Hjálpum vogunarsjóðum að hjálpa okkur

eftir Alexander Freyr Einarsson

Það kom undirrituðum skemmtilega á óvart að lesa frétt þess efnis í Markaðnum á dögunum að íslensk stjórnvöld hefðu nýlega fundað með fulltrúum erlendra aflandskrónueigenda í New York. Umræddir aflandskrónueigendur eru bandarískir fjárfestinga- og vogunarsjóðir að nafni Autonomy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital.

Það má segja að krónueignir þessara sjóða séu síðasti hluti hinnar svokölluðu snjóhengju sem Ísland þarf að losa um til að geta afnumið fjármagnshöft að fullu, ef slíkt verður yfir höfuð gert. Sjóðunum var settur stóllinn fyrir dyrnar í júní 2016 þar sem þeim gafst síðasti séns til að taka þátt í gjaldeyrisuppboði hjá Seðlabankanum. Þar gátu þeir selt krónur sínar fyrir evrur með miklum afföllum en þeir kusu að taka ekki þátt í útboðinu og voru í kjölfarið læstir inni á vaxtalausum reikningum. Tilkynnti Seðlabankastjóri að þeir færu „aftast í röðina“ þegar kæmi að losun hafta.

Forsendur eru hins vegar gerbreyttar. Ástæðan fyrir því að ég gladdist við að lesa fréttina af fundinum í New York var sú að undanfarna daga hef ég velt því fyrir mér hvort við séum ekki í dauðafæri til að hleypa þessum sjóðum út úr landinu og njóta góðs af því um leið. Frá því að sjóðirnir höfnuðu að taka þátt í útboðinu hefur gengi krónunnar styrkst um nærri 18% gagnvart evru, rúm 20% gagnvart breska pundinu og tæp 12,5% gagnvart Bandaríkjadal. Krónan hafði einnig verið að styrkjast fyrir þann tíma og ljóst er að hún er farin að valda útflutningsgreinum gríðarlegum vandræðum. Hún tók smá pásu í sjómannaverkfallinu en er komin aftur á fulla ferð.

Gerólík staða

Orðspor vogunarsjóða á Íslandi er ekkert sérstakt, enda litið sem svo á að þeir hafi framið einhvers konar arðrán hér á landi. Fólk vill gjarna gleyma því að Ísland tapaði í raun ekki krónu á þessum sjóðum, það voru gamlir skuldabréfaeigendur föllnu bankanna sem töpuðu. Þeir þurftu að losa sig við skuldirnar á miklum afslætti og sjóðirnir nýttu sér það og reyndu að ná sem bestri ávöxtun. Aðrir sjóðir keyptu einnig krónur á afslætti og það eru sjóðirnir sem við eigum við í dag.

Síðasta ríkisstjórn leysti frábærlega úr málum kröfuhafa bankanna. Þeir settu sér skýr markmið, sýndu mikla staðfestu og gáfu ekkert eftir. Niðurstaðan var sú að kröfuhafarnir borguðu fúlgur fjár til að fá að nálgast erlendar eignir sínar, þeir gáfu t.d. ríkinu Íslandsbanka. Ég held að með tíð og tíma verði litið á aðgerð stjórnvalda gagnvart kröfuhöfunum sem eina af best heppnuðu aðgerðum í íslenskri stjórnmála- og efnahagssögu. Það þarf samt að muna af hverju stjórnvöld voru svona hörð við kröfuhafana: Það einfaldlega gekk ekki upp fyrir íslenskt hagkerfi að hleypa þeim með innlendar eignir úr landi. Greiðslujöfnuðurinn hefði endað í molum og krónan hefði líklega hrunið aftur.

Í dag er staðan önnur og staðreyndin er sú að gengið má ekki halda áfram að styrkjast. Sjávarútvegurinn og ferðaþjónusta munu þjást, ódýr innflutningur mun hafa neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og mögulega ýta undir þenslu í hagkerfinu, upp byggist spenna sem endar með allsherjar leiðréttingu.

Hvað getum við gert?

Nú þegar hefur verið stigið skref í átt að afnámi hafta, einstaklingar og fyrirtæki hafa fengið mun meira frelsi til að fara með peninga úr landi. Sömuleiðis hafa lífeyrissjóðirnir lengi fengið ríflegar undanþágur frá Seðlabankanum til að fjárfesta erlendis. Það er hins vegar undarlegt að þeir hafa aldrei nýtt allar heimildir sínar. Þeir vilja ekki fara með peninga úr landi, því það er svo góð ávöxtun hér! Þeir sem fylgja þeirri afstöðu fengu reyndar vænt „reality check“ um daginn þegar hlutabréf í Icelandair hrundu svo um munaði. Milljarðar af lífeyri fuðruðu upp á einni svipan og við vorum öll minnt á hvers vegna áhættudreifing er mikilvæg. En það eru aðrir sálmar.

