Háskólanemi líkir námslokum við lok afplánunar

eftir Gestahöfundur

Hefurðu verið að undirbúa jarðveg lífs þíns með háskólanámi? Langar þig í nýjan bíl? Langar þig að eignast heimili? Langar þig að stofna fjölskyldu? Eða langar þig kannski bara að hætta lifa á lánum og fara skapa eigin tekjur? Já einmitt, mig líka og þess vegna skrifaði ég þennan pistil. Síðast þegar ég skrifaði pappír fyrir internetið endaði það reyndar þannig að Þór Saari lét mig heyra það og mér boðið í Harmageddon. Ég á ekki von á slíkum kanónubombum núna en sjáum til. Þessar hugleiðingar eru kannski ekki eins harðsnúnar eins og margt annað sem skrifað er hér á þessum ágæta pósti en eftir dvöl innan veggja tveggja íslenskra háskóla fram á síðþrítugsaldur er gott að staldra við og hugsa.

 

Atvinnulífið

Atvinnulífið. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt þegar þeir reynslumeiri tala til háskólanema um að ”svona sé þetta nú út í atvinnulífinu”, “þú munt reka þig á þetta í atvinnulífinu vinur”, “þetta mun reynast mikilvægt veganesti út í atvinnulífið” svona eins og maður hafi aldrei pælt í því að einhvertímann muni háskólaárin enda. Allir pólitíkusar tala um, í hverri einustu kosningabaráttu, að efla mátt og megin atvinnulífsins, í stefnum allra háskóla á Íslandi er mikið lagt upp úr tengslum við atvinnulífið, við höfum hagsmunasamtök um atvinnulífið o.s.frv. Það sem ég er að reyna að segja hérna er að ég er búinn að vera með þetta orð á heilanum síðan ég var tvítugur og byrjaði í háskóla. Atvinnulífið.

 

Að ganga út um stóru hliðin

Ég veit ekkert hvernig það er að koma frjáls út úr fangelsi og þurfa að koma fótunum undir sig á nýjan leik og ekki ætla ég að fara að í þann samanburð en mér líður, núna við námslok, eins og manninum sem Bubbi söng um, “í hvaða helvítis átt, gengur maður þegar tíminn hér er liðinn”, þ.e.a.s tíminn innan veggja menntastofnana. Maður hefur haft það nokkuð gott ef þú spyrð mig. Frjáls vinnutími, val á samstarfsfélögum, engir yfirmenn, alltaf hægt að finna skemmtun á föstudögum og 3 mánaða sumarfrí. Hérna er fyrirsögnin ykkar: “Háskólanemi líkir námslokum við lok afplánunar”.

 

Síðustu ár hafa verið skilgreind af haustönn, vorönn og sumarvinnu, maður vissi alltaf af næstu beygju á veginum. Núna virðist leiðin bein og greið og allir vegir færir nema hvað að vegakortið sem maður keypti með láni frá LÍN er bara nafnið manns með með gráðu og stimpli. Heppinn. Ég hélt að ég væri búinn að svara spurningunni um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór þegar ég valdi mér menntaskóla, og síðan aftur þegar ég valdi háskólanám, líka þegar ég var búinn að að hryggbrjóta fjölskylduna með því að hætta í læknanámi og valdi háskólanám númer tvö, sem mörgum fannst skref niður á við frá lækninum, og síðan var ég alveg viss þegar ég valdi mastersnám. Núna er ég búinn að átta mig á að það er tilgangslaust að spyrja sig að þessu. Kosmósinn og yfirsjálf Freuds ræður, fyrir þá sem trúa því. Að einu hef ég þó komist að, maður getur a.m.k. fengið hugmynd um hvað manni langar að vinna við eða ekki með því að prófa að vinna við það.

 

Draumastarfið

Ég held að flestir sæki sér menntun til þess að  landa „draumastarfinu“ einn daginn. Draumstarfið gæti verið andlega nærandi, krefjandi, vel launað, skemmtilegt, við höfum öll okkar skoðanir á því. En hvernig ætli sé best að fanga gæsina þegar úr námi er komið? Ætli það sé ekki bara helvíti erfitt. Þegar nýútskrifaðir háskólanemar fara út á atvinnumarkað lenda þeir margir á glerveggnum. Fyrirtæki vilja eðlilega fólk sem veit hvað það er að gera og því er reynsla oft forgangsmál við ráðningar. Hvernig á rúmlega tvítug manneskja sem er búin að eyða tæpum 20 árum í skóla með sumarstörfum inn á milli að vera komin með einhverja haldbæra reynslu af atvinnumarkaði? Hvernig leysum við vandann sem felst í ákalli aðila vinnumarkaðarins um reynslu á móti reynsluleysi nýútskrifaðra háskólanema?

 

Hvern langar í starfsnám? 

Í Bandaríkjunum á miðri síðustu öld kom fram hugmynd sem er álíka mikil nýlunda hér á landi og súrdeigsbrauð var um aldarmót. Á síðustu árum hafa þó orðið einhverjar hreyfingar og er hugtakið búið að ná einhverri fótfestu. Að undanskildum nemendum sem leggja stund greinar í heilbrigðisvísindum er sjaldséð að háskólanemar fái neina formlega þjálfun á vinnustöðum af hálfu menntakerfisins. Það er mín skoðun að umræðan um að gera starfsnám bæði algengara og aðgengilegra sé löngu orðin tímabær hér á landi. Ég tel að það séu afar fáar neikvæðar hliðar á því að gera íslenskum nemum auðveldara fyrir að afla sér reynslu á meðan þeir eru í námi og það hefur sýnt sig, bæði hérlendis sem erlendis, að þetta er gott tæki til þess að ráða fólk inn í fyrirtæki.

 

Vissulega þarf átak til að stuðla að því fleiri standi þessi kostur til boða. Forsvarsmenn fyrirtækja og háskóla þurfa að vinna saman með aðstoð stjórnvalda til að gera þennan möguleika að raunhæfum kosti fyrir nemendur í öllum háskólum á landinu en einhverstaðar verðum við að byrja og það gerum við með því að tala um hlutina. Ljóst er að viljinn einn er ekki allt sem þarf. Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin til þess að gefa tíma sinn og auðlindir til þess að þjálfa nema en þegar til langs tíma er litið held ég að fyrirtæki njóti góðs af sem og að þjóðfélagið í heild standi betur ef fólk kemur tilbúnara út á atvinnumarkað.

 

Við skulum ekki gleyma því að hrósa fyrir það sem vel er gert en starfsnám þekkist hér á landi og t.d. geta nemendur við Háskólann í Reykjavík og Bifröst valið um að taka starfsnám sem hluta af sínu námi. Ég hef sjálfur persónulega fengið að taka starfsnám sem part að mínu námi og var ég, sem og aðrir sem ég hef rætt við, ákaflega ánægðir með þá reynslu. Með meiri umræðu milli háskólasamfélagsins, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins má hins vegar gera betur og ég vona að fleiri, bæði fyrirtæki og fræðasvið háskólanna, skoði og vegi þann kost bjóða nemum upp á starfsnám. Ég tel að flestir nemar myndu sýna því mikinn áhuga, stæði þeim kosturinn yfirhöfuð til boða.

 

Kristófer Kristófersson er viðskiptafræðingur með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands en stundar nú mastersnám í markaðsfræði við Háskólann í Reykjavík. Skrif hans á Rómi eru háð persónulegum áhugasviðum hverju sinni, en faglegur áhugi hans beinst helst að marksmálum og fjármálamörkuðum.