Hommar í Reykjavík

eftir Ásgrímur Hermannsson

Við erum stödd í Bláa Lóninu. Hommaparið Sissó og Bimbi er í þann mund að skella sér í dekurpakka og fagna 10 ára brúðkaupsafmælinu. Sissó horfir djúpt í augun á Bimba: „Ég elska þig jafn heitt í dag og þegar við hittumst á hommabarnum 22 fyrir 15 árum.” Áður en Bimba tekst að svara hringir síminn. „Ekki svara,” segir Bimbi, en Sissó hefur haft áhyggjur af heilsunni sinni og sér að læknirinn er að hringja. „Ég verð,” svarar hann. Það er líkt og óverðurský komi yfir Sissó er hann hlustar á lækninn tala. Fregnirnar eru ekki góðar, Sissó er með alnæmi.

„Hvernig má þetta vera?” spyr Sissó lækninn. „Við Bimbi höfum verið saman í 15 ár og einungis verið með hvor öðrum. Við fórum báðir í próf fyrir 10 árum, áður en við giftum okkur og hvorugur okkar greindist,” heldur hann áfram. „Jú sjáðu nú til kæri Sissó hommi. Alnæmi er hommaveira og stundi karlmenn mök hver með öðrum nægilega lengi þá fá þeir alnæmi. Þess vegna viljum við ekki að hommar gefi blóð.”

Takk en nei takk

Þessi stutta fordómafulla dæmisaga hér að ofan er að sjálfsögðu algjört bull og hommaparið Sissó og Bimbi ekki til nema í gömlu innslagi í útvarpsþættinum Tvíhöfða. Sagan lýsir aftur á móti hugmyndum sem einhverjir gætu hafa haft í byrjun níunda áratugarins, þegar ný heilbrigðisvá spratt fram á sjónarsviðið; alnæmi. Ný farsótt sem herjaði aðallega á karla sem stunduðu kynlíf með öðrum karlmönnum. Varð þetta nýr kafli í málefnum samkynheigðra. Mörgum hópum þótti þetta jafnvel mátulegt á hommana svo sem kristnir íhaldshópar, veiran var refsing til hommana fyrir syndugt líferni þeirra. Fljótlega áttuðu menn sig þó á því að veirur spyrja ekki um kynhneigð og smit komu upp hjá gagnkynhneigðum einstaklingum.  Þar sem vírusinn dreifist með blóði og líkamsvessum afþökkuðu blóðbankar vinsamlegast blóð frá samkynhneigðum karlmönnum.

Tímarnir breytast og mennirnir með

Lítum nú til Íslands tuttugu árum síðar. Árið 2001 mátti enn sjá af tölum að smitaðir einstaklingar voru í meirihluta samkynhneigðir karlmenn eða tæp 53 prósent, gagnkynhneigðir rúm 31 prósent og restin skiptist milli sprautufíkla og annarra ástæðna. Það mætti því halda að þetta væru lögmætar áhyggjur af blóðgjöfum frá samkynhneigðum karlmönnum. Réttur blóðþega til að fá heilbrigt blóð ætti jú að ráða allri ákvarðanatöku um hver megi gefa blóð.

Hvar stöndum við hins vegar í dag? Frá árinu 2001 hafa rúmlega 40 karlmenn smitast við samkynhneigð mök en 74 við gagnkynhneigð mök. Nú hafa 38 prósent allra smitaðra smitast í gegnum  mök gagnkynhneigðra og 38 prósent í gegnum mök samkynhneigðra. Smittíðni samkynhneigðra hefur lækkað á síðustu árum og gagnkynhneigðra hækkað.

Ítarlegra áhættumat

Þegar á heildina er litið, getur þá einhver gefið góða ástæðu fyrir því að karlmenn sem stunda ekki áhættusækið kynlíf með sama kyni geti ekki gefið blóð? Er einhver ástæða fyrir því að karlmaður sem hefur jafnvel átt sama maka í áraraðir geti ekki gefið blóð? Veiran verður ekki til við samkynhneigð mök og kemur ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti á tíu ára brúðkaupsafmæli tveggja karlmanna. Hvers vegna útilokum við þá frá blóðgjöf?

Árið er 2016 og 35 ár síðan eyðnifaraldurinn kom upp; tökum mið af aðstæðum í dag. Tökum á móti blóði byggt á áhættumati sem gerir ekki ráð fyrir því að allt kynlíf samkynhneigðra sé jafn áhættusækið. Það eru ekki allir hommar eins.

Ljósmyndir teknar af Håkon Broder Lund