Hin ýmsu skilaboð kjósenda

eftir Ritstjórn

Til hamingju með lýðræðislega niðurstöður Alþingiskosninganna. Það er margt sem við getum fagnað við þessar kosningar. Nokkuð jafnt hlutfall verður á milli kynjanna á Alþingi og hafa aldrei fleiri konur verið kosnar á þing. Á sama tíma verður mikil endurnýjun á þingi en 29 þingmenn af 63 koma nýjir inn á þing. Athyglisvert verður að fylgjast með hvort umræðan á þingi breytist til hins betra eða hins verra við þessa endurnýjun.

Stærstu fréttirnar eru án nokkurs vafa fall Samfylkingarinnar. Hlaut flokkurinn 5,7% atkvæða og fékk 3 þingmenn, og formaður flokksins rétt skreið inn á lokametrunum. Þetta er sami flokkur og fékk tæplega 30% fylgi árið 2009. Engu breytti um formannsskiptin fyrr á árinu, þegar flokkurinn skildi endanlega við markaðshyggjuvænginn og staðsetti sig nánast lengra til vinstri en Vinstri græn. Þá sýndi það sig að kjósendur sjá í gegnum kosningaloforðakokteil líkt og þann sem Oddný reiddi fram, og hafa lítinn áhuga á nauðsynlegum skattahækkunum til að borga þann reikning.

Þó alltaf hafi verið óraunhæft fyrir Framsóknarflokkinn að hljóta kosningu í líkingu við 2013 varð fallið miklu hærra en þeir bjuggust við. Skýringin á falli flokksins er hins vegar einföld: skrípaleikir Sigmundar Davíðs á liðnu kjörtímabili sáu það.

Kjósendur gáfu skilaboð um að alsherjarbreyting á stjórnarskránni væri ekki forgangsatriði í þeirra huga. Þar með er ekki sagt að kjósendur vilji stjórnarskrána ósnerta, heldur má frekar líta á niðurstöðuna sem höfnun við þeirri aðferðarfræði sem Píratar boðuðu í þeim efnum. Jafnframt virðist innganga í Evrópusambandið heldur ekki brenna á kjósendum.

Píratar fengu þó frábæra kosningu samanborið við síðustu alþingiskosningar, en óhjákvæmilegt er að líta á niðurstöðuna sem vonbrigði í samanburði við skoðanakannanir síðastliðið ár. Leyfist að fullyrða að flokkurinn hefði fengið miklu betri kosningu ef Helgi Hrafn hefði ekki stigið til hliðar.

Þingkosningarnar hafa knúið fram víðara samstarf en undanfarin ár, þar sem tveggja flokka stjórn hefur ríkt um áratugaskeið. Fái Sjálfstæðisflokkurinn stjórnarmyndunarumboðið er erfitt að ímynda sér að flokkurinn líti fram hjá Framsóknarflokknum ef litið er á hlutina í sögulegu samhengi, ásamt því að flokkarnir stóðu saman í kosningabaráttunni. Jafnframt hefur verið talað um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf með Viðreisn, klofningsframboði flokksins, og Vinstri græna, en þeir flokkar unnu mikinn sigur í kosningunum. Björt framtíð lenti á fótunum eftir þessar kosningar, sem eru góðar fréttir fyrir flokkinn þegar mið eru tekin af systkinaflokknum hans, Samfylkingunni. Það er ekki útilokað að hann verði oddaflokkur í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins.

Ef Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefði ekki tekið mjög afdraráttarlausa stöðu um samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, yrði samstarf þessa þriggja flokka að öllum líkindum niðurstaðan. Nú mun koma í ljós hvort þetta hafi verið kosningabragð til að ná fylgi lengra inn á vinstri vænginn, eða hvort hann standi við orð sín. Þó getur einnig verið að hann hafi verið að tala um ríkisstjórnina eins og hún var, þar sem Sigmundur Davíð hafði gengið um á skítugum skónum, en ekki útilokað nýtt samstarf með þessum flokkum.

Að lokum verður það að teljast stórsigur fyrir Íslendinga að þjóðernishyggju var hafnað í þessari kosningu. Hafa slíkar hreyfingar út um Bandaríkin og alla Evrópu verið að sækja mikið í sig veðrið en slíkir flokkar hlutu litla sem enga kosningu á Íslandi. Íslendingar virðast samhuga í þeim efnum.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.