Hnífjafnt í Noregi

eftir Björn Már Ólafsson

Þingkosningar fara fram í Noregi þann 11. september næstkomandi og staðan samkvæmt skoðanakönnunum gæti ekki verið meira spennandi. Þær sýna að blokkirnar tvær sem voru skýrir andstæðir valkostir fyrir síðustu kosningar eru ekki einu valkostir kjósenda í ár.

Ríkisstjórn Ernu Solberg með Høyre og Frp er fyrsta hreina hægristjórnin í sögu landsins. Stjórnin situr hins vegar fyrir tilstilli tveggja annarra flokka, Krf og Venstre. Þessir tveir flokkar sem verja ríkisstjórnina vantrausti eru afar ólíkir að flestu leyti. Krf er kristilegur demókrataflokkur sem berst fyrir kristilegum gildum og íhaldsemi á mörgum sviðum á meðan Venstre er frjálslyndur miðjuflokkur sem vill ganga í Evrópusambandið, afglæpavæða fíkniefnaneyslu og hefur leitt baráttu hinsegin fólks í landinu.

Hægristjórninni sem komst til valda eftir kosningarnar 2013 var af mörgum ekki spáð langlífi. Í fyrsta lagi er um að ræða stjórnarsáttmála fjögurra ólíka flokka. Því fleiri kokkar, því meira sull. Í öðru lagi var þetta í fyrsta sinn sem flokkurinn Frp komst í ríkisstjórn. Ekki voru allir stuðningsmenn flokksins sammála því að flokkurinn ætti að ganga í ríkisstjórn og töldu og telja jafnvel enn að flokkurinn geti haft mun meiri áhrif utan ríkisstjórnar. Flokkurinn er flókið fyrirbæri að útskýra fyrir íslenskum kjósendum. Ungliðahreyfingin er hugmyndafræðilega frjálshyggjusinnuð. Þar finnur þú áhugamenn um lágmarksríki og Ayn Rand. Flokkurinn vill lægri skatta og færri boð og bönn. Á móti vill hann samt líka auka eyðslu úr olíusjóði Norðmanna til að byggja upp innviði landsins. Flokkurinn er líka sá flokkur sem berst fyrir ströngustu innflytjendastefnunni. Sérstaklega einn ráðherra flokksins, Sylvi Listhaug, slær á popúlíska strengi í málflutningi sínum og er sá stjórnmálamaður í Noregi sem flestar fyrirsagnir fær á degi hverjum.

Verkamannaflokkurinn í Noregi hefur haft yfirburðarstöðu í stjórnmálum í landinu lengst af. Flokkurinn hefur verið með fylgi á bilinu 30-40% og öðrum flokkum hefur reynst erfitt að mynda ríkisstjórn án hans aðkomu. Sem dæmi um gríðarlegt fylgi flokksins þá sagði forsætisráðherra og formaður flokksins Torbjørn Jagland af sér árið 1997 þar sem flokkurinn hlaut „bara” 35,9%.

Nú er staðan hins vegar orðin allt önnur. Fylgi Verkamannaflokksins tók að falla kröftuglega um mitt sumar þegar kosningabaráttan fór formlega af stað. Jonas Gahr Støre formaður flokksins sem tók við af Jens Stoltenberg eftir kosningarnar 2013 þótti standa sig vel í fyrstu sjónvarpskappræðunum sem norska ríkisútvarpið hélt en það hafði engin áhrif. Fylgið hélt áfram að falla og er nú komið undir 30% í mörgum könnunum. Tvær kannanir hafa einnig sýnt að flokkurinn mælist með minna fylgi en Hoyre en slíkt þykir nær óhugsandi í norskum stjórnmálum.

Gahr Støre og Verkamannaflokkurinn ganga til kosninga með það loforð að vilja samstarf við Senterpartiet (sögulega bændaflokkur) og SV (systurflokkur Vinstri grænna). Þessir þrír flokkar sátu saman í ríkisstjórn fra´2005-2013 og vilja nú endurheimta ríkisstjórnarskrifstofurnar frá bláu hægriflokkunum. Staðan er aftur á móti orðin talsvert breytt í dag. Tveir minni flokkar hafa sprottið upp á vinstri vængnum og taka fylgi frá þessum þremur flokkum. Flokkurinn Rødt mælist með mann inni á þingi eftir vaska framgöngu borgarstjórnarhluta flokksins í Oslóarborg þar sem flokkurinn meðal annars kom því í gegn að einkarekstur á leikskólum verður bannaður. Þá hefur líka umhverfisflokkurinn Miljøpartiet tekið frá vinstri flokkunum þó nokkra kjósendur og gæti líka fjölgað þingmönnum sínum umtalsvert en í dag á flokkurinn einn þingmann.

