Harmleikur almenninganna og veggjöldin

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Í ljósi þess að veggjöld eru til umræðu í þingi, á kaffistofum og samfélaginu öllu er tilefni til að fara yfir hvaða kostnaði veggjöld eru hönnuð til að standa straum af.

 

Skattgreiðendur borga – notendur nota

Götur eru dýrir innviðir. Á sama tíma og notendur gera kröfur um gæði og umferðaröryggi vantar oft pólitískan vilja til að veita peninga til þess að tryggja það að gæði og öryggi séu til staðar. Skattgreiðendur eru þegar að borga fyrir vegina með sköttum, bifreiðagjöldum, eldsneytissköttum og fleiri innheimtuleiðum. Fyrir það fá notendur veganna nýja vegi og viðhald þeirra fyrir 29 milljarða árið 2019, en það er bara einn hængur á: Á meðan skattgreiðandinn borgar, fær notandinn að nota vegina frítt.

Allir vilja nota vegina á sama tíma

Harmleikur almenninganna er lýsing á því þegar boðið er upp á þjónustu frítt; Eftirspurn hvers og eins notanda eftir vörunni eykst svo gríðarlega að hún er farin að hafa neikvæð áhrif á samfélagið, sér í lagi þegar framboð vörunnar er á þrotum. Í tilfelli umferðarmannvirkja eru svo margir sem vilja nýta sér vegina á háannatímum að ekki er nægt framboð af gatnaplássi til að bera eftirspurnina. Það er þó nægt framboð af gatnaplássi ef hægt er að dreifa eftirspurn notenda betur yfir tíma.

Hvað kosta vegirnir?

Þegar keyrt er á milli staða kostar það notendur bensín og tíma. En það kostar samfélagið miklu meira en það. Við eðlilegar kringumstæður verður líka að telja eftirfarandi til:

  1.      Kostnaður við að leggja veginn og halda honum við (auðvitað deilt á alla notendur)
  2.      Kostnaður sem myndast af tímasóun allra í mikilli umferð (ytri áhrif á aðra notendur – eykst í veldisvísisfalli með hverjum viðbættum notanda)
  3.      Kostnaður gagnvart umhverfinu (ytri áhrif vegna losunar kolefnis, svifryks og hljóðmengunar m.a.)

Þrátt fyrir mikinn kostnað eru beinar tekjur Vegagerðarinnar af notkun almennings á vegunum engar. Vegagerðin fær greitt úr ríkissjóði til að þjónusta vegi og viðhalda. Allt er það fjármagnað með óbeinum ómarkvissum tekjuöflunarleiðum eins og eldsneytisskatti og vörugjöldum á bifreiðar m.a. Þetta fyrirkomulag hefur tíðkast lengi í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. En það þýðir ekki að ekki sé hægt að gera betur, sérstaklega þegar tekjustofn eldsneytisskattsins mun minnka er fólk breytir yfir í umhverfisvænni orkugjafa.

Notendur eiga að borga

Á meðan skattgreiðendur borga reikninginn þarf notandinn oft ekki að borga. Til dæmis borgar ferðamaðurinn enn engin gjöld fyrir veginn nema mögulega óbeint í gegnum virðisaukaskatt. Einnig gæti það verið svo að Jón, sem notar díselbílinn sinn tvisvar í mánuði, borgar meiri skatta til viðhalds vega en Sigga á rafbílnum sínum sem hún notar daglega í og úr vinnu á háannatíma. Jón borgar þó reyndar kolefnisgjöld af dísilnum. Er þetta sanngjarnt?

Borgum við samt ekki nóg?

Reynsla frá Stokkhólmi og víðar sýnir að þó fólk sé andsnúið vegtollum fyrir innleiðingu þeirra, snýst því hugur þegar það upplifir jákvæð áhrif þeirra á umferðarþunga. Jón og Sigga eru þá tilbúin til að greiða fyrir notkunina, vegna þess að fyrir sanngjarnt verð er tryggt greitt umferðarflæði og fjármögnun innviða. Innheimtan þarf að byggjast á því að notandinn greiði fyrir þá innviði sem hann notar en ekki að skattgreiðendur borgi fyrir það sem allir nota.

Veggjöld geta leyst ýmislegt – ekki allt

Að leggja á ný gjöld er aldrei vinsælt, en á móti má leggja niður önnur. Hér þarf að hugsa kerfið upp á nýtt, fjarlægja ýmsa fjáröflunarskatta eins og eldsneytisskatta og bifreiðagjöld á sama tíma og veggjöld eru innleidd. Málið er flókið – það er óumdeilt. Það er undir stjórnmálamönnum og fagfólki komið að sannfæra þjóðina um alla ávinninga veggjalda. Að stilla veggjöldum upp sem lausnum við umferðarslysum er ekki bara röng lausn, heldur er hún afvegaleiðandi. Veggjöld gætu afrekað að afmá harmleik umferðarteppna á höfuðborgarsvæðinu, minnkað tíma sem fer í að sitja í umferð, aflað tekna til frekari fjárfestinga og viðhalds, aukið umferðarflæði og haft jákvæð umhverfisáhrif ef rétt er staðið að því. Aukin fjárfesting mun vissulega gera vegina öruggari, en menn munu alltaf valda slysum undir stýri þar til bílarnir verða sjálfakandi. Þetta sýna öll gögn.

Arnór Bragi Elvarsson

Pistlahöfundur

Arnór Bragi er samgönguverkfræðingur með áhuga á sjálfakandi bifreiðum og innviðum.

Arnór hefur óþarflega mikinn áhuga á kaffigerð.