Haltur leiðir blindan

eftir Ásgrímur Hermannsson

Það er óhætt að segja að síðasta sunnudag hafi sprengju verið varpað inn í íslenskt þjóðlíf þegar Kastljós greindi frá því að félag í eigu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrum forsætisráðherra eða konu hans (í upphafi þeirra beggja) sé ekki einungis kröfuhafi í föllnu bönkunum, heldur sé það skráð í skattaskjóli á Bresku Jómfrúareyjunum. Brást forsætisráðherra ókvæða við þegar hann var spurður út í tengsl sín við félagið Wintris, svo harkalega að hann rauk á dyr í fússi. „And the rest is history” svo ég sletti.

Viðbrögð og viðbragðaleysi

Boðað hafði verið til mótmæla við Alþingishúsið þegar þing kom saman að loknu páskafríi, daginn eftir sýningu þáttarins. Ljóst var að honum loknum að mótmælin yrðu kröftug og landsmenn reiðir. Fyrstu viðbrögð forsætisráðherra voru á þá leið að gera lítið úr þessum sögulegu mótmælum, „Það mætir nú ekki allt fólkið á Austurvöll.” Það kom síðan á daginn að mótmælin voru ein þau fjölmennustu í Íslandssögunni, hátt í 10% íbúa höfuðborgarsvæðisins komu saman á Austurvelli til að láta óánægju sína í ljós.

Viðbrögð Framsóknarflokksins fylgdu svo þeirri línu sem forsætisráðherra setti, skeytingarleysi og tilraunir til að draga úr alvarleika málsins. Þegar Sigmundur áttaði sig á að málflutningurinn hefði ekki tilætluð áhrif, rauk hann á Bessastaði til fundar við forsetann þar sem ætlunin var að halda á brott með þingrofsheimild í nesti. Skipið var við það að sökkva og Sigmundur skipsstjóri ætlaði sér ekki að einungis sökkva með því, heldur ætlaði hann sér að skera á björgunarbátana og sjá til þess að allir sykkju með sér. Hrópandi á leiðinni: Ef ég fæ ekki að vera skipstjóri þá verður ekkert skip!

Viðbrögð hins stjórnarflokksins fylgdu þó annarri línu sem hófst á engum viðbrögðum, æpandi þögn. Í upphafi var sú þögn einungis rofin með ótal viðtölum við Guðlaug Þór Þórðarson, sem margir hafa eflaust talið endursýningu af sama viðtalinu, þar sem hann gat lítið annað sagt en að hann hefði í raun ekkert að segja… að minnsta kosti þangað til að Bjarni myndi snúa aftur heim úr fríi sínu á Flórída og hefði fundað með þingflokknum. Bjarni kom síðan heim og fór á fund forsætisráðherra, nú þyrfti að gera breytingar, ríkisstjórnin gæti ekki haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Skipta þyrfti um mann í brúnni. Síðar var Bjarni boðaður á Bessastaði þar sem hann ræddi við forsetann um þessa ótrúlegu heimsókn Sigmundar og hvað væri til ráða.

Framsækinn farsi

Þegar Sigmundi hafði mistekist að sannfæra Bjarna og mistekist að sannfæra Ólaf mætti hann loks á þingflokksfund og sætti sig við að hann gæti ekki lengur verið forsætisráðherra svo að ríkisstjórn hans stóð upp úr stólum sínum til þess eins að setjast aftur niður án hans, með skuggaráðherra hans, Sigurð Inga, í fararbroddi. Sigmundur hafði hvorki sagt af sér sem forsætisráðherra né þingmaður og situr enn sem formaður Framsóknarflokksins. Í krafti þess embættis tilnefnir hann ráðherra Framsóknar og því er mikilvægt að það verði hafið yfir allan vafa að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafi ekki farið frá til þess eins að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tæki við.

Velkomin í veisluna

Þegar allir eru svo sestir aftur fyrir utan Sigmund er ekkert annað í boði en að bjóða fólk velkomið í veisluna. Eins og í öllum góðum veislum þurfti samt að vera smá uppákoma frá skrýtna frændanum og áður en gestgjafinn bauð alla velkomna tók Höskuldur frændi það að sér öllum að óvörum, einna helst sér sjálfum. Að lokum skilaði Bjarni sér þó niður stigann í Alþingishúsinu og tilkynnti blaðamönnum um hver niðurstaðan væri. Kosningar í haust og að nú væri farið á fullt að klára þau mál sem væru í vinnslu á meðan stendur Sigurður vandræðalegur og fámáll, líkt og fermingardrengur sem fær sig ekki til að bjóða gestina velkomna í eigin veislu.

Hvernig veislan fer veit enginn, ljóst er að mörg þörf verkefni bíða afgreiðslu þó fá stærri en afnám hafta. Það liggur beinast við að álykta sem svo að Sigmundur hafi ekki fengið að sökkva ríkisstjórninni, aðallega vegna mikilvægi þess verkefnis. Hvernig það fer stýrir því í raun hvort að ríkisstjórnin fái uppreist æru sem áhöfnin sem henti skipstjóranum fyrir borð og bjargaði skipinu eða verði minnst sem ríkisstjórnarinnar þar sem haltur leiddi blindan.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.