Háskólar heimta

eftir Þorsteinn Friðrik Halldórsson

Háskólar eru undirfjármagnaðir og við þurfum að gera eitthvað í því. Menntun er mikilvæg vegna þess að hún er grundvöllur nýsköpunar og er nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Eða er þetta ekki annars rullan?

Reglulega erum við minnt á það að háskólar þurfi meira fjármagn. Eins og Landspítalinn. Og lögreglan. Og reyndar Vegagerðin líka. Það er svo sem ekki við öðru að búast enda hafa embættismenn engann hvata til þess að auglýsa úti um allan bæ að þeir hafi úr nægu að moða. Ákallið ber ekki alltaf árangur en herferðir ríkisstofnana fyrir auknu fjármagni geta samt sem áður haft áhrif á það hvernig almenningur sér stöðu þeirra.

Slíkar herferðir geta jafnvel mótað tungumálið. Ég stend sjálfan mig stundum að því að nota orðið „undirfjármögnun” en þegar leitað er eftir orðinu („undirfjár*, til að fá stærra mengi), á einum helsta fréttamiðli landsins kemur í ljós að orðið var varla notað að neinu ráði fram fram að árinu 2011. Fyrir það var notkunin strjál, stundum engin yfir heilt ár, en leitarniðurstöðurnar voru orðnar fimm árið 2015 og 20 árið eftir.

Kallað hefur verið eftir því að framlög ríkisins verði hlutfallslega jöfn því sem gangi og gerist á Norðurlöndum. Annars muni „viðvarandi undirfjármögnun háskólanna draga úr framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfni landsins.”

„Há­skól­ar á Íslandi eru því í for­dæma­lausri stöðu. Niður­skurður síðustu ára og viðvar­andi und­ir­fjármögn­un ógn­ar öllu starfi há­skól­anna og kem­ur í veg fyr­ir nauðsyn­lega þróun,” segir í bréfi frá rektorum háskólanna sem var sent á þingmenn í desember.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Orðið „undirfjármögnun” verður ekki skilið öðruvísi en að fjármagnið sem skólinn hefur milli handanna nægi honum ekki til þess að ná tilteknum markmiðum í menntun nemenda. Þá vaknar spurning um hvað verði gert við umbeðið fjármagn og hvernig það hafi marktæk áhrif á framþróun í samfélaginu og samkeppnishæfi landsins. Þess konar útlistun fylgir sjaldan með fréttatilkynningunum.

Um menntun, eins og svo margt annað, gildir að ábatinn sem hlýst af aukinni framleiðslu er ekki línulegur heldur fer hann dvínandi. Í samfélagi sem er algjörlega ómenntað á háskólastigi getur skipt sköpum fyrir hagsæld þess að mennta 10% þjóðarinnar en það fæst ekki jafn mikið úr því að mennta síðustu 10% í samfélagi þar sem 90% fólks er nú þegar menntað.

Segjum að Háskóli Íslands notaði aukalegt fjármagn til þess að fækka nemendum á hvern kennara úr 24 í 20 (þetta eru uppspunnar tölur) og að halda úti einni námsbraut sem jafnframt stendur til boða í háskólum erlendis. Hversu mikil eru áhrifin á framþróun og samkeppnishæfi landsins þegar upp er staðið? Sönnunarbyrðin er nokkuð þung því fjármagn getur aðeins verið á einum stað á hverjum tímapunkti. Það sem er notað í eitt er ekki notað í annað. Það getur verið að háskólarnir séu undirfjármagnaðir en málflutningur þeirra fyrir því er algjörlega ófullnægjandi.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

Pistlahöfundur

Þorsteinn Friðrik Halldórsson er hagfræðingur sem starfar sem blaðamaður. Hann hefur ritstýrt Hjálmum, tímariti hagfræðinema, setið í ritstjórn Stúdentablaðsins og situr nú í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Skrif Þorsteins í Rómi hafa oftar en ekki hagfræðilegan snertiflöt við stjórnmál.