Hinn stórhuga litli Íslendingur

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Þegar ég flutti til Þýskalands var fátt sem kom mér á óvart. Hér er að finna fyrsta klassa bjór, strangar reglur og gæða “Lederhosen” og “Dirndl”. Allt stefndi í tiltölulega einfalda flutninga og þægilega aðlögun. Það var þó strax fyrstu vikurnar sem ég byrjaði að finna fyrir að ekki væri allt með felldu. Ég, fædd og uppalin í samfélagi þar sem öllum eru allir vegir færir og allir geta gert það sem þeir vilja ef þeir einfaldlega ganga í málið, var komin inn í nýjan heim. Heim þar sem vegir eru flestum fremur torfærir og fullir af hindrunum. Heim þar sem allt mögulegt getur farið úrskeiðis áður en markmiði er náð.

Skiptir stærðin virkilega máli? 

Á Íslandi búa um 332.529 manns samkvæmt tölum Hagstofu. Íbúafjöldinn er dreifður um stórt landið (yfir 103.001 km2) sem gerir um það bil 3,23 Íslendinga á hvern ferkílómetra.

Á sama tíma búa um 81,8 milljón manna í Þýskalandi, þar af 23.408.212 milljónir í sambandslöndunum Bæjaralandi og Baden-Württemberg í Suður-Þýskalandi. Ef sambandslöndin tvö eru lögð saman mynda þau 106.301 km2 landsvæði. Nú er landssvæðið álíka stórt og Ísland í heildina en á sama tíma og 3,23 Íslendingar deila með sér hverjum ferkílómeter, deila 220,21 Suður-Þjóðverji með sér sama landssvæði.

Nú koma þessar tölur eflaust fæstum á óvart en á Íslandi búa álíka margir í heildina og Þjóðverjar myndu nefna stærð á smábæ. Það sem þó mesta athygli vekur er að á Íslandi eru samtals skráð 68.892 eignarhaldsfélög en á sama tíma 944.241 fyrirtæki samtals í fyrrnefndum sambandslöndum Þýskalands. Á meðan fjöldi fyrirtækja í Suður-Þýskalandi kann að hljóma fremur hár er rétt að skoða tölurnar nánar. Út frá íbúafjölda viðeigandi svæða má sjá að á hverja 100 Suður-Þjóðverja eru starfrækt 4 fyrirtæki meðan 20,7 fyrirtæki eru í rekstri fyrir hverja 100 Íslendinga. Um er að ræða marktækan mun svo vægt sé til orða tekið. En hvað veldur?

Það er hugurinn sem gildir

Ég hef oft haft orð á því að Íslendingar séu mjög sterkt dæmi um það hvernig Þróunarkenning Darwins virkar. Fyrir um 10 öldum síðan komu fyrstu menn að landi á Íslandi. Kynslóð eftir kynslóð lifði af mikil harðindi, slæm veðurskilyrði og veikindi. Á síðustu þúsund árum má því áætla að líkamlega sterk og hraust gen hafi haft yfirhöndina og þraukað einna helst ef mark er tekið á Þróunarkenningunni. Það varð mér þó ljóst, eftir að hafa flutt erlendis, að Íslendingar hafi ekki einungis þróað með sér sterkbyggða líkama heldur einnig hnífbeitt hugarfar. Hugarfar, sem gerir það að verkum að við teljum okkur fátt vera ómögulegt. Sama hversu fjarstæðukennda eða mikilfenglega hugmynd við kunnum að fá er ekkert sem fær okkur stöðvað. Fyrst þau geta þetta, af hverju ekki við?

Hér í Þýskalandi hef ég undrast mikið hugarfar Þjóðverja – sem er öðruvísi en ég hef kynnst. Í landi eins og Þýskalandi, sem framleiðir margar af mestu gæðavörum sem fyrirfinnast, og rekur einhver stærstu og árangursríkustu fyrirtæki heimsins, ríkir nefnilega menning fyrir varkárni. Áður en ráðist er af stað í framkvæmdir skulu öll sjónarmið vera tekin til hliðsjónar og sterkt öryggisnet og öryggisáætlanir vera fyrir hendi. Þeir eru einfaldlega síður áhættusæknir.

Þegar að uppi er staðið hafa karaktereinkenni beggja þjóða sína kosti og galla. Með því að líta aftur á fyrrnefnda reikninga sjáum við þó að rúmlega fimmfaldur munur er milli fjölda fyrirtækja miðað við höfðatölu. Það má því áætla að íslenskri hugsun gerir okkur líklegri til þess að hoppa út í djúpu laugina og láta vaða. Þrátt fyrir að slík ákvörðun geti haft í för með sér að sigla þurfi um ólgusjó þá munum við eflaust ávallt lenda aftur á landi. Spurningin er því, viljum við hætta okkur út á sjó eða höldum við okkur einfaldlega á landi þar sem við erum örugg?

Hinn stórhuga litli Íslendingur

Sitjandi hér í Þýskalandi í “Dirndl”, með bjór í annarri og Brezel í hinni þykir mér þetta ekki erfið ákvörðun. Ég er ein af þessum stórhuga litlu Íslendingum sem mun aldrei gefast upp og aldrei hætta að trúa á sjálfa sig!

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.