Heilinn þinn á lyfjum

eftir Ágúst Ingi Guðnason

Hvað ef það væri hægt að taka töflu til að verða einbeittari eða gáfaðari? Hljómar eins og plottið í myndinni “Limitless” en gæti þó verið spurning til að staldra við.

Í dag er orðið þekkt að nemendur í háskólum á Íslandi og erlendis misnota lyfseðilskyld lyf með það í huga að auka hugræna getu sína. Stúdentablaðið tók viðtal árið 2016 við nemendur í HÍ varðandi slíka notkun. Einnig var unnið lokaverkefni við HA ári áður um viðhorf nemenda til notkunar á lyfseðilskyldum lyfjum við lærdóm.

Hugtakið “nootropic” eða “cognitive enchancer” eru lyf sem ætluð eru til að auka hugræna getu og eru þróuð sem meðferð við ýmsum sjúkdómum og rannsökuð sem slík. Þetta eru t.d. sjúkdómar á borð við ADHD, Alzheimer og drómasýki. Sum þessara lyfja eru ný af nálinni og afkvæmi lyfjafræðibyltingar 20. aldarinnar, t.d. Methylpenidate, Modafinil og Piracetam. Önnur lík efni hafa verið notuð af manninum frá örófi alda og eru jafnvel hluti af menningu okkar eins og kaffi. Lyf sem eru hvað mest misnotuð á Íslandi eru Concerta og Ritalin en RÙV fjallaði um notkun Íslendinga á þessum lyfjum árið 2016. Misnotkun Modafinils í sama tilgangi er þekkt á Íslandi sem og erlendis. Tilgangur nemenda með notkun slíkra lyfja er tilraun til þess að auka þrautseigju og úthald t.d. við prófalestur eða vegna verkefnaskila.

Verkanir og aukaverkanir algengustu lyfjanna

Þeir sem misnota þessi lyfseðilsskyldu lyf gera það oft hálfs hugar og byggja ákvörðun sína aðeins á reynslusögum annarra af slíkri notkun. Rannsóknir eru enn í dag oft ósammála um hjálpsemi slíkra lyfja fyrir heilbrigðan einstakling. Óupplýst notkun slíkra efna er varhugaverð því það lyf sem er án aukaverkanna er óhugsandi.

Methylphenidate

  • Lesendur ættu að þekkja það undir heitunum Rítalín eða Concerta og er örvandi lyf (e. stimulating drug) sem m.a. er notað til meðferðar ADHD. Methylphenidate örvar miðtaugakerfið meðal annars með því að auka magn dópamíns og noradrenalíns í heila. Lyfið virkar vel fyrir þá sem þjást af ADHD og virðist auka einbeitingu og minnka ofvirkni. Fyrir þá sem hafa ekki þörf fyrir lyfið hafa áhrifin þó verið takmörkuð og rannsóknir sýnt takmarkað. Lyfið virðast því aðeins virka fyrir þá sem þurfa mest á því að halda og sumir gætu í raun haft bein ónot af því. Aukaverkanir Methylphenidate eru m.a. höfuðverkur, magaóþægindi, svefnleysi og í sumum tilfellum neyðast einstaklingar til að hætta notkun lyfsins vegna þeirra. Helsti ókostur lyfsins eru þó ávanabindandi eiginleikar þess en misnotkun á því er nokkuð algeng. En Rítalín er eitt mest misnotaða lyfið á Íslandi.

Modafinil

  • Modafinil er andvöku hvetjandi lyf (e. wakefulness-promoting agent) og er notað við ýmsum svefnröskunum svo sem drómasýki. Virkni Modafinils er talin svipa til annarra örvandi lyfja en þó er mörgum spurningum ósvarað í þeim málum. Modafinil virðist minnka endurupptöku frumna á dópamíni og noradrenalíni og þar með auka framboð þessara efna utan frumna. Einnig hefur Modafinil afleidd áhrif á fleiri taugaboðefni. Modafinil er talið hafa lága líkamlega ávanabindandi eiginleika en þó er ekki hægt að útloka sálrænan ávana (e. psychological dependence). Áhrif Modafinils á hugræna getu í heilbrigðum einstaklingum er enn nokkuð umdeild og rannsóknir hafa ekki gefið eina skýra niðurstöðu. Áhrifin ef einhver eru talin mest í svefnlausum einstaklingum en í úthvíldum virðist Modafinil takmörkuð og  breytileg á milli rannsókna. Aukaverkanir eru höfuðverkur, svefnleysi, lystarleysi, ógleði og skapstyggð. Þá er helsti ókostur Modafinils að lítið er vitað um áhrif langtíma notkunar og á heilbrigða einstaklinga.