Umhverfisflokkurinn segist í stefnu sinni vera flokkur „óháður valdablokkum”. Sannleikurinn er samt sem áður sá að í borgarstjórn Oslóar gekk flokkurinn rakleiðis til samstarfs við vinstri flokkana og málflutningur og stefnumál flokksins í öðru en umhverfismálum getur á engan veg talist hægrisinnuð.

Baráttan við að komast á þing

Kjörtímabilið hefur síður en svo verið dans á rósum fyrir ríkisstjórnarflokkanna. Á tímabilinu hefur olíuverð hríðfallið sem hefur stórskaðað norska efnahagskerfið og valdið atvinnuleysi, sérstakega á vesturströnd Noregs. Þá skall flóttamannabylgjan á landinu og miklir brestur komu í ljós í ríkisstjórnarsamstarfinu við það. Það er ríkisstjórninni samt helst til happs að efnahagsástandið tók að lagast á hárréttum tíma. Verkamannaflokkurinn og stjórnarandstaðan eyddu kjörtímabilinu í að tala um kreppuástand og stóraukið atvinnuleysi. Síðustu mánuði hefur hagkerfið aftur á móti verið á hraðri siglingu og atvinnuleysi er nú tekið að minnka. Verkamannaflokkurinn hefur því þurft að aðlaga málflutning sinn að raunveruleikanum á kosningaári, eitthvað sem er ekki líklegt til vinsælda.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun TV2 sem birt var í gærkvöldi þá eru hægriflokkarnir með 87 þingmenn en vinstriflokkarnir 78. Alls þarf 83 þingmenn til að ná meirihluta. Það sem virðist skipta mestu máli um það hvort hægriflokkarnir eða vinstriflokkarnir nái meirihluta er það hvaða flokkar ná yfirhöfuð mönnum inn á þing. Flokkarnir þurfa að fá 4% atkvæða til að ná fólki inn á þing. Annars falla atkvæðin að mestu dauð niður. Þrír flokkar eru að dansa á línunni. Sérstaklega verður spennandi að fylgjast með flokknum Venstre. Flokkurinn er sem fyrr segir frjálslyndur miðjuflokkur og jafnframt elsti stjórnmálaflokkur landsins. Flokkurinn hefur verið í vandræðum síðustu áratugi og þingkosningar eru orðnar að eilífri baráttu við að ná 4% lágmarkinu. Ef flokkurinn kemst inn á þing er útlit fyrir að hægriflokkarnir haldi einhvers konar samstarfi áfram. Óbreytt verður ríkisstjórnin þó ekki þar sem Krf og Venstre vilja ekki lengur styðja ríkisstjórn með Frp innanborðs. Einhvers konar lausn gæti verið að Krf og Venstre fari í ríkisstjórn eða að Høyre sitji eitt í stjórn með stuðning frá hinum þremur flokkunum.

Ekki þarf margt að breytast til þess að ríkisstjórnin falli. Vandamálið fyrir stjórnarandstöðuna er aftur á móti hvernig á að mynda ríkisstjórn. Gahr Støre vill helst stjórna með Senterpartiet og SV. Það er ekki raunhæft eins og staðan er. Hann þarf sennilega að reiða sig á Miljøpartiet, Rødt og/eða að Krf gang til liðs við vinstriflokkana. En slíkt ríkisstjórnarsamstarf 5-6 flokka er ekki líklegt að verða farsælt til lengdar og Gahr Støre finnur eflaust fyrir köldum svita á bakinu við tilhugsunina eina að þurfa að fara fyrir slíku stjórnarsamstarfi.

Niðurstaða kosninganna í Noregi þann 11. september er því algjörlega ófyrirséð. Bæði kosningarnar sjálfar en ekki síst hvað mun gerast í stjórnarviðræðum eftir kosningarnar.

 

Ljósmyndir: Stortinget.no

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.