Heilbrigðiskerfi fyrir hvern?

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Embætti Landslæknis gaf út skýrslu um tíðni aðgerða í einkarekinni þjónustu á Íslandi sem var birt opinberlega þann 6. september. Þar kemur m.a. fram að fjöldi aðgerða sé mögulega tengdur fjölda viðkomandi sérgreinalækna á samningi við SÍ sem framkvæma aðgerðirnar frekar en að hann sé tengdur þörfum sjúklinga. Með öðrum orðum benda niðurstöður skýrslunnar til þess að hér á landi sé framkvæmt töluvert af óþarfa aðgerðum á meðan biðlistar fyrir nauðsynlegum aðgerðum eru enn til staðar. Því fleiri samningar sem gerðir eru við lækna innan ákveðinnar greinar, því fleiri aðgerðir virðast vera framkvæmdar. Það gefur óhjákvæmilega tilefni til að staldra við. Í skýrslunni kemur m.a. fram:

Hálskirtlatökur

Tíðni hálskirtlataka á Íslandi er u.þ.b. þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Nánast allar þessar aðgerðir eru gerðar af sérfræðingum á stofu og greitt er fyrir hverja aðgerð samkvæmt rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) sem sérgreinalæknar gerast aðilar að. Samkvæmt skýrslu McKinsey ráðgjafyrirtækisins var fjöldi hálskirtlataka á Íslandi mun hærri en í nágrannalöndunum. Frá árinu 2007 hefur fjöldi aðgerða í aldurshópnum 0-4 ára margfaldast. Sú spurning vaknar hvort fjöldi aðgerða sé mögulega tengdur fjölda viðkomandi sérgreinalækna á samningi við SÍ sem framkvæma þessar aðgerðir frekar en að hann sé tengdur þörfum sjúklinga.

Fjöldi hálskirtlataka 0-4 ára barna hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum

Ristilspeglanir

Gríðarleg aukning hefur orðið á fjölda ristilspeglana síðan 2010 og er tíðni þeirra mun hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Aðgerðum hefur fjölgað mest hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum, eða um tæplega 160% á árunum 2008-2015. Tölur um nýgengi eða dánartíðni á ristilkrabbameini hér á landi hafa samt sem áður verið óbreyttar á síðustu árum og má því ætla að sú mikla aukning á ristilspeglunum hér sé að verulegu leyti vegna svokallaðra einkennalausra ristilspeglana. Fjölgunin skýrist m.a. af því að byrjað var að skima fyrir ristilkrabbameini hjá 50 ára og eldri en þar sem skimunin var verulega óskipulögð er ekki hægt að taka mark á niðurstöðunum. Ráðgjafahópur landlæknis komist þó að þeirri niðurstöðu að ekki beri að ristilspegla einkennalaust fólk sem ekki tilheyrir áhættuhópum, nema að undangenginni hægðaprufu sem er jákvæð fyrir blóði. 

Rör í eyru barna

Tíðni rörísetninga í börn undir 4 ára hefur farið heldur vaxandi þrátt fyrir bólusetningu. Árið 2011 var farið að bólusetja íslensk börn fyrir pneumókokkum sem er ein algengasta og erfiðasta orsök fyrir eyrnabólgum og öndunarfærasýkingum hjá börnum. Af þessu hefði mátt vænta að tíðni rörísetninga hjá börnum hefði lækkað. Raunin hefur orðið önnur, tíðni rörísetninga hefur samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins farið heldur vaxandi eftir að bólusetning hófst. Um 80% rörísetninga barna undir 4 ára eru gerðar af sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum.

Speglanir á hné

Á síðustu árum hafa greinar í virtum vísindatímaritum birt niðurstöður sem benda til þess að liðspeglun á hné með tilheyrandi liðhreinsun hjá einstaklingum 50 ára og eldri beri í besta falli engan árangur og geti jafnvel flýtt fyrir þörf á liðskiptaaðgerð. Árið 2009 varaði Embætti landlæknis lækna við hugsanlegri ofnotkun á þjónustunni vegna þess að tíðni hnéspeglana var svo há hér á landi. Fulltrúi bæklunarlækna sagði fulla ástæðu oft vera til þess að spegla hné hjá 50 ára og eldri og þá sérstaklega til þess að meta aðstæður fyrir væntanleg liðskipti. Embætti landlæknis telur þó að speglanir á hné eigi betur heima á opinberum sjúkrahúsum þar sem liðskipti séu eingöngu framkvæmd þar. Því telur embættið sterkar vísbendingar fyrir því að liðspeglanir á hné séu framkvæmdar í of miklum mæli hér á landi og að gangreyndri læknisfræði sé ekki fylgt í þeim efnum.

Oflækningar vs. vanlækningar

Niðurstöðurnar að ofan benda til þess að tíðni þessara aðgerða sé mun hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Ætla má að kostnaður við þessar aðgerðir skipti hundruðum milljóna. Í mars 2016 var auknu fjármagni veitt til Landspítalans að stytta biðlista fyrir liðskiptaaðgerðum, augasteinsaðgerðum og hjartaþræðingum. Átakið nær til þriggja ára og hefur nú náðst að fjölga liðskiptaaðgerðum og augasteinsaðgerðum en þó ekki hjartaþræðingum. Af framangreindu er ljóst að það þarf að halda áfram að setja fjármagn í verkefni þar sem biðlistar eru langir. Að sama skapi mætti draga úr fjármagni í aðgerðir sem framkvæmdar eru í of stórum stíl.

Herða þarf eftirlit með þjónustunni og setja varnagla á ef grunur vaknar um hugasnlegar oflækningar líkt og rakið er hér að ofan. Heilbrigðiskerfið á að vera sniðið að þörfum sjúklinga, ekki starfsfólksins. Fjármagnið ætti að fara þangað sem þörf er á, ekki út í loftið.

 

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.