Hógværar og eðlilegar kröfur

eftir Oddur Þórðarson

Verkfallsaðgerðir stærstu stéttarfélaga landsins hafa líklega ekki farið framhjá neinum síðustu misserin. Þann 8. mars síðastliðinn fór hópur fólks í Eflingu í verkfall og svo enn stærri hópur hótelstarfsmanna og hópbifreiðastjóra seinasta föstudag. Ég, sem félagsmaður í Eflingu og barþjónn á hóteli í Reykjavík, var þar á meðal. Ég mætti til vinnu á fimmtudegi og fékk staðfest að ég þyrfti ekki að mæta til vinnu daginn eftir vegna verkfalla. Eða svo hélt ég.

Efling gerir nefnilega þá „hógværu kröfu“ til félagsmanna sinna að þeir mæti og taki þátt í einskonar samstöðufundi ætli þeir að fá greitt úr verkfallssjóði. Þessir samstöðufundir eru síðan ekkert annað en bara mótmælafundir en það er svosem gott og blessað. Friðsamleg mótmæli eru, að mínu mati, yfirleitt af hinu góða.

Hógværar kröfur

Þessar hógværu kröfur Eflingar eru athyglisverðar. Ég hugsaði aðeins eitt þegar mér var sagt að til þess að fá greitt úr verkfallssjóði, eins og ég á rétt á yrði ég að mæta á áðurnefndan samstöðufund. Ég yrði að mæta í fimbulkulda á vinnustaðinn minn og marsera í fleiri klukkutíma með öðrum félagsmönnum stéttarfélags míns og virðast þannig taka skýra afstöðu með þeim viðhorfum og stefnumálum sem einhverjir aðrir móta og gera að sínum – tja, og um leið að mínum.

Ég sló eðlilega til, seinasta föstudag, og tók þátt í kröfustöðu eins og það er víst kallað – eða tók mér kröfustöðu fyrir utan vinnustað minn, fer eftir því hvernig litið er á það. Ég vildi auðvitað ekki verða af þeim tekjum sem ég annars hefði fengið ef verkfallið hefði ekki verið boðað. En kröfugangan var ánægjulegri en ég átti von á. Fyrst voru viðstaddir skráðir á blað svo hægt væri að halda utan um hverjir fengju nú greitt úr vinnudeilusjóði, síðan voru fólki rétt spjöld með slagorðum.

Ég rölti ásamt hersingu fólks frá Hilton hótelinu, vinnustað mínum, meðfram Suðurlandsbrautinni og að Reykjavík Lights hótelinu. Því næst var gengið að Hótel Íslandi, svo City Park Hotel, þá Grand Hotel og loks Hotel Cabin í Borgartúni áður en göngunni lauk svo í húsakynnum Eflingar. Þeir sem vildu báru spjöld með slagorðunum „Hótelin eru í okkar höndum“ á a.m.k. þremur tungumálum og hrópuðu ýmist „This is my way, for a better pay“ eða „No less than 425.000kr.“. Það má því segja að baráttuandi hafi verið í fólki. Kannski var það vorhretið sem dreif mannskapinn áfram.

Mótmælendur létu ekki kuldann á sig fá. Hér fyrir utan Hotel Cabin í Borgartúni.

Útlendingur í eigin landi

Stöldrum aðeins við þá mynd sem ég lýsti hér áðan. Fólki voru rétt spjöld með slagorðum á mörgum tungumálum. Þarna voru Pólverjar, Tælendingar, Lettar, Litháar, o.sfrv. og svo einn Íslendingur. Einn Íslendingur. Ég veit nefnilega ekki betur en að ég hafi verið eini Íslendingurinn sem mætti í kröfustöðuna fyrir utan minn vinnustað, fyrir utan þá skipuleggjendur Eflingar sem marseruðu með hótelstarfsfólkinu. Vissulega voru skipulagðir fleiri svona viðburðir víðs vegar um bæinn en ég var a.m.k. eini Íslendingurinn sem tók þátt í þeim aðgerðum sem ég mætti í.