Rannsóknir á ofangreindum lyfjum eiga þó eitt sameiginlegt. Flestar hafa sýnt fylgni milli misnotkunar á þeim og tengsl við annan vanda. Þá sérstaklega vímuefnavanda.

Tvö önnur efni er vert að minnast á en bæði eru algeng til neyslu í dag. Það er góðkunna kaffið og nikótínið en bæði þessi efni hafa áhrif á miðtaugakerfið.

  • Kaffi, einn vinsælasti drykkur heims. Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur kaffi efnið koffín. Áhrif koffíns á miðtaugakerfið hafa verið þekkt í aldanna rás en koffín flokkast sem örvandi efni og er án efa eitt mest notaða örvandi efnið í dag. Áhrif koffíns felast m.a. í hindrun þess á viðtaka boðefnisins adenósín, þó hefur koffín einnig víðtækari áhrif. Koffín virðist hafa jákvæð áhrif á árvekni og athygli í einföldum verkefnum. Áhrif á nám og minni eru þó takmörkuð en eru mest í vansvefta eða þreyttum viðfangsefnum. Áhrif koffíns eru almennt talin vera frekar jákvæðari en neikvæð. Neikvæðu áhrifin koma þá helst í ljós ef koffíns er neitt í óhóflegu magni.
  • Nikótín er einnig örvandi efni og hefur víðtæk áhrif á heilastarfsemina en sú áhrif eru helst í gengnum acetýlkólínviðtakann. Slíkir viðtakar eru dreifðir víða um heilann og eru m.a. hluti af kerfum heilans sem taka þátt í lærdómi, minnisfestingu og athygli. Rannsóknir hafa sýnt að nikótín getur aukið vægt hugræna getu í bæði sjúkum og heilbrigðum. Hins vegar er nikótín þekktast fyrir ávanabindandi eiginleika og margar milljónir manna eru háðir því og notkun þess er gríðarlega kostnaðarsöm fyrir samfélög um allan heim. Nikótín hefur skaðleg áhrif á mörg líffærakerfi svo sem hjarta- og æða-, öndunarfæra-, meltingarfæra- og ónæmiskerfið. Ásamt því hefur nikótín áhrif á frjósemi og síðast en ekki síst er það krabbameinsvaldandi. Að lokum má ekki gleyma að ýmsar aðrar leiðir eru til að auka hugræna getu svo sem með hreyfingu og réttu mataræði.

Aukning viðbúin á næstu árum

Þróun lyfja sem hafa áhrif á hugræna getu munu að öllum líkindum ekki dragast saman á næstu árum heldur mætti frekar búast við aukningu. Við sem samfélag erum að eldast og því fylgir aldurstengd hrörnun heilans og hinir ýmsu hrörnunar- og taugasjúkdómar svo sem hinn alkunni sjúkdómur Alzheimer. Einnig erum við enn að leita að svörum við sjúkdómum sem koma fyrr á lífsleiðinni og hafa áhrif á hugræna getu svo sem geðklofi. Uppgötvun á fullkomnu slíku lyfi með takmörkuðum aukaverkunum getur haft kosti fyrir samfélagið í heild. Það hins vegar verður að teljast fjarlægur draumur og ekki má gleyma að slík uppgötvun getur verið tvíeggja sverð.

Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja til að auka árvekni og athygli virðist vera komin til að vera og mörgum spurningum varðandi notkun slíkra lyfja er enn ósvarað. Viljum við sem samfélag líta á misnotkun þessara lyfja á svipaðan hátt og steranotkun í íþróttum? Eða á notkunin að vera leyfð með það í huga að fá yfirsýn yfir hana? Sjáum við kannski fram á framtíð sem gerir kröfu um notkun til að viðhalda samkeppnishæfni?

Þegar allt kom til alls sat þó undirritaður langt fram á nótt skrifandi þessa grein með heitan kaffibolla við höndina.

Ágúst Ingi Guðnason

Pistlahöfundur

Ágúst Ingi er 5. árs læknanemi í Háskóla Íslands og starfar á geðsviði Landspítalans. Hann er varaformaður Hugúnar geðfræðslufélags og fyrrverandi gjaldkeri sama félags. Einnig hefur hann setið sem varamaður í stúdentaráði og fulltrúi nemenda í kennslunefnd heilbrigðisvísindasviðs. Áhugamál Ágústs Inga eru læknisfræði, taugavísindi og sagnfræði.