Heilbrigði – ekki hvort heldur hvernig

eftir Páll Óli Ólason

Þann 29. október næstkomandi verða haldnar Alþingiskosningar og liggur fyrir að á annan tug flokka munu bjóða sig fram. Keppast þessir flokkar nú við að gera sig til fyrir téðar kosningar með mismunandi hætti. Þeir flokkar sem nýir eru af nálinni reyna að koma sér á framfæri og vinna í sinni málefnavinnu, á meðan aðrir halda sín prófkjör og eru listar þeirra í óða önn að fyllast. Þegar listarnir liggja fyrir hefja einstaklingarnir sem hlotið hafa brautargengi innan sinna flokka að leggja línur um það sem þeir vilja sérstaklega berjast fyrir með hliðsjón af stefnumálum flokks síns.

Það verður spennandi að sjá hvað flokkar landsins munu gera ef þeir ná kjöri. Einkum er þó einn málaflokkur sem þarfnast sérstakrar umræðu: heilbrigðismálin. Stafar sú þörf bæði af lífsnauðsyn þess að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki, og að yfirborðskennd umræða og loforð um málaflokkinn hafa varið stjórnmálamönnum frá því að þurfa raunverulega að standa við orð sín. Hér er því ekki nóg að koma með stefnumál heldur þarf að stíga skrefinu lengra.

Mál númer eitt

Heilbrigðismálin hafa frá síðustu alþingiskosningum í apríl 2013 farið mikinn í umræðu á samfélagsmiðlum, í fréttum, heitapottum og víðar. Nóg er af taka, til að mynda uppbygging nýs Landspítala og staðsetning hans, greiðslukerfi sjúklinga og bág staða heilsugæslunnar, svo eitthvað sé nefnt. Slíkt var ástandið að þjóðþekktur einstaklingur hrinti af stað undirskriftarsöfnun til að bæta auma stöðu kerfisins sem endaði með að um fjórðungur þjóðarinnar skrifaði undir, sem er fjölmennasta söfnun sem gerð hefur verið hér á landi.

Eins hafa fréttir líðandi stundar sýnt bága stöðu heilbrigðiskerfisins og sjúklinga innan þess. Fréttir af ungu fólki sem fengið hefur krabbamein og þurft að borga töluvert af sinni meðferð úr eigin vasa á meðan slík meðferð er endurgjaldslaus í nágrannalöndunum sem og fréttir af plássleysi á Landspítala eru algengar á fréttamiðlum. Er slíkt ástand langt frá því að vera boðlegt í landi sem talið er hafa eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum í dag. Þetta vandamál er ekki nýtt af nálinni. Þannig hefur verið talað um að heilbrigðiskerfið hafi ekki verið þátttakandi í góðærinu en þegar kreppan skall á hafi það fengið skellinn.

Núverandi ríkisstjórn hefur gefið þessu gaum og lagt fram tillögur til að laga vandann þó ekki hafi allir verið sammála um þessar leiðir. Þær eru ekki til umræðu í þessum pistli heldur er hér horft til framtíðar, og á þá staðreynd að nú þegar stjórnmálaflokkarnir standa í sinni málefnavinnu ætti að setja heilbrigðismálin í fyrsta sæti. Þau hafa of lengi setið á hakanum.  

Fjögurra ára hugsunin

Öll þurfum við á einhverri heilbrigðisþjónustu að halda einhvern tímann á lífsleiðinni. Hvort sem það er þegar við komum í heiminn, lendum í slysum eða fáum sjúkdóma, er það svo að heilbrigðiskerfið þarf að vera í stakk búið til að sinna okkur. Þannig þarf kerfi sem býður ekki upp á mismunun, heldur kerfi sem getur tekið á móti þeim sem sjúkir eru, og almenn og þverpólitísk sátt er um.

Ákvarðanir ríkisstjórnar hvers tíma þurfa því að vera vel ígrundaðar hvað heilbrigðismálin varðar. Í þeim efnum er réttast að horfa fram hjá skyndilausnum sem virka kannski vel í nokkur ár en eru ekki meira en lítið bót á gatið. Dæmi um það sem tekur mörg ár að sjá árangur frá eru forvarnir. Með því að fá fólk til að forðast óheilbrigt líferni í æsku skilar það í betri heilsu á efri árum, t.d. með því að draga úr reykingum og sleppa þannig við sjúkdóma seinna meir. Vandamálið við slíkar aðgerðir, þó þær séu bæði árangursríkar og ódýrar, er að kjörtímabilið varir aðeins fjögur ár. Stjórnmálamönnum getur því hætt til að horfa aðeins á sitt kjörtímabil til að koma með lausnir og sýna árangur þó það sé ekki besta lausnin til langs tíma. Forvarnir eru þannig svakalega óspennandi þrátt fyrir árangur þeirra.