Ég hugsa að margir segðu eflaust við þessu: „Já, sjáið bara! Efling er að notfæra sér stöðu þessara aumingja útlendinga og skikka þau til að mæta í einhverjar kröfugöngur ellegar fá þau ekki greitt úr verkfallssjóðum félagsins.“ Þessu er ég ósammála. Ég var eini Íslendingurinn. Það sýnir miklu frekar að Íslendingar eru upp til hópa ekki reiðubúnir að vinna þau launalágu og krefjandi störf sem innflytjendur skipa nær eingöngu. Ég held að við skiljum ekki til fulls stöðuna sem við setjum marga innflytjendur í. Margir þeir sem tala gegn kröfum verkafólks skilja ekki þá niðurlægingu sem erlent verkafólk verður fyrir. Niðurlæginguna sem fylgir því að vinna störf á lágmarkslaunum sem enginn Íslendingur vill vinna.

Og þetta fólk mætti til að taka þátt í kröfugöngunni á föstudag og var flestallt mjög kátt með að einhver skyldi vera að berjast fyrir því að hækka þeirra lágmarkslaun. Margir sögðu mér aðspurðir að þaðan sem þeir kæmu væri fáheyrt að verkalýðsfélög berðust með þessum hætti fyrir kjarabót launalægsta fólksins í landinu. Þetta þótti mér merkilegt. Það voru innflytjendurnir sem hópuðu sig saman og hrópuðu og kölluðu að hóteleigendum, sem hímdu margir hverjir bakvið dyr eða glugga, slagorð um að þau væru í verkfalli og að atvinnurekendum bæri sko bara að venjast því. „We‘re here, we‘re striking, get used to it“ hrópuðu þau í kór.

Skipuleggjendur aðgerðanna keyrðu um á merktum bíl. Hér er honum lagt fyrir utan húsakynni Eflingar og ASÍ en þar var fólki boðið upp á kaffi að göngu lokinni.

Hefði ekki þurft að mæta

Ég kynnti mér ansi ítarlega hinar hógværu kröfur Eflingar þegar ég var kominn heim. Þegar allt kom til alls hefði ég í raun og veru ekkert þurft að mæta til þess að fá greitt úr verkfallssjóði. Það sem ég og allir hinir sem mættu á föstudag, hefðum getað gert í staðinn er að fara um næstu mánaðamót á skrifstofu Eflingar og sækja um greiðslu úr verkfallssjóði félagsins. Þetta var ekki auglýst neitt sérstaklega, lesa þurfti milli línanna til þess að átta sig á því hvernig ætti að bera sig að.

Enda er það líka bara eðlilegt. Mér finnst persónulega fullkomlega eðlilegt að vera hvattur til hins ítrasta til þess að taka þátt í aðgerðum sem eiga að vænka kjör þín svo um munar. Viljirðu ekki taka þátt, þá áttu að vera í öðru stéttarfélagi. Viljirðu ekki taka þátt, hefðirðu átt að berjast fyrir því að minna róttækur frambjóðandi tæki formannssæti á síðasta aðalfundi stéttarfélags þíns. Samkvæmt minni bestu vitund var þeim sem mættu á föstudaginn mjög alvara um þær kröfur sem þeir gera til atvinnurekenda sinna. Það er ekkert grín að lifa á lægstu launum. Það er ekki sjálfsagt að einhver grípi til aðgerða fyrir þina hönd og berjist fyrir réttindum þínum og það er ekkert sjálfsagt að þær aðgerðir beri árángur.

Vanþakklæti

Mér finnst gæta vannþakklætis í orðræðu sumra. Þess gætti svo sannarlega hjá mér áður en ég tók þátt í verkfallsaðgerðum á föstudaginn en það breyttist. Eftir að hafa séð hversu alvara því fólki var, sem mætti, snerist mér hugur. Mjög margir eru augljóslega búnir að fá nóg af því að lifa af lægstu launum á Íslandi. Þetta sama fólk talar svo um að það hafi aldrei áður fengið tækifæri til þess að berjast fyrir kjörum sínum með þeim hætti sem það getur hér á landi. Því tel ég sjálfsagt að það geri það og sé hvatt til þess eins og mögulegt er.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.