Heilsa óháð holdafari

eftir Gestahöfundur

Þann 31. júlí sl. birtist grein eftir Kristinn Svansson titluð „Heilsa óháð holdafari?“ á vefritinu Rómur, vettvangi ætlaðan ungu frjálslyndu fólki til að koma skoðunum sínum á framfæri. Greinin er uppfull af sleggjudómum og röngum upplýsingum um líkamsvirðingu, Samtök um líkamsvirðingu og þá nálgun að heilsueflingu sem ber heitið „Heilsa óháð holdafari“ eða „Health At Every Size“ (HAES). Sé ég því ástæðu til að svara þeirri grein og leiðrétta þann misskilning sem í henni birtist. Misskilning sem er þó vel skiljanlegur að mörgu leyti ef viðkomandi kynnir sér einungis heiti nálgunarinnar en ekki innihald hennar.

Til að byrja með vil ég þó fjalla um meinta fórnarlambsvæðingu feits fólks og að mannréttindabarátta þess eigi ekki jafn mikinn rétt á sér og t.d. barátta samkynhneigðra, fatlaðra og fólks af erlendum uppruna á þeim forsendum að jaðarsett einkenni þeirra séu „óumbreytanleg“. Staðreyndin er hinsvegar sú að ekki einungis er afskaplega erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir fólk að léttast og viðhalda þyngdartapi til lengri tíma heldur hafa slíkar tilraunir líkamlega og andlega skaðlegar afleiðingar. Að benda á þá staðreynd er ekki tilraun til fórnarlambsvæðingar heldur til valdeflingar. Feitt fólk er svo sannarlega jaðarhópur sem verður fyrir kerfisbundnu misrétti, um það verður ekki deilt. Fórnarlambsvæðingarspilið kemur upp aftur og aftur í þessari umræðu einmitt vegna þess hversu ríkjandi staðalmyndirnar og fordómarnir eru. Sú hugsun sem býr hér að baki, þ.e. að þeir sem verða fyrir fitufordómum eigi þá skilið vegna eigin gjörða er svo sannarlega tilefni fyrir okkur að staldra við. Ef við erum ekki sjálf feit þekkjum við öll einhvern sem er feitur, hvort sem það er foreldri, systkini, frænka, frændi eða vinur. Viðurkennum við ekki rétt þeirra til að lifa lífi sínu án mismununar og fordóma? Og erum við ekki komin á hálan ís ef við ætlum að krefja meðlimi jaðarhóps um læknisvottorð til að skera úr um hvort þeir eigi það skilið? Þessi hugsunarháttur er að mínu mati helsta vísbendingin um hversu mikil þörf er á þessari mannréttindabaráttu.

En svo við snúum okkur aftur að slökum árangri tilrauna til þyngdartaps og skaðlegra afleiðinga þeirra að þá er það einmitt ástæðan fyrir því að HAES leit dagsins ljós. HAES er heildstæð, mannúðleg og þyngdarhlutlaus nálgun að heilsueflingu og byggir á þremur meginþáttum:

  1. Líkamsvirðing: að bera virðingu fyrir eigin líkama og líkama annarra óháð þyngd, stærð eða útlits.
  2. Líkamleg hreyfing: áhersla er lögð á líkamlega hreyfingu sem færir einstaklingum vellíðan og styrk frekar en að breyta líkama sínum.
  3. Að þjálfa og fara eftir skilaboðum líkamans þegar kemur að mat: áhersla er lögð á að fara ekki eftir ytri reglum, eins og matarplönum, heldur innri merkjum líkamans um hungur og seddu.

Annað markmið er að binda endi á mismunun á grundvelli holdafars, en slík mismunun hefur einnig neikvæðar líkamlegar og andlegar afleiðingar.

