Hræsni Íslendinga

eftir Ritstjórn

Það er að mörgu leyti furðu erfitt að setjast niður og skrifa um liðna viku. Það er einhvern veginn eins og hvort tveggja allt og ekkert hafi verið sagt. Þegar fram líða stundir má líka reikna með að vikan verði álitin hvort tveggja ein atburðaríkasta og skoplegasta í íslenskum stjórnmálum.

Í síðasta ritstjórnarpistli voru líkur leiddar að því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þyrfti verulega að íhuga stöðu sína en um kvöldið þegar Kastljósþátturinn örlagaríki birtist varð strax ljóst að það myndi ekki duga honum að einfaldlega íhuga hana. Ekki fór mánudagurinn á betri veg og á þriðjudeginum var mönnum öllum lokið. Þótti einsýnt að Framsóknarflokkurinn væri ekki lengur stjórntækur og best væri einfaldlega að ganga til kosninga.

Tækifærismennskan kemur í ljós þegar rykið sest

Þegar rykið sest niður og menn ná andardrættinum að nýju verður þó ljóst að ekki má setja vinnu við losun gjaldeyrishafta í uppnám. Hætta er á að tafir verði varanlegar, ef ferlið hikstar núna er ekki víst að rétti tíminn verði neitt í bráð. Líkt og Ásgeir Jónsson, deildarforseti hagfræðideildar HÍ, hefur bent á tók 62 ár að afnema gjaldeyrishöft síðast þegar það var gert. Erfitt, eða nær ómögulegt, er að halda því fram að fyrri fjármálaráðherra hafi gert nokkuð til að vinna að losun haftanna og fóru hjólin ekki að snúast fyrr en sá sem nú situr í ráðherrastól kom í myndina. Með þingslitum væri jafnframt verið að tefja málið um dýrmæta mánuði á meðan stjórnmálamenn keppast um að lofa upp í ermina á sér, í stað þess að einbeita sér að málum sem í raun og veru skipta máli.

Í því ljósi er vert að skoða viðbrögð og ummæli stjórnarandstöðunnar sérstaklega því þegar vel er að gáð bera þau vott af ábyrgðarleysi og tækifærismennsku. Ummæli þeirra Katrínar Jakobsdóttur, Óttars Proppé, Birgittu Jónsdóttur og Árna Páls Árnasonar bentu aldrei til þess að flokkar þeirra myndu taka þátt í að mynda einhverskonar starfsstjórn en jafnframt sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, einhvers konar minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokkins óraunhæfa

Vissulega var rétt af stjórnarandstöðunni að krefjast afsagnar Sigmundar en tækifærismennskan felst fyrst og fremst í því að nýta sér ástandið í samfélaginu til þess að krefjast kosninga og auka hlut sinn á þingi í stað þess að finna til ábyrgðar og leggjast á eitt um að klára slíkt þjóðþrifamál sem afnám gjaldeyrishafta er. Að sama skapi er fyrirsláttur þeirra um að fyrst og fremst séu það embættismenn sem sjá um verkið og ekki skipti máli hver veiti því pólitíska forystu í besta falli hjákátlegur. Bjarna Benediktssyni voru því settar afar þröngar skorður til þess að tryggja áframhaldandi vinnu við afnám gjaldeyrishafta og ljóst að stjórnarandstöðuflokkarnir eru meðábyrgir fyrir því að Framsóknarflokkurinn situr enn í ríkisstjórn.

Komu í veg fyrir upplýsingar um eignarhald

Áhugavert er að líta til þess að þetta sama fólk; Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Björn Valur Gíslason og Svandís Svavarsdóttir komu í veg fyrir mál Lilju Mósesdóttur á löggjafarþinginu 2012-2013 sem hefði tryggt að upplýst hefði verið um raunverulegt eignarhald á kröfum gömlu bankanna eins og Veggurinn hefur bent á. Ef málið hefði verið samþykkt þá hefði verið upplýst um kröfur Wintris, félags Sigmundar og konu hans, á gömlu bankana, sem er jú einn alvarlegasti þáttur málsins.

Sá yðar er syndlaus er…

Ein mikilvægasta niðurstaða ,,Panama-málsins” væri ef almenn sátt næðist um það í samfélaginu að uppræta skattsvik. Að mönnum myndi ekki líðast að greiða ekki til samfélagsins hvort sem ræður um skattaskjól eða greiðslur fyrir „svarta” þjónustu sem hefur ekki þótt tiltökumál að sé gert á Íslandi (og þar geta margir litið í eigin barm). Því liggur beinast við að fá öll spilin upp á borð og best væri ef að öll Panamagögnin yrðu gerð opinber hið fyrsta og afhent skattrannsóknarstjóra. Í kjölfarið yrði hægt að ráðast í umfangsmikla vinnu gegn skattaundanskotum. Það er sennilega eina leiðin til þess að sjá glasið hálffullt eftir vikuna en þó verður að viðurkennast að öllu líklegra er að Íslendingar haldi áfram að stunda þjóðaríþrótt sína: hræsni.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.