Háskóli Íslands er í 201-250 sæti, en…

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Háskóli Íslands er í 201-250 sæti yfir bestu háskóla heims samkvæmt lista Times Higher education sem birtist síðasta sumar.

Times Higher Education er alþjóðlegur matslisti sem dæmir háskóla heims eftir fjölda þátta.
Frammistaða skólanna er flokkuð í fimm svið, en þau eru; kennsla (teaching), rannsóknir (research), tilvitnanir (citations), alþjóðlegar horfur (international outlook) og tekjur úr iðnaði (industry income).

Árangur Háskóla Íslands er mjög góður og klýfur hann upp listann ár frá ári. En hvað er það sem gerir kemur Háskóla Íslands í þetta sæti?

 

Eins og sjá má á myndinni skorar skólinn hæst í flokki tilvitnanna en lang lægst í gæði kennslu. Flokkurinn tilvitnanir stendur fyrir það hversu mikið er vitnað í fræðimenn háskólans og rannsóknir á þeirra vegum í ritrýndum fræðigreinum. Þetta er til marks um það mikla og góða rannsóknarstarf sem á sér stað í háskólanum, Íslenskri erfðagreiningu, Landspítala háskólasjúkrahúss og fleiri tengdra aðila. Vægi þessa þáttar er þriðjungur af heildareinkunn skólans.

Háskóli Íslands skorar hins vegar einungis 19,5 stig í flokknum kennslu. Allir þeir skólar sem sitja í sama sæti og Háskóli Íslands skora hærra í gæði kennslu en umræddur skóli. Einnig þeir skólar sem sitja í sæti 251-300. Af 1.102 háskólum í úttekt Times Higher Education er Háskóli Íslands 767 sæti hvað varðar gæði kennslu.

Þessar niðurstöður ríma við það sem mér finnst, sem nemanda í skólanum. Gæði kennslu er verulega ábótavant. Kennslumál eru margt líkari 20. öldinni en þeirri 21. Kennsluhættir eru að einhverju leiti staðnaðir á meðan að tækniframfarir, miðlun upplýsinga og atvinnulífið er á stöðugri hraðferð.

Háskóli Íslands er opinber háskóli og eru kennslumál því háð úthlutuðu fjármagni ríkisins að mest öllu leiti. Eftir áralanga baráttu fékk skólinn aukið fjármagn í síðustu fjárlögum fyrir árið 2018. Áhersla stjórnvalda á síðustu árum hefur fyrst og fremst verið efla samskeppnissjóði og þar með rannsóknarstarf háskólanna. Því er nú lag að þessir auknu fjármunir renni til náms og kennslu.

Það er stór og mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands að ná sæti á þessum virta lista. Það að hafa aðra skóla til samanburðar eins og á þessum lista ætti að vera virka sem hvatning fyrir háskólann til að gera enn betur. Það er greinilegt hvar tækifærin liggja og það eru fyrst og fremst í breyttum og betri kennsluháttum. Í Háskóla Íslands starfar heilt svið, Menntavísindasvið, sem sérhæfir sig í kennslu og menntun. Það væri ágætt fyrsta skref fyrir restina af háskólanum að læra af því góða fólki sem þar starfar.

Rannsóknir og tilvitnanir í fræðigreinum eru góðra gjalda verð og mikilvæg fyrir alhliða menntastofnun eins og Háskóla Íslands. En þær eru til lítils ef þeir sem starfa í háskólanum eiga erfitt með að koma sinni þekkingu til skila til þeirra sem þar læra.

Elísabet Inga Sigurðardóttir

Pistlahöfundur

Elísabet Inga er laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands. Samhliða náminu starfar hún sem fréttamaður. Á fyrstu árum laganámsins sat hún sem formaður Vöku fls. og var einnig varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.