Þrátt fyrir algengan misskilning þess efnis að verið sé að afneita þeirri staðreynd að holdafar geti verið áhættuþáttur fyrir verri heilsu er það ekki svo. Þó hefur verið bent á að um áhættaþátt, en ekki orsakaþátt, sé að ræða og sú orðræða að fylgni jafngildi orsakasambandi þegar kemur að tengslum holdafars og heilsufars því réttilega gagnrýnd. Hvernig sem áhættunni er farið er þó eitt ljóst; við getum ekki haldið áfram að berja höfðinu við stein og beitt nálgunum sem skaða líkamlega og andlega heilsu fólks og ýta undir mismunun og fordóma ef betri lausnir eru til staðar. Að sjálfsögðu er enginn að halda því fram að heilsa sé fullkomlega ótengd holdafari þegar við höfum fylgnirannsóknir sem sýna fram á hið gagnstæða. Hinsvegar er það staðreynd að allir geta tekið upp betri heilsuvenjur og eflt heilsu sína óháð holdafari, þ.e. þyngdartap þarf ekki að verða til þess að við sjáum bætingu á heilsufari.

Rannsóknir hafa sýnt að HAES skilar meiri árangri í heilsubætingu til langs tíma en hefðbundnari nálganir sem einblína á þyngd. Í ljósi þess erum við að sjá breytingar verða á lýðheilsunálgunum víða um heim, meðal annars hér á landi. Í minnisblaði vinnuhóps Landlæknisembættisins um aðgerðaráætlun til að draga úr tíðni offitu er sérstaklega tekið fram að við innleiðingu aðgerða þurfi því að leggja áherslu á að þær stuðli allt í senn að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan en verði ekki til þess að auka neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar. Þvert á móti sé mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti í samfélaginu þar sem slæm líkamsmynd og fordómar vegna holdafars geta haft neikvæð áhrif á heilsutengda hegðun, heilbrigði og líðan. Því sé ráðlagt að aðgerðir stjórnvalda felist í eflingu heilbrigðra lifnaðarhátta á breiðum samfélagslegum grundvelli án sérstakrar áherslu á offitu eða líkamsþyngd.

Allar ásakanir um að boðskapur Samtaka um líkamsvirðingu sé í ekki í samræmi við heilsueflingu og á villigötum eiga því ekki rétt á sér. Stríðið gegn offitu hefur valdið meiri skaða en nokkurn tímann gagni og því er eðlilegt að við breytum um stefnu grundvallaða á gagnreyndum upplýsingum. Læknavísindin eru sífellt að þróast og besta þekking sem við höfum hverju sinni sömuleiðis. Eðlilegt er að við sláum varnagla þegar þeirri þekkingu sem við höfum alist upp við er snúið á hvolf eins og í þessu tilfelli. Hér gildir hinsvegar það sama og í annarri málefnalegri umræðu; við þurfum að ganga fram með virðingu, opinn huga, forvitni og fróðleiksþorsta að leiðarljósi en ekki sleggjudómum.

 

 

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir er 30 ára gömul og félagsráðgjafi MA. Hún er stofnmeðlimur og formaður Samtaka um líkamsvirðingu og brennur fyrir líkamsvirðingu, lýðheilsu og að benda fólki á forréttindi sín. Hún einblínir sérstaklega á einn anga líkamsvirðingarbaráttunnar, mannréttindabaráttu feitra og slær sjaldnast slöku við á því sviði.

 

 

 


Ítarefni og heimildir:

„What is Health at Every Size“ eftir Deb Burgard https://books.google.is/books?hl=en&lr=&id=HmQTCgAAQBAJ&oi=fnd&pg=PA42&dq=health+at+every+size&ots=x7SuQB-eL7&sig=xdsLiEIqlF8KeWnjlocz4pZMwPA&redir_esc=y#v=onepage&q=health%20at%20every%20size&f=false

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1681635/

https://nutritionj.biomedcentral.com/articles/10.1186/1475-2891-10-9

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3935663/#bib5

https://www.nytimes.com/2016/05/08/opinion/sunday/why-you-cant-lose-weight-on-a-diet.html

https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit_2013/adgerdaraaetlun-til-ad-draga-ur-tidni-offitu.pdf

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item28261/Holdafarsford%C3%B3mar_lokaskjal_des.2015.pdf