Heilsa óháð holdafari?

eftir Kristinn Svansson

Um þessar mundir hefur lífleg umræða skapast um fitufordóma. Að einhverju leyti mætti segja að sú umræða eigi rætur að rekja til umdeilds viðtals sjónvarpsmannsins Sindra Sindrasonar við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Líkamsvirðingar. Tilefni viðtalsins var nýafstaðin grasrótarhátíð undir formerkjunum Truflandi tilvist. Á þeirri hátíð voru samankomnir ólíkir jaðarhópar, samkynhneigðir, fólk með fötlun, fólk af erlendum uppruna og feitt fólk til að deila reynslu sinni og snúa saman bökum í réttindabaráttu sinni. Samband þeirra kólnaði á örstundu þegar Sindri spurði Töru hvort að þeir fitufordómar sem feitt fólk yrði fyrir kæmu ekki að innan frá.

Feitt fólk sem jaðarhópur – Fórnarlambsvæðing

Hátíðin tók til margra ólíkra hópa – eins konar regnhlífarhátíð jaðarsettra hópa. Margir hafa þó staldrað við og velt því fyrir sér hvað það er sem gerir feitt fólk að jaðarsettum hópi í samfélagi okkar, sér í lagi hvað sá hópur eigi sameiginlegt með öðrum sem að hátíðinni komu. Samkynhneigðir, fólk með fötlun og fólk af erlendum uppruna eiga það sameiginlegt að þau geta ekki breytt þeim einkennum sem jaðarsetja þau. Hið sama á ekki við um feitt fólk. Þó svo að feitt fólk verði fyrir fordómum af hálfu misvitra aðila er sérkennilegt að tala um mannréttindabaráttu feits fólks. Í ofanálag benda tölur alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til þess að hér sé ekki um minnihlutahóp að ræða. Tæplega 60% fólks hér á landi er í yfirþyngd og eiga 23% þeirra við offitu að stríða.

Hugmyndin um að jaðarsetja feitt fólk vegna þeirra fordóma sem það telur sig verða fyrir, vekur upp þá spurningu hvar draga skuli línuna á milli sérkenna fólks og þess sem einkennir persónuleika þess og hinna, sem eru frábrugðnir þorra fólks vegna óumbreytilegra aðstæðna. Fólk sem hefur vegna síðastgreindra aðstæðna, þurft að berjast til að fá notið sömu réttinda og aðrir.  Haldi sú lína áfram að afmást milli ofangreindra hópa blasir við sá raunveruleiki að hver og ein manneskja er orðin að einhvers konar jaðarmanneskju vegna þeirra vankanta sem setur svip sinn á tilveru hennar. Ljótu fólki er frekar strítt, leiðinlegt fólk á færri vini, dónalegu fólki eru síður boðið eitthvert og lágvaxnir þéna minna en hávaxnir. Undarlegt væri að líta á þessa hópa sem jaðarhópa með sömu augum og við lítum á samkynhneigða eða transfólk. Með látlausri fórnarlambsvæðingu af þessu tagi verður grasrótarhátíðin Trufluð tilvist haldin hinn 17. júní ár hvert, þjóðhátíðardagur ólíkra Íslendinga.

Réttindabarátta á villigötum

Verðugt er markmið félags á borð við Líkamsvirðingu að stuðla að jákvæðari líkamsmynd fólks og láta ekki eigin digurleika skjóta loku fyrir hamingjusömu lífi. Sérhver maður, óháð holdafari, á að geta gengið lífsins veg án fordóma og njóta sömu réttinda og tækifæra líkt og næsti maður innan eðlilegra og skynsamlegra marka. Hins vegar ber að gjalda þeim boðskap varhug að heilsa þrífist fullkomlega óháð holdafari. Skilaboð hreyfingar á borð við Heilsa óháð holdafari ganga í megindráttum út á að uppræta þá almennt viðurkenndu skoðun að ýmsir lífsstílssjúkdómar sem talið er að haldist í hendur við offitu eigi ekki við rök að styðjast. Heilsa fólks sé háð öðrum þáttum en líkamsþyngd þess og með upphafningu grannvaxinna líkama sé verið að mismuna fólki í yfirþyngd.

Með öðrum orðum er boðskapur hreyfingarinnar í hrópandi ósamræmi við læknisfræðilegar staðreyndir. Meirihluti vísinda- og læknisfræðilegra rannsókna rekja óvéfengjanlega tengingu á milli offitu og alvarlegra sjúkdóma. Þrátt fyrir staðreyndarlegan ofjarl er hausnum enn barið í steininn, sannleikanum hafnað og talað um „offitufaraldurinn” innan gæsalappa, líkt og vandamálið sé ekki til. Við eigum að fara milliveginn, stíga varlega til jarðar við að gera lítið úr heilsufarslegum ókostum offitu en gæta þess jafnframt að smána ekki þá sem kljást við hana.

Í stað þess að ana út í átök við læknavísindin hlýtur að vera hægt að fallast á þá raunverulegu áhættu sem að ofþyngd hefur í för með sér á sama tíma og mikilvægi líkamsvirðingar er boðuð. Jafnframt verður að nálgast baráttuna við þá fordóma sem feitt fólk verður fyrir með bæði skyn- og hófsamari hætti. Sú ofsakennda nálgun sem við höfum séð er ekki til þess fallin að ýta undir trúverðugleika nauðsynlegrar baráttu gegn fitufordómum og því síður til þess að vinna fólk á band hreyfingarinnar. Virðing fyrir fólki fyrirfinnst án virðingar fyrir holdafari þeirra. Öfugsnúin er sú krafa að samfélagið aðlagist ósiðum fólks og lífsákvörðunum þeirra óháð því hverjar þær eru. Við getum elskað og borið virðingu fyrir reykingarfólki og alkóhólistum þó ekki sé goldið jákvæði við þeim ósiðum sem einkennir líf þeirra. Harðfylgin skulum við áfram halda í átt að frelsun hvers manns undan fjötrum óraunhæfra staðalímynda líkamlegs útlits – gerum það þó án ósanninda og öfga.

Kristinn Svansson

Pistlahöfundur

Kristinn er laganemi við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann starfar hjá Símanum í dag. Kristinn hefur mikinn áhuga á lögfræði, líkamsrækt, ferðalögum og góðum bjór. Skrif Kristins í Rómi beinast einna helst að lögfræði, sögu og málefnum líðandi stundar.