Hlutverk Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna starfar að grundvallar markmiði samtakanna, sem er að „vernda öll mannréttindi og grundvallarréttindi allra”. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum SÞ, fjalla um mannréttindabrot og beinir ráðið með ályktunum sínum tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum.

Mannréttindaráðið

Mannréttindaráðið í núverandi mynd var sett á laggirnar árið 2006. Forveri þess frá árinu 1946, sem einnig var kallað mannréttindaráðið, þótti bitlaust og var gagnrýnt fyrir að vera of pólitískt. Það sem þótti sérstaklega slæmt var að ríki sem seint yrðu kallaðar fyrirmyndir í mannréttindamálum áttu sæti í ráðinu.

Í stað 53 ríkja eins og það var áður eiga nú 47 ríki aðild að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna; 13 frá Afríku, 13 frá Asíu, 8 frá Suður-Ameríku og Karíbahafseyjum, 7 frá Vestur-Evrópu og 6 frá Austur-Evrópu. Mikilvægast breytingin frá því áður er sú að ríkin eru kosin í leynilegri kosningu, til þriggja ára í senn.

Mannréttindaráðið starfar allt árið um kring, en það fundar þrisvar á ári í um þrjár vikur í senn.

Kúvending og Ísland fær sæti í ráðinu

Í júní sl. sögðu Bandaríkin sig úr mannréttindaráðinu og sögðu það samansafn hræsnara. Á meðan Ísrael, ríki sem Bandaríkin eiga í nánum tengslum við, væri ávítt hvað eftir annað, m.a. fyrir að brjóta á mannréttindum íbúa Palestínu, væri ekkert búið að álykta t.d. um stöðuna í Venesúela, þar sem tugir manna höfðu látist vegna mótmæla.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna harmaði ákvörðun Bandaríkjanna og ítrekaði mikilvægi þess að ríki stæðu saman í baráttunni gegn mannréttindabrotum.

Mánuði síðar var Ísland kjörið í ráðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og mun sitja til ársloka 2019. Því má með sanni segja að Golíat hafi farið út og Davíð stigið inn.

Hvað getur Ísland gert?

Ef einhvers staðar er vettvangur fyrir Ísland til þess að hafa áhrif á stefnu annarra ríkja þá er það í mannréttindaráðinu. Stefna Íslands í utanríkismálum snýst fyrst um fremst um friðsamlega lausn deilumála, virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum, jafnrétti og lýðræði.

Þetta þýðir á Ísland má ekki verið feimið við að gagnrýna hegðun annarra ríkja og nýta rödd sína sem friðsælt smáríki til þess að vekja máls á mannréttindabrotum – hvar svo sem þau kunna að vera.

Áður en til kosninganna kom hafði Ísland látið vel í sér heyra í krafti áheyrnaraðildar, og hafði utanríkisráðherrann m.a. gagnrýnt stjórnvöld Filipseyja þannig að vel var tekið eftir meðal fulltrúa annarra ríkja. Hefur það án nokkurs vafa haft áhrif á góða kosningu Íslands í mannréttindaráðið.

Hvað á Ísland að gera?

Ísland þarf að standa með sínum grunngildum – virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum og vera sterkur málsvari jafnréttis.

Nokkur ríki sem sitja samhliða Íslandi í mannréttindaráðinu ættu að vera sem þyrnir í augum annarra meðlima ráðsins, má þar helst nefna Sádí-Arabíu, Rússland, Kína, Alsír og Víetnam. Þessi fimm ríki hafa meinað eftirlitsmönnum á vegum Sameinuðu þjóðanna að rannsaka mannréttindabrot sem þau eru sökuð um. Eru þá ótalin önnur ríki sem grunur leikur á að hafi gerst sek um mannréttindabrot.

Höfum áhrif

Ísland hefur sjaldan ef einhvern tímann verið í betri stöðu til að hafa áhrif á stefnu annarra ríkja. Við verðum að stíga upp og standa með mannréttindum. Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn.

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.