Ef lífeyrissjóðirnir eru ekki að fara með nóg af peningum úr landi til að stemma við hækkun krónunnar, ef almenningur og fyrirtæki eru ekki að því, hverjir eru þá kostirnir í stöðunni? Seðlabankinn getur haldið áfram að kaupa endalaust af gjaldeyri, líkt og hann hefur verið að gera. En gjaldeyrisforði Seðlabankans er einfaldlega orðinn of stór og hann er líka allt of dýr. Þess vegna er galið að láta hann halda áfram að kaupa gjaldeyri til að vinna gegn styrkingu krónunnar.

Lausnin er svo augljós þegar maður hugsar þetta svona. Einu aðilarnir sem eiga fáránlega mikið af krónum og vilja losna við þær sem fyrst, eru þessir aflandskrónueigendur. Við verðum að semja við þá, hleypa þeim með krónurnar úr landi og njóta góðs af. Það þarf alls ekki að hleypa þeim með allt út í einu, en með því að hleypa þeim út í skrefum erum við komin með mótvægi gagnvart frekari styrkingu krónunnar. Við þurfum heldur ekki að hleypa þeim út á réttu gengi, þetta snýst kannski frekar um að við þurfum ekki að pína þá jafn mikið og við ætluðum að gera í uppboðinu í júní í fyrra.

Rökin með og rökin á móti

Rökin með því að hleypa aflandskrónueigendunum úr landi eru skýr. Íslenskt þjóðfélag má ekki við því að krónan haldi áfram að styrkjast. Það er geggjað að geta keypt ódýr föt í útlöndum en hagkerfi okkar byggist á útflutningsgreinum og ferðaþjónustu sem munu bíða ómældan skaða ef gengið verður of sterkt. Þessi áhrif munu svo dreifast út um allt hagkerfið: Hótel fara á hausinn, veitingastaðir loka, þúsundir manns missa vinnuna. Ástandið getur orðið grafalvarlegt. Við viljum fá útflæði fjármagns á móti öllu innflæðinu og þar eru aflandskrónurnar tilvalið tækifæri.

Það eru einnig til sterk rök á móti. Sigurður Hannesson, einn helsti ráðgjafi stjórnvalda varðandi afnám hafta, sagði á dögunum að stjórnvöld myndu senda kolröng skilaboð með samningum við aflandskrónueigendur. „Stjórnvöld setja leikreglur í kringum útboð og svo eru þeir verðlaunaðir sem hunsa leikreglurnar,“ sagði Sigurður. Ég held að fáir viti meira um þessi mál heldur en hann og þess vegna á maður auðvitað að hlsuta á það sem hann segir. Það er ljóst að vogunarsjóðirnir fóru af stað með umtalsverðan áróður og reyndu að pressa á stjórnvöld eftir að þeir neituðu að taka þátt í uppboðinu, með engum árangri. Það var mikilvægt að sýna að íslensk stjórnvöld myndu ekki kikna undan pressu.

Ég held hins vegar að við þurfum að líta framhjá mögulegum röngum skilaboðum og að þau skipti litlu máli í samhengi hagsmuna þjóðarbúsins. Ég held að enginn muni hlæja að íslenskum stjórnvöldum fyrir að vera tilbúin að setjast að samningaborðinu, slíkt mun einungis reynast vel og veita fjárfestum aukna trú á umhverfinu. Stjórnvöld sýndu það mjög skýrt í baráttunni við kröfuhafa að þau myndu ekki fórna eigin hagsmunum fyrir hagsmuni annarra. Fyrir það held ég að þau hafi öðlast mikla virðingu, en það er óþarfi að vera þrjóskur bara þrjóskunnar vegna. Í þessu tilfelli finnst mér sem hagsmunir Íslands og hagsmunir aflandskrónueigenda nái fullkomlega saman, eins ótrúlega og það hljómar. Ef hagsmunum Íslands er best borgið með því að losa um aflandskrónueignir finnst mér eðlilegt að setjast við samningsborðið. Í raun þætti mér allt annað ábyrgðarlaust.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.