Hin bráðsmitandi sjálfsvíg

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Það þykir ekki til siðs að hefja pistla á fyrirvara en ég ætla engu að síður að gera það að þessu sinni. Umfjöllunarefni pistilsins er geðheilbrigðismál. Fyrirvarinn lýtur að því að í þeim efnum er ég ekki sérfræðingur. Vangavelturnar sem hér fylgja byggja sjaldnast á lærðum rannsóknum heldur yfirleitt á takmarkaðri eigin reynslu. Ber því að taka þeim sem slíkum. Af þeim sökum mun orðið „ég“ koma nokkuð reglulega fyrir.

Fyrir nokkrum árum básúnaði ég á vefnum glímu minni við þunglyndi, það er þunglyndi án kvíða. Einn fylgifiskur þess að gera slíkt er að eftir það vill fólk oft ræða slíka kvilla við mann. Í nokkrum slíkum hef ég heyrt setningu, sem lýsir tilfinningu sem ég þekki á eigin skinni, of oft. 

Umrædd setning er eftirfarandi: „Það eru mörg ár síðan ég sætti mig við það að ég myndi falla fyrir eigin hendi.“ Fyrir einstakling sem aldrei hefur glímt við geðræn vandamál er umrædd setning líklega óskiljandi. Hún er öllu skiljanlegri þeim sem stigið hafa þann dans. 

„Gróusögur ýttu undir sjálfsvíg“

Hér á landi eru nokkrir tugir einstaklinga sem falla fyrir eigin hendi ár hvert. Mig grunar að flestir landsmenn hafi þekkt einhvern sem taldi það hina réttu leið. Ef ekki eru allar líkur á því að þeir þekki einhvern sem misst hefur einhvern úr sjálfsvígi. 

Þetta virðist vera ákveðinn fasti í okkar samfélagi. Sólin skín á vinnutíma en rigning einkennir frídaga. Haustið ber með sér umferðarteppur, lægðir og enska boltann. Það er dimmt yfir vetrarmánuðina. Ár hvert munu minnst tvær tylftir stytta sér aldur. Munurinn á síðasta fastanum og hinum fyrrnefndu er að allt í lagi er að tala um þá. Um þann síðastnefnda er helst pukrað. Mannlegur harmleikur.

„Þegar óróleikinn var hvað mestur á vinnumarkaðinum í haust gengu miklar tröllasögur um sjálfsmorðsfaraldur. Voru sumar sögurnar þess eðlis að fólk fór að spyrja sig áleitinna spurninga um hvað væri eiginlega á seyði í þessu þjóðfélagi,“ sagði í frétt á forsíðu Alþýðublaðsins 5. janúar 1985

Í fréttinni er rakið hvernig sagan reyndist ekki á rökum reist. Það er á þeim tíma er „pukrað“ var um „sjálfsmorðsfaraldurinn“ var „alls ekki mikið um sjálfsvíg. Hinsvegar varð veruleg aukning á sjálfsvígum í kjölfar þessara sögusagna.“ Með öðrum orðum virðast sjálfsvíg geta verið bráðsmitandi ef ógætileg umræða um þau fer af stað. Í raun eru þau svo smitandi að stjórnvöld vinna nú að viðmiðum fyrir fjölmiðla um hvernig á að ræða um sjálfsvíg í fjölmiðlum

Ábyrg umræða einstaklinga

Vafalaust má deila um það hvort rétt sé að stjórnvöld leiðbeini fjölmiðlum um hvernig þeim beri að haga sinni umfjöllun. Það álitaefni verður látið liggja á milli hluta hér. Staðreyndin er hins vegar sú að fjölmiðlar miðla áfram upplýsingum um eitthvað sem þeir hafa heyrt, séð eða fengið staðfest annars staðar. Þó fjölmiðlar taki sig á í þessum efnum er alls ekki víst að vandinn sé úr sögunni því viðbúið er að áfram verði „pukrað“ með ógætilegum hætti í öðrum kimum samfélagsins. 

Sem dæmi um slíkt má nefna þegar sjálfsvígi er lýst sem afar eigingjarnri og óskiljanlegri athöfn. Fyrir einstakling sem hefur marinerað hug sinn í slíkum hugsunum er það ekki endilega tilfellið. Það að sálga sér getur þvert á móti virst afar rökrétt, óeigingjarnt og til þess fallið að losa aðstandendur og samfélagið við mikla byrði. (Ef einhver sem les þetta er á slíkum stað langar mig að benda á upplýsingar sem koma fram neðst í pistlinum.)

Einstaklingar, líkt og fjölmiðlar, þurfa nefnilega að gæta sín hvaða orð þeir láta falla í þessu samhengi. Geðveilur eru nefnilega þannig úr garði gerðar að oft er erfiðleikum háð að sjá á manni hvort þær hrjá hann. Kannski er það augljóst í tilfelli Pésa frænda sem varla kemst fram úr rúminu fyrir þyngd eigin hugsana en það er ekki alveg jafn augljóst að sjá það í Bíbí frænku. Sú brosir allan hringinn, frá morgni til kvölds, sinnir sinni vinnu og fjölskyldu og tekur á sig tuttugu aukaverk til þess eins að tryggja að líðan hennar nái aldrei upp á yfirborðið. Litrófið spannar síðan allt þar á milli. 

Pési og Bíbí, sem eru að sjálfsögðu uppspuni, en þó raunveruleg, upplifa sig mögulega einsömul, án stuðnings og jaðarsett. Að heyra það öðru hvoru að slík líðan sé ónáttúruleg og óskiljanleg er sjaldnast til þess að bæta úr skák. Þau þurfa göngustaf, öryggisnet og einhvern sem hlustar þó að frásögn þeirra sé óskiljanleg. Þau þurfa ekki niðurrif af hálfu annarra enda sjá þau um slíkt, ýmist í hjáverkum eða í fullu starfi. 

Við sem myndum samfélagið þurfum að geta talað upphátt um sjálfsvíg með ábyrgum hætti. Þau sem treysta sér ekki til þess eða tekst það ekki nema með óábyrgum hætti ættu í það minnsta að vera upplýst um aðila sem það gera.

Gjaldfrjáls hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allar sólarhringinn. Píeta samtökin (s. 552-2218) hafa reynst mörgum vel og þá einnig hægt að leita á heilsugæslu eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans. Utan opnunartíma hennar er hægt að leita á bráðamóttöku í Fossvogi. Prestar landsins standa einnig vaktina fyrir alla landsmenn. 

Að endingu langar mig að nefna eitt. Á næstu áratugum standa til nýframkvæmdir í vegakerfi landsins en kostnaður við þær hleypur á hundruðum milljarða. Er það vel enda löngu tímabært verkefni. Í fjármálaáætlun áranna 2020-24 er síðan stefnt að því að efla geðheilbrigðisþjónustu í þrepum en áætlað er að 4,7 milljarðar til viðbótar fari í það verkefni. Nú langar mig að benda ráðamönnum á grafið hér að neðan og spyrja hvort ekki séu einhversstaðar nokkrir kílómetrar af malbiki sem færa mætti yfir í hina flokkana tvo?

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.