhuguðum áformum fjárfesta um að reisa í Mosfellsbæ einkasjúkrahús fyrir erlenda aðila sem tilbúnir eru að greiða þá upphæð sem þarf til að nýta sér þessa tilteknu þjónustu. Mér finnst allt í lagi að velta vöngum um hver sé hugmyndin á bakvið slíka fjárfestingu og hvaða áhrif hún kann að hafa. Hvort þetta viðskiptamódel kunni að borga sig eður ei eða hvort annarlegir hvatar liggi að baki. Ég get ekki svarað neinni af þessum spurningum og umræðan er sjálfsögð. Hins vegar finnst mér Kári ganga allt of langt þegar hann fullyrðir að sjúkrahús þetta komi til með að „rústa því sem eftir er af íslensku heilbrigðiskerfi“. Sömuleiðis finnst mér einstaklega hallærislegt af honum að segja að spítalinn muni leggja sitt af mörkum til að „búa til stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustu í landinu sem við erum flest sammála um að sé með öllu óþolandi“. Ég vil einblína á þessa tvo punkta.

  1. „Útlendingaspítalinn“ mun rústa íslensku heilbrigðiskerfi:

Þarna nefnir Kári réttilega á að við kunnum að standa frammi fyrir skorti á heilbrigðisstarfsfólki í náinni framtíð. Segir hann orðrétt: „Það sem alvarlegast er þó við hugmyndina um útlendingaspítalann er að honum er ætlað að ráða þúsund manns til starfa á sama tíma og okkur reynist erfitt að manna þær heilbrigðisstofnanir sem þjónusta landsmenn. Útlendingaspítalinn myndi því rústa því sem eftir er af íslensku heilbrigðiskerfi og gera endurreisn þess margfalt erfiðari en ella.“

Við skulum staldra við eitt andartak og gera okkur grein fyrir hvað felst í orðum Kára. Þarna er einn ríkasti maður Íslands að lýsa yfir vanþóknun sinni á því að heilbrigðisstarfsfólk gæti hugsanlega sótt í störf í einkageiranum sem bjóða upp á betri laun en í opinbera geiranum. Þarna er einn ríkasti maður Íslands, sem sjálfur er læknir að mennt en kýs að reka (mjög flott) fyrirtæki í stað þess að skera upp sjúklinga á Landspítalanum, að kvarta undan því að vel menntað fólk geti fengið betri tækifæri í lífinu. Er heilbrigðisstarfsfólk eign ríkisins sem á bara að sætta sig við þau kjör sem bjóðast og eiga enga möguleika á því að stíga skref í átt að betra lífi? Á þá að taka vegabréfin af heilbrigðisstarfsfólki og banna því að flytja erlendis þar sem það gæti fengið betri kjör fyrir sína vinnu? Það þykir mér ekki og ég vona að Kára Stefánssyni þyki það ekki heldur þó svo að pistillinn hans hljómi þannig.

  1. Stéttaskipting í heilbrigðiskerfinu er „óþolandi“:

Mér þykir gott að hugsa til þess að fólk hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til fjárhags. Mér þykir tilhugsunin um að manneskja veikist illa eða láti lífið vegna fátæktar hreint út sagt hræðileg. Hins vegar finnst mér alveg sjálfsagt að fólk geti greitt fyrir aukna þjónustu ef því gefst kostur á. Rétt eins og við sjáum betur efnaða einstaklinga keyra um á flottari bílum, búa í fallegri húsum, klæðast vandaðri fötum og borða betri mat, þá hlýtur að vera í lagi að sama fólk geti keypt sér betri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ég vil ekki að ein einasta manneskja þurfi að búa við matarskort en mér finnst heldur ekki að allir þurfi að geta fengið sér nautalund á hverju kvöldi. Ég sé ekki af hverju þetta þarf að horfa öðruvísi við þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisþjónusta er í grunninn eins og hver önnur þjónusta þó svo að mikilvægi hennar sé auðvitað gríðarlegt. Með því að kalla stéttarskiptingu í heilbrigðiskerfinu „óþolandi“, er Kári Stefánsson að skuldbinda sig til að nýta sér aldrei auðævi sín í að kaupa betri heilbrigðisþjónustu ef þess gerist þörf? Ætlar Kári að lofa landsmönnum öllum að ef hann veikist alvarlega, sem ég vona svo sannarlega að hann sleppi við, að hann muni sitja við sama borð og fátækasti Íslendingurinn í stað þess að fara t.d. erlendis þar sem hann gæti átt von á mun betri lækningu sem hann hefur efni á? Ég vona ekki, því ég myndi svo sannarlega skilja Kára ef hann vildi nota góða fjárhagsstöðu sína, sem hann komst verðskuldað í, til að fá sem allra besta heilbrigðisþjónustu ef þess gerist þörf.

Það er sjálfsagt að velta því fyrir sér hvaða áhrif einkarekinn spítali í Mosfellsbæ kann að hafa á heilbrigðiskerfið. Ég get hins vegar ekki annað en lesið tvennt úr pistli Kára: Að hann vilji ekki að heilbrigðisstarfsfólk hér á landi geti sótt betri laun í einkageiranum og að hann ætli sjálfur aldrei að nýta sér góða fjárhagsstöðu til að kaupa sér betri heilbrigðisþjónustu. Vonandi las ég pistilinn hans vitlaust.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.