Hjálpum til sjálfshjálpar

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Markmið velferðarsamfélags eins og við búum við á Íslandi er meðal annars að öllum sé kleift að sækja sér menntun og heilbrigðisþjónustu án tilliti til stöðu, efnahags o.s.frv. Með því er verið að hjálpa sem flestum að standa á eigin fótum, en raunin er hins vegar sú að ekki eru allir færir um það. Annars vegar eru einstaklinga sem munu þurfa á varanlegri félagslegri eða fjárhagslegri aðstoð að halda alla sína ævi vegna veikinda eða annarra kvilla. Hins vegar eru einstaklingar sem geta séð fyrir sér og sínum en þurfa á hjálp að halda til að komast af stað. Markmiðið hlýtur að vera að sem fæstir þurfi á bótum og annarri félagslegri aðstoð að halda. Þar með getum við gert enn betur við þá sem þurfa á varanlegri aðstoð að halda.

Það er þrá flestra að búa sér og fjölskyldu sinni gott líf. Fjárhagslegt og félagslegt öryggi skiptir miklu máli. Fjölmargir kjósa að mennta sig, aðrir kjósa að skapa sína atvinnu sjálfir og stór hópur fólks kýs að vinna sig upp í starfi. Staðreyndin er sú að fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mennta sig eru útgjöld tengd menntuninni há, en þau eru í formi skólagjalda, ritfanga, bóka o.fl. Um leið er einstaklingur ákveður að fara af vinnumarkaði og mennta sig er hann að fórna tekjum, sem hann gæti verið að afla, fyrir möguleika á hærri tekjum í framtíðinni. Af þessum sökum geta einstaklingar sem hafa lítið fjárhagslegt bakland átt í erfiðleikum, þrátt fyrir vilja, að mennta sig.

Mæðrastyrksnefnd

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar matvælum í hverri viku en fatnaði einu sinni í mánuði. Einnig hefur nefndin veitt fermingastyrki ásamt styrki fyrir börn til dvalar í sumarbúðum og vegna þátttöku í leikjanámskeiðum, með það að markmiði að búa einstaklingum betra líf.

Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur er sjóður sem er ætlað að styrkja tekjulágar konur til menntunar svo þær eigi betri möguleika á góðu framtíðarstarfi.
Sjóðurinn veitir konum námsstyrk til fagnáms, starfsréttindanáms, framhaldsskólanáms og háskólanáms. Um er að ræða styrk til greiðslu skólagjalda, að ákveðnu hámarki, bókakaupa eða annars sem gerir umsækjenda kleift að stunda og ljúka námi. Konurnar sem leita til nefndarinnar gætu flestar ekki menntað sig, nema fyrir tilstilli styrksins, sökum bágs efnahags. Að námi loknu eiga þær þó kost á betri lífskjörum sökum menntunarinnar.

Fjárfestum í framtíð einstaklinga

Munurinn á námsstyrk og styrk í formi matar er sá að námsstyrkurinn hjálpar einstaklingum að hjálpa sjálfum sér. Markmiðið er að konurnar getið staðið á eigin fótum að námi loknu. Einstaklingar sem annars þyrftu á styrk að halda um ófyrirsjáanlegan tíma, jafnvel um ókomna tíð, vegna bágs fjárhags hafa nú kost á því að sækja sér menntun sem veitir þeim tækifæri til betri lífskjara. Með námsstyrknum er því ekki verið að viðhalda þörf einstaklinga á aðstoð Mæðrastyrksnefndar, heldur draga úr þeirri þörf til lengri tíma í von um að á endanum þurfi viðkomandi ekki á neinum styrk að halda.

Ekki má gleyma að styrkir til þeirra sem þurfa á honum að halda, sama í hvaða formi þeir eru, eru góðra gjalda verðir og gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Matar- og fatastyrkir eru ekki síður mikilvægir og er starf þeirra sem úthluta slíkum styrkjum ómetanlegt.

Með styrk líkt og námsstyrknum er verið að fjárfesta í framtíð einstaklinga í von um að þeir geti framfleitt sér og sinni fjölskyldu án aðstoðar í framtíðinni. Á meðan framfærslustyrkir á borð við matarstyrki eða fjárhæðarstyrki eru að mæta brýnni þörf styrkþeganna til að framfleita sér frá degi til dags. Mikilvægi beggja þessa styrkja er óumdeilt en gera verður þessum fyrrnefnda enn hærra undir höfuð því eftir því sem fleiri hjálpa sér til sjálfhjálpar verður mögulegt að gera enn betur við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.