Stefnumál stjórnmálaflokkanna

Á heimasíðum flokkanna má finna stefnumál þeirra. Ef skoðaðar eru nýjustu stefnur og/eða ályktanir sjö stærstu flokkanna sést samhljóma grunnur um að heilbrigðiskerfið þurfi að efla. Nánar um þeirra stefnumál má finna hér:

Björt framtíðÁrsfundur, 5. september 2015.
Allir landsmenn hafi öruggt aðgengi að grunnþjónustu, greiðsluþátttaka lágmörkuð. Heilsugæslan verði efld sem fyrsti viðkomustaður einstaklinga. Heilsuefling og forvarnir í öll svið samfélagsins. Skaðaminnkandi inngrip fyrir jaðarhópa. Aðgerðaráætlun um bætta geðheilbrigðisþjónustu. Sérstök áhersla á börn og aldraða.

FramsóknFlokksþing, apríl 2015.
Heilbrigðiskerfi áfram í fremstu röð. Jafnt aðgengi óháð búsetu. Efling heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Minnka þátttöku einstaklinga í lyfjakostnaði. Styrkja heilsugæsluna og að hún verði fyrsti viðkomustaður einstaklinga. Mótun nýrrar geðheilbrigðisstefnu. Sérstök áhersla á börn og aldraða.

PíratarAlmenn heilbrigðisstefna, 11. júlí 2015.
Langtíma heilbrigðisáætlun. Jafn aðgangur óháð almennings óháð aldri, búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Auka þjónustu við landsbyggðina.

SamfylkingAukalandsfundur, 3-4. júní 2016.
Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Efling heilsugæslu sem grunnþátt. Efla aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu. Vel sé búið að öldruðum og fötluðum.

SjálfstæðisflokkurLandsfundur, október 2015.
Efla heilbrigðisstofnanir um land allt. Ítarleg heilbrigðisáætlun. Lækka lyfja- og sjúkrakostnað einstaklinga. Efling heilsugæslunnar. Áhersla á forvarnir og heilsueflingu. Efla forvarnir og móta stefnu í geðheilbrigðismálum. Auka aðstoð við aldraða.

ViðreisnDrög í vinnslu.
Réttur allra landsmanna til heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Greiðsluþátttaka byggð á sanngirni.  Beita forvörnum í meira mæli. Aukin áhersla á meðhöndlun geðrænna vandamála.

Vinstri grænLandsfundur, október 2015.
Ókeypis heilbrigðisþjónusta. Lækkun lyfjakostnaðar. Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir landið allt. Öflug heilsugæsla. Öflugar forvarnir. Hrinda af stað stefnumörkun í geðheilbrigðismálum.

Flokkarnir eru þannig sammála um nauðsyn þess að allir hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, styrkja heilsugæsluna, lágmarka greiðsluþátttöku einstaklinga, leggja áherslu á forvarnir og efla geðheilbrigðisþjónustu, auk bættrar þjónustu við aldraða. Hvort þetta verði nákvæmlega stefnumál þessara flokka vitum við ekki en listarnir eru langir og innihalda margt spennandi sem gaman væri að sjá framkvæmt. Það liggur því fyrir að flokkarnir eru að sjá sömu vandamálin en hvað þarf þá til?

Ekki hvað heldur hvernig?

Það er mjög auðvelt að setja stefnumál niður á lista. Hins vegar getur verið töluvert erfiðara að koma þeim í framkvæmd og því vil ég setja pressu á stjórnmálaflokkana. Hvernig ætla þeir að koma sínum málum í framkvæmd? Hafa þeir velt því fyrir sér hvort hægt sé á annað borð að koma þeim í framkvæmd? Eru þetta kannski stefnumál sem eiga heima í fjarlægri útópíu?

Fyrir þessar kosningar vil ég sjá flokkana leggja fram aðgerðaráætlun um hvernig þeir ætli að leysa vandamálin sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir. Það ætti ekki að vera flókið, Ísland er ekki eina landið með heilbrigðiskerfi, þannig einhvers staðar er hægt að finna fordæmi fyrir lausnum á vandanum. Lausnunum mætti síðan velta fyrir sér áður en þing kemur saman og þannig rökrætt um hversu góðar þær séu. Eins væri það frábært ef tilvonandi Alþingisfólk myndu taka upp þann sið að hlusta á skoðanir annarra og jafnvel líta á þær með bjartsýnisgleraugunum í stað þess að dæma hugmyndir kollega sinna úr öðrum flokkum sem slæmar.

Of langur tími hefur farið í þras um hvað þurfi að gera þegar það liggur í augum uppi að flokkarnir eru meira og minna sammála um hvað þurfi að bæta. Of lengi hafa stjórnmálaflokkarnir lofað betrumbætum en skilað litlu þegar á hólminn er komið. Það er kominn tími til að setjast niður og ræða málin út frá lausnamiðaðri hugsun til frambúðar. Með því væri loksins hægt að ná fram þverpólitískri sátt um jafn mikilvægt málefni og heilbrigðismálin eru en það er í mínum huga ekki aðeins mikilvægt heldur lífsnauðsynlegt.

 

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.